Man eitthver eftir þeim þáttum? Á íslensku hétu þeir “Á norðurslóðum”. Hér var um að ræða sjálfstæðan bandarískan framhaldsþátt sem rúllaði nokkur misseri á Stöð 2 fyrir nokkrum árum. Fantagóðir þættir! Sjaldgæft eintak af lágstemmdum söguþræði, hógvær persónusköpun og athyglisvert fólk. Hér er ekkert helvítis David Kelley-tilgerðarhégómasull (sbr. The Practice og Ally McBeal) á ferð. Þættirnir gerðust í smábæ í Alaska og voru Rob Morrow (Quiz show) og Janine Taylor (Cliffhanger) í aðalhlutverkum. Einnig var þarna gamla brýnið Barry Corbin en hann er kunnur í stórkarlalegum rullum í amerískum bíómyndum. Aðrar aukapersónur voru einkar athyglisverðar og enginn í þessum smábæ leit út fyrir að gera það sem hann gerði - martröð þeirra sem þurfa að búa til steríótýpur úr öllum. Persónustúdíurnar í Northern Exposure voru einkar athyglisverðar og sjaldan leiddist þátturinn út í væmni. Samtöl voru einnig langt yfir meðallagi. Það fór lítið fyrir þessum þáttum á stöð 2 á sínum tíma en mikið óskaplega væri gaman að sjá álíka mínimalískan þátt nú til dags - þegar unglinga-, “raunveruleika”- og hégómaþættir eru mann lifandi að drepa.

Gaman væri ef stöð 2 myndi grafa upp þessa frábæru þætti og endursýna þá. Það væri sannarlega menningarlega uppbyggilegt sparnaðarátak. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu tímum.