Ágætu dróttskátar!

Gönguhópnum hefur borist veður af nokkurri óánægju með keppnisgjald í DS Göngunni þetta árið og er ætlunin með þessum pistli að friða þær raddir og leiðrétta misskilning, sem ef til vill kann að hafa komið upp.
Á síðasta ári var gangan haldin eftir nokkurt hlé og er það mikil synd að nokkrar kynslóðir dróttskáta hafi misst af þessu mikla ævintýri. Var því mikill hugur í mönnum á síðasta ári að endurvekja gönguna og koma henni aftur á blað í íslensku skátalífi. Það eina sem við gengum út frá í fyrra var að við vissum um nokkur áhugasöm lið og náðum að fá nokkra eldri skáta og hjálparsveitir í lið með okkur til að koma þessu sómasamlega frá okkur.
Kostnaðartölur voru nokkuð á reiki en þó vissu menn nokkurn veginn hvað hinir margrómuðu Zippó kveikjarar myndu kosta okkur úr heildsölunni og hvað áletrun kostaði. Við sömdum við nokkra skálaeigendur um að leigja skála sína gegn hóflegu gjaldi því hefðbundið hausagjald (500 krónur á mann) myndi aldrei ganga upp í þessu dæmi. Fengnir voru skálarnir Þrymur, Lindarbær og Dalakot (Kútur líka kannski?) og lagt út í myrkrið án nokkurrar hugmyndar um hversu mörg lið myndu sjá sér fært að mæta eða hvernig gengi að smala inn starfsliði í þetta.
Nokkrir góðir styrktaraðilar (m.a. Cintamani, BÍS, ÍTR, Klifurhúsið og Flugskóli Íslands) veittu okkur glæsileg verðlaun þar sem þeir töldu að væri góð kynning á þeirra starfsemi. Mikil vinna lá á bakvið þessa styrki því fólk á vegum göngunnar eyddi miklum tíma í að hafa samband við hina ýmsu aðila til að fá þetta í gegn. Skátablaðið reddaði lógóum fyrir nokkra aðila en aðrir fengu ekki neitt nema það “good-will” sem þeir vonandi hafa fengið innan skátahreyfingarinnar.
Sjö lið mættu til keppni og var það heldur minna en við höfðum verið að vona. Engu að síður var ákveðið að slá til enda mikil synd að láta þátttökuleysið bitna á þeim sem þó höfðu brennandi áhuga á að vera með. Starfsliðið var heldur fámennt og var mikill barningur að ná að koma öllum póstum fyrir og manna þá pósta sem þess kröfðust. Skipulaginu var að sumu leyti ábótavant hjá okkur en við náðum þó að gera gott úr þessu þó lausir endar hafi verið óþarflega margir. Gangan gekk engu að síður nokkuð vel þrátt fyrir afleitt veður og færi (rigning og krapi yfir öllu) og er vonandi að flestir muni eftir keppninni með jákvæðu hugarfari þrátt fyrir það.
Þá er komið að keppninni í ár.
Vonir voru uppi um að fá a.m.k. 10 lið til þátttöku og að þau lið myndu spanna alla flóru DS lífsins, bæði hvað varðar aldur og heimabyggð því hluti af göngunni er að sjálfsögðu að kynnast öðrum og etja kappi við jafnoka sína og jafnvel ofjarla úr öðrum liðum. Erfiðlega gekk að fá hjálparsveitarfólk til starfa sökum hinna ýmsu ferða sem sköruðust á við gönguna og var hún því flutt aftur um 2 vikur. Engu að síður er heldur hörgull á fólki heldur en hitt.
Hefur hópurinn fundað reglulega til að fara yfir stöðu mála og hefur mikill tími farið í að leggja upp formlegar keppnisreglur, stigareglur og fleira til að skipulagið verði formfastara en í fyrra svo allir viti hvar landið liggur áður en lagt er á Heiðina 5. apríl nk. Búið er að fá skálana Þrym og Lindarbæ og verið er að vinna í að fá Hreysi, Glaumbæ og Dalakot (veit ekki alveg með stöðuna á þeim). Orkuveituskálinn er opinn fyrir alla svo ekki er hægt að bóka hann en við stefnum engu að síður á að nota hann sem miðstöð á Reykjadalssvæðinu.
Kostnaður við skálana er ennþá óljós en vonandi gera allir sér grein fyrir því að fyrir hvern keppanda verður væntanlega hálfur til heill starfsmaður þannig að ef við þyrftum að borga hausagjald á alla í skálum (og gerum ráð fyrir að við látum okkur nægja að starfsmenn borgi matinn ofan í sig en ekki gistinguna), þá værum við að tala um að 1500-2000 krónur væru kostnaðurinn á hvern keppanda við skálana eina og sér! Ég ætla að vona að enginn sé að gera kröfu á að við látum starfsmenn borga gistinguna því þá getum við alveg gleymt því að fá fólk í þetta – nógu erfitt er það nú fyrir.
Kostnaður við Zippó-ana er faktor sem við getum ekki breytt. Samkvæmt mínum heimildum kostar kveikjarinn sjálfur kostar 1800 krónur (þessi dýrari týpa kostar tæplega 4000 út úr búð) og áletrunin (lógó + persónulegur texti, nafn eða annað) um 700. Þetta gerir 2500 á mann. Hvað gönguna varðar þá skiptir þessi Zippó engu máli nema að hann heldur arfleifð göngunnar á lofti og hefur verið flaggskip og auglýsing hennar frá því hún var fyrst haldin á Suðurnesjum upp úr 1990. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að keppendur taki þátt í göngunni án þess að kaupa sér kveikjara. Við vitum að flestir iða í skinninu að eignast þennan fræga kveikjara en við gerum okkur grein fyrir því að fjárhagurinn getur verið knappur hjá fólki eins og gengur.
(Því miður dróst óeðlilega mikið að koma Zippóum síðasta árs til réttra aðila og voru ýmsar ástæður fyrir því, m.a. stóð gaurinn sem sá um áletrum í flutningum og komst ekki í þetta fyrr en seint og um síður, í öðru lagi fór einn starfsmaður erlendis og týndist þar með listinn með áletrununum og í þriðja lagi dróst að ýta á eftir þessu öllu sökum almenns seinagangs í okkur. Við munum gera okkar besta til að gripirnir komist hratt og örugglega til skila í ár.)
Eftir standa þá 1500 á mann sem fer í beinan kostnað við gönguna. Sumum finnst sú upphæð í hærra lagi en í fyrra var hagnaður af göngunni á skalanum 100-kallar til örfáir þúsund kallar (rámar eitthvað í um 2000 í hagnað), þegar búið var að borga skálagjöld og efniskostnað (efni í pósta, landakort, áletraðan skjöld á verðlaunagrip og fleira).
Rétt er að geta þess að ekki nokkur maður færi svo mikið sem grænan túskilding fyrir að koma að þessari göngu, hjálparsveitirnar leggja til tæki og fólk frá þeim og eldri skátar leggja til sinn tíma (og mat yfir helgina) fyrir ekki neitt. Miðað við tímann sem er nú þegar búinn að fara í þetta þá hlýtur það að gefa okkur að við erum öll alveg afspyrnu léleg í að semja um tímalaun. Enginn fær neitt frítt frá styrktaraðilum eða sporslur af nokkru tagi og því er kostnaður við mannahald og tæki ekki neitt.
Þess ber einnig að geta að þar sem fjöldi þátttakenda er MJÖG óljós (gæti orðið 4 lið, gæti orðið 15), þá er mjög erfitt að áætla kostnað á mann við skála og efni. BÍS hjálpar okkur með skráningu og annað í sambandi við þetta en það er enginn að fara að taka á sig hugsanlegt tap af göngunni, því hún Á AÐ STANDA UNDIR SÉR, sama hvernig gengur.
Við sjáum okkur því ekki fært að taka þá áhættu sem felst í því að lækka gjaldið niður fyrir 1500 á mann en ef við höldum vel á spöðunum og komum vel út, þá gæti myndast svigrúm til að greiða niður gönguna að ári.
Vonum við að menn sýni þessu skilning og rífi nú upp móralinn fyrir göngunni sem hingað til hefur einkennst leiðinlega mikið af þófi og harðorðum yfirlýsingum um að illa sé að þessari göngu staðið. Ég get fullvissað ykkur um að við gerum þetta eins vel úr garði og hægt er og að þetta verður ævintýri til að minnast!
Þeir sem ekki hafa tök á að kaupa kveikjarann eru vinsamlegast beðnir um að taka samt þátt, skrá sig sem fyrst á skrifstofu BÍS (550-9800) og greiða 1500 í keppnisgjald um leið.

Gönguhópurinn