Jesús minn almáttugur! Eftir þáttinn á mánudagskvöldið sannfærðist ég endanlega um að þetta eru allt með tölu ofdekraðir og spilltir unglingar með alltof mikla peninga á milli handanna (undantekningin eru Ryan og Theresa, þau eru náttla ekki dekraðir ríkisbubbar, en ekkert skárri samt!)

Hvað er málið með Seth? Hann virtist nú alltaf vera skynugur ungur piltur en framkoma hans í þessum fyrsta þætti annarar seríu var fyrir neðan allar hellur! Hvað meinar hann með því að ætla að kenna foreldrum sínum um það að Ryan barnaði viðhaldið sitt og ákvað í framhaldinu að standa við bak hennar?!? Ég missti satt að segja allt álit á honum, uss! Dekraður unglingur í frekjukasti …

Snúum okkur svo að Marissu … áfengi í öll mál! Hún hefði betur farið í meðferðina sem að Julie vildi senda hana í í seríu eitt, þá væri hún kannski ekki orðinn að þessari byttu sem hún er núna … Þau vissu það kannski ekki þá en Ryan og pabbi hennar gerðu henni bara óleik með því að láta hana komast upp með það að fara ekki í afvötnun og allsherjar sálfræðimeðferð hjá fagfólki. Það er of seint að birgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í! En Marissa er einmitt gott dæmi um ofdekrað og spillt barn sem er orðin að skemmdum unglingi … Ryans vegna ætla ég að vona að þau taki EKKI saman aftur, það var nóg fyrir hann að alast upp hjá áfengissjúklingi hann þarf ekki að velja sér einn fyrir lífsförunaut líka!

Ryan sýndi það og sannaði í þættinum að hann er VERSTI kærasti/vinur sem að stúlka gæti óskað sér! Hvaða eigingjarni hálfviti stingur stúlkuna sem hann barnaði af eftir að hún missir fóstur? Ef að satt væri þá myndi Theresa eflaust þarfnast hans meira nú en nokkurn tímann áður! Þetta var alveg svaðalega illa hugsað … sama þó hún hafi sagt “ekki koma aftur”, hann á að vita betur!

Að lokum er það Theresa … af hverju þarf þetta að vera af eða á? Af hverju getur Ryan ekki stutt hana og staðið henni við hlið þó svo að hann búi hjá Cohen-hjónunum? Af hverju, ef þau þurftu að vera saman 24-7 gat Theresa ekki flutt inn í sundlaugarhúsið til Ryans? En miðað við stöðu mála, þá var það kannski ágætt hjá henni að feika fósturmissinn, nú getur Ryan að minnsta kosti verið þar sem hann vill vera … en þetta má ekki viðgangast lengi, bæði Ryan og barnið eiga rétt á að vita hvort af öðru!

En þessi fyrsti þáttur af OC sýndi manni allduglega hve MIKIÐ betri OTH er! Maður bara sársaknar þess þegar maður sér keppinautinn! En þar sem ég er “unglingasápu”fíkill þá mun ég samt horfa til enda … kostar bara fleiri blótsyrði:-)