300 - Orrustan við Laugarskarð - Hvað gerðist í raun og veru? Eins og allir hafa tekið eftir þá hefur myndin 300 verið að gera mjög góða hluti í bíóhúsum hérlendis jafnt og erlendis, en mér datt þessvegna í hug að senda hérna inn grein um það sem gerðist í raun og veru, og hversu mikið í myndinni er í raun byggt á raunveruleikanum. Ekki misskilja mig, mér þótti myndin þónokkuð góð, en enginn getur neitað því að hún er gríðarlega ýkt, en mér datt í hug að fólk hefði kannski áhuga á því að vita hvað gerðist í raun og veru.

Þetta er texti sem ég samdi þegar ég var að gera fyrirlestur um orrustuna við Laugarskarð, og ég vona bara að þið hafið gaman af.

Í orrustuni við Laugarskarð tóku Grískir hermenn á móti Persneskum innrásarher í fjallaskarðinu Laugarskarð. Þótt gríski herinn væri margfalt stærri náðu Grikkir að aftra innrás Persa í einni frægustu lokastöðu sögunnar.

Sagan byrjar þannig að Xerxes I, konungur Persa, hafði í mörg ár búið sig undir það að halda áfram því stríði sem faðir hans Daríus hafði byrjað. Árið 481 f. kr, eftir 4. ára undirbúning, kom Persneski herinn til Litlu Asíu. Persar voru á þeim tíma mun stærra heimsveldi en Grikkir og hér sést hversu langt völd þeirra náðu.

Þing var kallað saman í Kórinþu að hausti 481 f.Kr, þar sem Spartverjar sátu fyrir fundi, en í Spörtu voru drengir þjálfaðir frá unga aldri í hermennsku og voru því með bestu heri þeirra tíma. Mjög lítið er vitað um hvernig þetta þing fór fram og um hvað var rætt nákvæmlega á meðan að því stóð, en þar var andspyrna Grískra sambandsríkja skipulögð.

EFtir að Persneski herinn hafði fyrst mætt andspyrnu frá her 10þúsund fótgönguliða frá Spörtu og Aþenu sendi Xerxes herinn í gegnum Sarantoporo skarð, og ætlaði þannig framhjá þeim, en eftir aðvörun frá Alexander I. frá Makedóníu gátu Grikkir komist í veg fyrir þá tímanlega og mættu þeim í Laugarskarði (Thermopylae)

Í þessu mjóa skarði, sem á þeim tíma var það mjótt að aðeins 2 hestvagnar gátu riðið þar í gegn hlið við hlið, tók Leonídas, konungur Spartverja á móti Persum, og undir hans stjórn voru 300 Spartverjar og 7000. Grikkir.

Leonídas var þekktur fyrir hugrekki og dug, og var í mjög miklu áliti hjá mönnum sínum jafnt og öðrum Grikkjum sem trúðu því einatt að hann væri beinn afkomandi Herkúlesar. Sem dæmi um hugrekki hans, þá þegar Xerxes skipaði öllum Grikkjum, á fyrsta degi orrustunnar, að afhenda honum öll vopn sín svaraði Leonídas einfaldlega “Komdu þá og náðu í þau”.




Þegar njósnarar sögðu Xerxes fyrst frá stærð Gríska hersins, og frá því að Grikkirnir væru að stunda teygjuæfingar og greiða á sér hárið fannst honum það hlægilegt. Hann vissi hinsvegar ekki að þessar athafnir voru hefðir, og fólu í sér undirbúning þeirra manna sem eru tilbúnir að mæta dauða sínum í bardaga. Xerxes bjóst hinsvegar við því að herinn myndi fljótlega leysast upp og flýja. Þegar Grikkir flúðu hinsvegar ekki varð hann reiður yfir því sem hann kallaði heimsku og hroka hers sem væri augljóslega minnimáttar, og á 5. deginum sendi hann herinn í skarðið.
Þannig hófst orrustan.

Grikkirnir röðuðu sér upp í Phalangs, eða svokallaðan spjótvegg, og biðu þannig. Phalangs er þannig uppbyggður að hver maður skýlir næsta manni með sínum skildi og heldur út löngu spjóti sem þeir nota gegn óvinum sem hætta sér of nálægt. Persar reyndu að nota örvar og stutt spjót, en þeir höfðu ekkert í langspjót spartverja og þeirra yfirburða her. Vegna landslagsins var einnig ómögulegt fyrir Persana að umkringja Grikkina þannig að gífurlegur fjöldi þeirra kom þeim að litlu gagni.

Fyrsta daginn voru 20.000 persar sendir í skarðið en neyddust til að flýja eftir gífurlegan mannskaða. Næsta dag voru 50.000 menn sendir en það var sama sagan. Seinna sama dag var send inn sérstök herdeild sem gekk undir nafninu “Hinir Ódauðlegu Persar”, sem samanstóð af 10.000 sérþjálfuðum hermönnum, en jafnvel þeir þurftu að snúa smánaðir við. Það leit út fyrir að Grikkir gætu haldið þessu skarði að eilífu og að sigur þeirra væri öruggur.

Liðsandinn var mikill í herbúðum Grikkja. Svo mikill var hann í raun að sagt er að þegar Díenekesi, Spartverskum hermanni, var sagt að örvaflóð Persa myndu loka fyrir sólina svaraði hann hortugur “Ennþá betra. Þá berjumst við bara í skugganum!”


Það breyttist hinsvegar allt þegar bæklaður maður að nafni Efíaltes, sem hafði allt sitt líf verið útskúfað og smánaður af Spartverjum, sveik Grikki og sagði Xerxes frá annari leið í kringum fjallið þar sem hann gæti komist með her sinn aftan að Spartverjunum. Sú leið var varin af aðeins 1000 Fókíumönnum. Xerxes sendi Hydarmes og hersveit hans, hina ódauðlegu, gegnum þetta skarð. Þar mættu þeir veikri mótspyrnu og komust að lokum í gegn. Eftir þau svik hefur nafnið Efíaltes orðið samheiti fyrir martröð í grísku, og bein þýðingin á orðinu er “Svikari” .

Nú var það víst fyrir Leonídasi að þessi barátta væri töpuð. Því ákvað hann, á þriðja degi orrustunnar, að senda alla Gríska hermenn heim nema þá 300 Spartverja sem með honum voru. Hinsvegar neituðu 700 Þespíumenn, undir stjórn Demofílusar, að fara og hétu því að berjast með Spartverjunum til loka. Spartverjarnir vissu að þetta þýddi endalok þeirra, en þeir trúðu því að það væri enginn meiri heiður en sá sem hlýst af því að láta lífið í Orrustu.


Persar sendu að lokum nær allan her sinn á móti Spartverjum í þetta þrönga skarð. Orrustan var löng og erfið, en vegna yfirburða stöðu sinni náðu Spartverjar að halda út allann daginn, áður en að Persar náðu að þurrka þá alla út með örvahríð. Talið er að mannfall Persa hafi verið vel yfir 20.000, jafnvel yfir 50.000, og frá þeim tíma hefur þessi barátta því verið kennslubókardæmi um það hvernig yfirburða þjálfun, agi, herkænska og notkun á umhverfinu getur haft gífurleg áhrif á útkomu orrustu.

Eftir orrustuna var Xerxes svo æfareiður yfir gífurlegu manntapi sínu að hann skipaði mönnum sínum að hálshöggva líkið af Leonídasi og krossfesta búkinn. Slík vanvirðing á líki, jafnvel á óvini, þótti vera til mikillar skammar og Xerxes sagðist síðar sjá mjög mikið eftir þessu.

Þegar fregnir af fórn þessara fáu manna sem létu lífið þennan dag bárust um Grikkland, varð það til þess að hvetja borgríkin í Grikklandi til að sameinast og berjast gegn innrásarhernum, og það var einungis þessvegna sem Grikkir náðu að lokum að hrekja Persana úr landi sínu.

40 árum eftir orrustuna var líki Leonídasar síðan skilað til Spörtu, þar sem hann var grafinn með sæmd og hátíðir voru haldnar í minningu hans á ári hverju.

Stuttu áður en Spartverjarnir létu allir lífið náðu þeir að höggva í stein skilaboð sem þeir vildu koma til skila áður en þeir dæju. Þar stendur enn í dag minnisvarði og á honum stendur orðrétt :

„Ō xein', angellein Lakedaimoniois hoti tēde
keimetha tois keinōn rhēmasi peithomenoi.”

og þýðingin er nokkurn veginn svona:

Farðu og segðu Spartverjum, kæri farandmaður, að hér liggjum við í valnum, ávallt trúir málstaðnum.

Þetta skrifuðu þeir því að þeir vildu að komandi kynslóðir vissu að, ekki einungis létu þeir lífið, heldur frekar að þeir hafi verið trúir málstaðnum til endaloka.

—————————————————-

Og þannig er það. Hvaða skoðun sem fólk svosem hefur á Persum og Spartverjum, þá er ekki hægt að neita því að þetta er nokkuð mögnuð saga, og ég vona að þið hafið haft jafn gaman af henni og ég.
In such a world as this does one dare to think for himself?