Fidel Castro Ég og félagi minn gerðum ritgerð um Fidel Castro og langaði mér að deila henni með ykkur. Vinsamlegast ekki stela henni, eða úr henni, nema vitna í hana.

Uppreisnarmaðurinn Fidel Castro

Fidel Alejandro Castro Ruz eða einfaldlega Fidel Castro fæddist í bænum Birán 26. ágúst 1926. Faðir hans hét Ángel Castro y Argiz og móðir hans Lina Ruz González en hún var húsfreyja og viðhald Ángels. Castro átti sex systkini, tvo bræður, þá Raúl og Ramón, og fjórar systur, Angelitu, Juanitu, Enmu, og Agustinu. Hann átti líka tvö hálfsystkin, Pedro og Lidiu.
Castro giftist Mirtu Díaz Balart, en hún tilheyrði ríkri kúbverskri fjölskyldu og fékk hann að kynnast lífi ríka fólksins á Kúbu í gegnum hana. Ekki er ólíklegt að þannig hafi hann fengið að kynnast spillingu aðalsins. Castro fékk fyrst áhuga á pólítík þegar hann var í háskólanum í Havana. Hann útskrifaðist úr skólanum árið 1950 með doktorsgráðu í lögfræði og opnaði litlu seinna lögfræðistofu í Havana.
Árið 1947 gekk hann í “Partido Ortodoxo” stjórnmálaflokk Eduardo Chibás. Chibás þessi átti þá í kosningabaráttu við sitjandi forseta Ramón San Martín. Á kjörtímabili hans hafði spillingin fengið að blómstra og Bandaríkjamenn höfðu tögl og hagldir í efnahagslífinu. Chibas tapaði kosningunum en ákvað að bjóða sig aftur fram að fjórum árum liðnum. Í forsetakosningunum 1951 varð hann fyrir því óhappi að skjóta sig í magann í beinni útvarpsútsendingu. Castro fylgdi honum á spítalann þar sem hann lést. Castro lét þetta ekki stöðva sig og bauð sig sjálfur fran til þings. En það varð aldrei neitt af því vegna þess að herforinginn Fulgencio Batista framdi valdarán, aflýsti kosningum.og lýsti sig sjálfan forseta.
Castro var ekki sáttur við þetta og stofnaði hann neðanjarðarhreyfingu með bróður sínum Raúl til þess að velta Batista úr sessi. Þann 26. júlí réðust þeir á Moncada herstöðina en árásin misheppnaðist herfilega og féll tæpur helmingur uppreisnamanna eða 60 manns. Castro var handsamaður og réttað var yfir honum. Í frægri varnarræðu sinni sagði hann: “Dæmið mig. Það skiptir engu máli. Sagan mun sýkna mig.” Hann var dæmdur í 15 ára fangelsi. Hann var náðaður eftir tvö ár.
Castro fór þá til Mexíkó og fékk til liðs við sig aðra útlæga Kúbverja og stofnaði 26. júlí hreyfinguna. Í hreyfingunni var meðal annarra Che Guevara. Castro var í reglulegu sambandi við KGB útsendara í von um að fá vopn. Þegar það dróst á langinn sneri Castro sér til Bandaríkjanna. Þar fékk hann góðan stuðning frá útlægum Kúbverjum.
2. desember 1956 gekk Castro á land á Kúbu ásamt fylgismönnum sínum. Þetta var fámennur hópur, aðeins 81 manns. Þetta reyndust vera stór mistök því að hermenn Batista réðust á þá strax við komuna. Castro og 20 aðrir náðu að flýja inn í fjöllin við illan leik. Þar endurskipulögðu þeir sig, og stunduðu skipulagðan skæruhernað.
Í maí 1958 sendi Batista heirsveitir til að gjöreyða hersveitum Castro og öðrum uppreisnarsveitum. Aðgerðin kallaðist Verano en var kölluð “la Ofensiva” af uppreisnarmönnum. En her Batista mátti sín ekki mikils gegn þaulæfðum sveitum Castro.
Eftir að hafa gjörsigrað her Batista snéri Castro vörn í sókn og með hjálp herforingja sinna, Che Guevara, Jaime Vega og Camilio Cienfuegos náði hann völdum á stórum svæðum á Kúbu
Eftir áralanga borgarastyrjöld var byrjað að halla undan fæti hjá Batista. Eftir að hann komst að því að herforingjar hans voru í samningaviðræðum við Castro ákvað hann að flýja land, hann flúði til Dóminíska lýðveldisins 1. janúar 1959. Castro var þá snöggur til og náði völdum í öllu landinu. 8. desember gengu sveitir Castro hrósandi sigri um götur Havana. Blaðamaður New York Times lýsti þessu sem gleðistund fyrir íbúa, svartir og rauðir fánar út um allt, bílar flautandi og mikil gleði í loftinu. Fidel Castro, þá aðeins 32 ára að aldri var orðinn forseti Kúbu.

Kommúnistinn Fidel Castro

Stuttu eftir valdatökuna fór Castro í heimsókn til Bandaríkjanna. Hann vildi koma vel fyrir þar og því fékk hann bestu almannatengslastofu Bandaríkjanna í lið með sér. Það virtist virka því fólk leit á hann sem bjargvætt Kúbu, hann var hnyttinn í viðtölumog borðaði pylsur og hamborgara. Honum var hins vegar neitað um að hitta Eisenhower þáverandi forseta Bandaríkjanna. Stuttu seinna byrjaði Castro að halla sér í mun meira mæli að Sovétríkjunum.
Castro var fljótur að koma á sósíalísku ríki á Kúbu. Hann þjóðnýtti plantekrurnar og olíuiðnaðinn. Þetta mæltist vel fyrir hjá almúganum en hinir efnameiri voru ekki jafn sáttir. Þar sem olíuiðnaðurinn var mestmegnis í eigu Bandaríkjamanna var þetta ekki vel liðið þar á bæ. 3. janúar 1961 rauf Eisenhower forseti stjórnmálasambandið við Kúbu.
Bandaríkjamenn reyndu þá að koma Castro frá völdum með öllum ráðum. 17. apríl 1961 gengu 1400 Kúbverskir útlagar á land í Svínaflóa á Kúbu. Þessi árás var studd af Bandaríkjunum og hlutu mennirnir þjálfun hjá CIA. Bjuggust þeir við að Kúbverjar væru búnir að fá nóg af ofríki Castro og myndu ekki veita mikla mótspyrnu. Árásin misheppnaðist gjörsamlega. Hundruð féllu og um þúsund manns voru handteknir. Talið er að árásin hafi farið svona illa vegna þess að John F. Kennedy, þá nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, dró stuðning sinn skyndilega til baka, rétt fyrir árásina. Þetta hafði það í för með sér að bandaríski flugherinn, sem átti að vera uppreisnarmönnum til halds og trausts, dró sig til baka og gat kúbverski flugherinn þá dundað sér við að plaffa uppreisnarmenn niður.
Togstreitan milli Bandaríkjanna og Kúbu náði hámarki 1962 þegar Krushchev aðalritari Sóvétríkjanna lét flytja flugskeyti til Kúbu. Var það gert til mótvægis við það að Bandaríkjamenn staðsettu langdræg flugskeyti í Tyrklandi og á Ítalíu. Bandaríkjamenn sáu þetta sem ógn og tilkynntu þeir 22. október 1962 að þeir hefðu sett Kúbu í herkví til þess að hindra frekari flutninga flugskeyta til Kúbu. Castro sendi Krushchv bréf um að ef innrás yrði gerð á Kúbu skyldu þeir senda kjarnorkusprengjur á Bandaríkin en hann neitaði að verða við því. Heimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar. Að lokum, eftir langar samningaviðræður, voru flugskeytin fjarlægð með því skilyrði að flugskeytin í Tyrklandi og á Ítalíu yrðu líka fjarlægð.
Tíminn leið og tímarnir breyttust, kommúnisminn var á undanhaldi í heiminum og Sovétríkin riðuðu til falls. Eftir fall Sovétríkjanna varð Kúba enn einangraðari þeir höfðu treyst á fjárveitingar og viðskiptasamninga við Sovétríkin, en án þeirra fór Kúba á hausinn. Viðskiptabann Bandaríkjanna gerði þeim erfitt fyrir og nauðsynjavörur eins og bensín voru af skornum skammti. Nú í dag er allur iðnaður á Kúbu í rúst og það eina sem að heldur þessu ríki saman er þrjóska Castro.

Niðurlag

Talið er að um 600 sinnum hafi verið reynt að myrða Fidel Castro. Fabian Escalante sem hefur verndað Castro í langan tíma segir að nákvæmlega 638 morðtilraunir hafi verið reyndar. Reynt hefur verið að myrða hann sprengjuvindli, sveppasýktum kafarabúningi og öllum öðrum hugsanlegum leiðum. John F. Kennedy spurði meira að segja Ian Flemming höfund Bond bókanna um hvernig væri hægt að drepa þennan óvin bandarísku þjóðarinnar nr. 1.
Nú tæpum fimmtíu árum frá valdaráninu er Castro enn við völd þótt veikburða sé, hann er búinn að vera á spítala síðasta árið og er þess örugglega ekki langt að bíða að áttræður maðurinn hrökkvi upp af. Eftir lát hans verða eflaust miklar breytingar á Kúbu. Hvort sem menn skipa honum sess með Gandhi og Churchill eða Stalín og Hitler þá verður því ekki neitað að Castro er án efa einn merkasti stjórnmálamaður 20. aldarinnar.


Heimildir:

http://en.wikipedia.org/wiki/Castro
http://en.wikipedia.org/wiki/Che_guevara
http://en.wikipedia.org/wiki/Fulgencio_Batista
http://en.wikipedia.org/wiki/638_Ways_to_Kill_Castro