Kapteinninn frá Köpenick Það er við hæfi að ljúka árinu á lítilli gamansögu :)

Á árinu sem er að líða minntust íbúar í Köpineck þess að öld var liðið frá skondnu atviki, sem var í sjálfu sér meira fyndið en merkilegt, en vakti þó mikla athygli á sínum tíma - hvort sem viðbrögðin voru hlátur, hneykslan eða sambland hvoru tveggja. Köpineck var árið 1906 sjálfstætt bæjafélag í útjaðri Berlínarborgar, en varð síðar stjórnsýslu-umdæmi innan borgarinnar, sem það er enn í dag.

Árin uppúr aldamótum 1900 voru tími friðar og hagsældar í Þýskalandi. Keisaradæmið sem stofnsett var í kjölfar Fransk-Prússneska stríðsins 1870, stóð orðið föstum fótum undir forystu Vilhjálms II, og hafði mjög sótt í sig veðrið efnahagslega og hernaðarlega. Þýska keisaradæmið var tvímælalaust orðið eitt af mestu stórveldum heims, og heimafyrir var reglufesta og virðing fyrir hefðum talin hin æðsta dyggð. Og helsti verndari þeirrar reglufestu var herinn. Virðing Þjóðverja almennt (en þó sérstaklega Prússa) fyrir hernum, átti sér helst hliðstæðu við hina sögufrægu Spartverja Forn-Grikklands.


Óreglumaður nýtir sér regluna

Einn af þeim sem ekki höfðu notið hins almenna þýska góðæris á þessum tíma, var ólánsmaður að nafni Wilhelm Voigt. Hann var 43 ára að aldri, hafði ungur lært skósmíðaiðn af föður sínum, en þó varið meira af ævi sinni innan fangelsisveggja fyrir smáþjófnaði og skjalafals en við iðnina. Hann var einmitt nýbúinn að sitja af sér dóm þegar hann kom til Köpenick árið 1906 þar sem hann bjó hjá systur sinni og hafði lítið við að vera. Einn daginn keypti hann sér í skransölu gamlan einkennisbúning höfuðsmanns (kapteins) í Prússneska hernum, og fékk sér gönguferð í honum. Þegar hann sá hvílíka virðingu hann fékk í búningnum, flaug honum snjallræði í hug til að verða sér úti um auðfengið fé…

Þann 26. október 1906 klæddi Voigt sig upp í einkennisbúninginn fína, “sjænaði sig til”, og þrammaði hnarreistur um strætin í Köpenick eins og sá sem valdið hefur! Þegar hann gekk fram á herflokk við æfingar, skipaði hann liðþjálfa flokksins að fylgja sér, þeir hefðu “mikilvægum opinberum erindagjörðum” að sinna. Liðþjálfinn hlýddi umyrðalaust, og það gerði einnig liðþjálfi annars herflokks sem þeir gengu fram á skömmu síðar.

Undir forystu “kapteinsins” marséraði liðið að ráðhúsi bæjarins. Þar fyrirskipaði Voigt öðrum liðþjálfanum ásamt nokkrum hermönnum að fylgja sér inn á bæjarskrifstofur, en hinum og restinni af liðinu að umkringja ráðhúsið og varna öllum útgöngu. Þar inni sátu bæjarstjóri og bæjargjaldkeri að störfum, og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar kapteinn úr hernum ruddist skyndilega inn með alvopnuðu liði.

Kapteinninn hóf upp raust sína: Komið höfðu upp grunsemdir um misferli ákveðinna bæjarráðsmanna við framkvæmdir holræsaviðgerða, og hefði sér verið falið að ganga úr skugga um málið. Skyldu bæjarstjórnarmenn þegar í stað afhenda sér bókhaldsgögn og bæjarsjóð sjálfan (sem þá var ekki tölur í tölvum banka, heldur seðlar í kassa inní peningaskáp).

Bæjarstjórinn varð að sjálfsögðu mjög klumsa, en tókst þó að stynja upp einhverju tauti um að hann yrði að sjá einhverjar skriflegar heimildir fyrir slíku. Kapteinninn gerðist þá strangur og valdsmannslegur á svip, benti á byssustingi hermanna sinna og sagði “Hér er mín heimild!” …En að sjálfsögðu myndi bæjarstjórinn fá kvittun fyrir haldlögðum skjölum og fé, enda myndi rannsóknin ekki taka langan tíma. Bæjarstórinn gaf sig, og “kapteinninn” valsaði út úr ráðhúsinu með ca. 4000 ríkismörk í kassa undir handleggnum. Hermenn “hans” stóðu teinréttir þegar hann strunsaði hermannlega framhjá þeim, fyrir hornið… og sást ekki meir!!

Þegar bæjarstjórnarmönnum, og loks liðþjálfunum líka, fór að leiðast biðin eftir að “kapteinninn” sneri aftur, komst loks upp hverskyns hlyti að vera, og varð uppi fótur og fit. Rannsókn hófst á þessu furðulega máli, og 10 dögum síðar var “kapteinninn” loks handtekinn, búinn að eiga nokkra góða daga á bæjarsjóðnum!


Fullkominn fjölmiðlamatur

Að sjálfsögðu komust blaðamenn fljótlega að þessu “stönti” Voights. Mikið var hlegið, og sagt er að sjálfur hafi Vilhjálmur keisari ekki getað annað en skellt uppúr. Líklega hafa bæjarfulltrúarnir og hermennirnir sem létu glepjast, reynt að láta sem allra minnst fyrir sér fara á meðan þessu blaðafári stóð!

Fréttin barst síðan til annara Evrópulanda, og þar var jafnvel enn meira hlegið – enda þarna komið alveg hreint rakið dæmi um þennan prússneska hernaðaranda sem mönnum þótti einkenna þýskt samfélag. Það var þá satt sem sagt var um þýskarana, þeir hlýddu umsvifalaust hverjum þeim fyrirmælum sem einhver með gadd-hjálm og þykkt snúið yfirvaraskegg orgaði á þá! Líklega hefur fólki, t.d. í Bretlandi og Frakklandi, þótt það ágætt að fá loks smá-tilefni til að skopast aðeins að þessum ógurlega þýska her og þjóðinni að baki honum.

Af Voigt kallinum er það að segja að hann fékk fangelsisdóm fyrir ránið á bæjarsjóðnum og að villa á sér heimildir sem kapteinn í hernum. Voru honum þó (svo lítið fór fyrir) gefnar upp sakir og sleppt árið 1909. Fluttist hann til Lúxemborgar og tókst með sæmilegum árangri að lifa á sinni “15 mínútna frægð” allt til dauðadags árið 1922. Síðar var samið leikrit um uppátækið og eftir því gerð fleiri en ein bíómynd. Gaman yrði að vita hvort einhver sem þetta les kannast við söguna.
_______________________