Þessa ritgerð gerði ég fyrir stjórnmálafræði í MK, og fékk 10 fyrir. Ég hef ávallt haft dálæti á seinni heimsstyrjöldinni og skrautlegu þjóðarleiðtogum stríðsins, sögulega séð. Í stað þess að skrifa bara um Churchill eða Hitler, ákvað ég að skrifa styttri útdrátt um þjóðarleiðtoga stærstu þjóðanna, þ.e.a.s.: Stalín, Churchill, Hitler, Mussolini, Roosevelt og Hirohito.
Ég var búinn að gera lagfærða útgáfu, en fann bara eldra eintakið. Skiptir það ekki miklu máli, því eiginlega það eina sem ég lagfærði var niðurlagið. Í þessari útgáfu vantar eiginlegt niðurlag. Voru einnig myndir og tilvitnanir, en ég tel að þess sé ekki þörf hér.
Njótið vel!



Seinni heimsstyrjöldin er útbreiddasti og mannskæðasti atburður í sögu mannkyns. Meira en 36 milljón manns létu lífið og eyðileggingin var gífurleg, mörg hundruð þúsund manns voru heimilislausir eftir stríðið. Rússar voru með mest mannfall, 17 milljón manns, þar næst Þýskaland með 6 milljón manns. Aðrar þjóðir misstu um hálfa milljón manns. Stríðið stóð yfir í sex ár, frá 1. september 1939, með innrás Þjóðverja inn í Pólland, og til 9. ágúst 1945, með uppgjöf Japana eftir sprengingarnar í Hiroshima og Nagasaki.
Upptök stríðsins á sér rætur að rekja til heimsvaldastefnu nasista í Þýskalandi undir stjórn Adolfs Hitlers. Þegar Hitler heimtaði Pólland á sitt vald neituðu aðrar þjóðir því (Bretar, Frakkar og fleiri) og braust þá út stríð. Hitler var í bandalagi við Mussolini, einræðisherra Ítalíu, og gerði einnig í byrjun stríðsins samning við Jósef Stalín, aðalritara Rússlands, en braut Hitler þann samning 1941. Japanir bættust við í bandalag Þjóðverja og Ítala, en það kallaðist Axis-bandalagið. Saman kölluðust Bretar, Bandaríkjamenn, Frakkar, Rússland eftir 1941 og allar þjóðir sem fylgdu þeim einu nafni Bandamenn. Í raun var allur heimurinn viðrinn stríðið en helsta átakasvæðið var í Evrópu milli þessara ríkja.
Margir menn komust á spjöld sögunnar eftir stríðið, annaðhvort fyrir afrek eða illvirki. Helst voru það þjóðarleiðtogar landanna og verður hér á eftir fjallað um þá sex helstu með stuttu æviágripi, bakrunni, afrekum og stjórnmálaferlum þeirra. Þessir menn eru: Winston Churchill (Bretland), Franklin D. Roosevelt (Bandaríkin), Jósef Stalín (Rússland), Benito Mussolini (Ítalía), Adolf Hitler (Þýskaland) og Hirohito (Japan).







Winston Churchill (1874-1965)

Fullu nafni hét hann Winston Leonard Spencer Churchill. Hann fæddist í Blenheimskastala í Oxfordshire í Englandi. Hann var af mjög ríkum ættum og eru margir merkismenn komnir af þeim. Faðir hans var Randolph Churchill, hertogasonur, og móðir hans var amerísk og hét Jeanette Jerome, dóttir Leonards Jerome blaðakóngs. Kona Churchills hét Clementine Hosier og var hún af aðalsættum.
Ævi Churchills var mjög viðburðarík. Í æsku var hann hálfgert vandræðabarn. Hann var óþekkur, hrekkjótur og smámæltur. Hann las mikið en hafði ekki mikinn áhuga á menntun. Hann varð t.d. að hætta námi við Harrow, sem er virtur skóli fyrir efnaða fólkið. Í staðinn var hann sendur í herskóla þar sem hann stóð sig vel. Hann barðist á vígvöllum í allmörgum stríðum, þ.á.m. í Indlandi, í umsátrinu við Khartoum og í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann skrifaði mikið og þótti mjög góður penni. Hann gerðist stríðsblaðamaður og fór meðal annars til Kúbu að skrifa um óeirðir þar. Einnig fór hann til Suður-Afríku til að fylgjast með Búastríðinu. Þar var hann handtekinn og var um það rætt að taka hann af lífi. Churchill komst undan og voru sett 25 sterlingspund til höfuðs honum en hann slapp til Englands.
Hann skrifaði allmargar bækur. Frægastar eru þær sem fjalla um heimsstyrjaldirnar og fékk hann Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1954. Churchill þótti einnig afbragðs listmálari og málaði mikið af landslagsmyndum. Hann stundaði polo, sem er knattleikur á hestum, og eitt af hans áhugamálum var að hlaða múrsteina. Hann var óhófsmaður og voru vindlar og viskí hans líf og yndi.
Churchill hélt alla tíð að hann væri íhaldssamur en menn segja að hann hafi verið frjálslyndur (sem hann var), allt að því að vera sósíalístískur. Einu sinni lenti hann í deilum við flokk sinn og gekk þá yfir á vinstri væng breska þingsins til að sýna afstöðu sína, þar sitja þeir sem eru róttækari. Hann skilaði sér þó aftur yfir á hægri vænginn. Þessi framkoma þykir einstök í breska þinginu. Á stjórnmálaferli sínum gegndi hann ýmsum ráðherraembættum: utanríkisráðherra, innanríkisráðherra, nýlenduráðherra o.fl.
Á tímabili dró hann sig út úr stjórnmálum og sinnti áhugamálum sínum. Árið 1940, þegar stríðið var skollið á, tók hann við embætti sem forsætisráðherra. Á þinginu hafði hann ítrekað varað við nasistunum og þeirra stefnu, en ekki var tekið mark á honum. Hann stappaði ávallt stálinu í Breta þegar í harðbagga sló og þótti góður stjórnandi. Hann varð brátt sameiningartákn Breta og verndari lýðræðisins, en Churchill var mjög hliðhollur lýðræði. Winston Leonard Spencer Churchill lést í janúar árið 1965 og var það þjóðarsorg. Hann er grafinn í St. Pálskirkju í London ásamt Nelson flotaforingja og hertoganum af Wellington, sá sem sigraði við Waterloo.



Franklin Delano Roosevelt (1882-1945)

Líkt og Churchill ólst Roosevelt upp við mikla velmegun. Hann fæddist í Hyde Park í New York og var af mjög ríkum ættum, þar sem hefð var fyrir embættismannastörfum. T.d. frændi hans, Theodore Roosevelt var forseti Bandaríkjanna.
Hann fékk kennslu heima fyrir til 14 ára aldurs. Eftir það var hann sendur í mjög virtan heimavistarskóla í Massachusetts, síðan í Harvard og loks lagaháskólann í Columbia. Auk lögfræði hafði hann mikinn áhuga á guðfræði og starfaði um tíma sem klerkur. Roosevelt var mikill öðlingur og var ávallt með hendurnar í einhverskonar góðgerðarstarfsemi. Þekkt var áætlun hans, New Deal, sem átti að útrýma fátækt í Bandaríkjunum. Kona hans, Eleanor Roosevelt (sem var fjarskyld frænka hans), var einnig þekkt fyrir góðvild og segja sumir að hún hafi ýtt honum út í góðgerðarstarfsemi. Saman unnu þau mörg góðverk sem verða lengi í minnum haft.
Roosevelt var kosinn forseti 1933 og starfaði fram til vorsins 1945. Hann var demókrati en forveri hans, Herbert Clark Hoover, var repúblikani. Mánuði fyrir uppgjöf Þjóðverja andaðist Roosevelt, enda orðinn mjög veikur. Hann vildi halda þjóðinni fyrir utan styrjöldina, en þegar Japanir gerðu loftárás á flota Bandaríkjanna í Pearl Harbor breyttust aðstæður. Þá neyddust Bandaríkjamenn til að segja Axis-bandalaginu stríð á hendur. Varð sú aðgerð mikill styrkur fyrir Bandamenn sem og gerði það að verkum að þeir höfðu betur í stríðinu.


Jósef Stalín (1879-1953)

Hann hét réttu nafni Iosif Vissarinowich Djugasvili, en tók upp nafnið Stalín seinna, sem þýðir stálmaður. Hann var skósmiðssonur frá bænum Gorki í Georgíu, vestan við höfuðborgina Tiflis (Thilissi). Snemma í æsku þótti Stalín vera slunginn og hrekkjóttur. Hann var þrekvaxinn, fyrirferðamikill og þótti stórtækur í öllum gjörðum. Bókhneigður var hann og námsfús en ekki nógu stöðugur í skoðunum sínum, sérstaklega þeim pólitísku sem háði honum allt hans líf. Sem dæmi var hann rekinn úr guðfræðideild háskólans í Tiflis fyrir að vera ótryggur í pólitískum málefnum. Ekki leið löngu þar til hann varð mjög róttækur til vinstri og var eitt sinn handtekinn fyrir óeirðir og sendur í útlegð árið 1902, en slapp þaðan 1904.



Mikil ringulreið var í Rússlandi á þessum árum, fátækt, eymd og spilling. Ástandið gerði það að verkum að einstakir menn komu upp á yfirborðið sem boðuðu byltingu. Einn bar af með skrifum sínum og baráttuanda, það var Lenín. Stalín heillaðist mjög af skrifum Leníns og varð hann fyrirmynd hans.
Árið 1917 varð bylting í Rússlandi undir forystu Leníns, þar var mörg hundruð ára keisaraveldi steypt af stóli. Rússar toguðu sig upp úr eymdinni og skipulögðu nýtt sósíalískt veldi, áætlunarbúskapur varð ríkjandi. Gekk allt með ágætum og varð Lenín gerður að hálfgerðri goðsögn. Þegar árin fóru að færast yfir Lenín fóru menn að íhuga að arftaka. Fremstir þar í flokki voru aðallega tveir menn sem höfðu staðið við hlið Leníns í byltingunni. Annar þeirra var Jósef Stalín, hinn var maður að nafni Lev Davidowich Bronstein, en gekk ávallt undir nafninu Trotsky. Eftir dauða Leníns tókust þeir á um völdin og lauk með því að Stalín náði algjörum yfirtökum og þurfti Trotsky að flýja land. Hann flúði heimshorna á milli, en var myrtur með ísöxi í Mexíkó árið 1940, að undirlagi Stalíns. Það hefur reyndar aldrei verið fullkomlega sannað. Talið var að Lenín hafi stutt Trotsky til valda, en Stalín hafi komið í veg fyrir það með ofbeldi.
Stalín tók við völdum árið 1928 og stjórnaði allt til dauðadags árið 1953. Hann var mikill harðstjóri og er sagt að hann hafi eyðilagt hugsjónir Leníns og skaðað hugmyndir um komúnismann. Þrátt fyrir að hann væri harðstjóri var hann mikill þjóðernissinni og reyndi að efla rússnesku þjóðina til dáða. Í stríðinu var Rússland ofurefli Þjóðverja, en Rússar hafa alltaf verið mjög öflugir í styrjöldum.


Benito Mussolini (1883-1945)

Hann hét fullu nafni Benito Amilcare Andrea Mussolini og fæddist í bænum Predapio í Ítalíu. Foreldrar hans voru fátækt millistéttarfólk. Faðir hans var járnsmiður og móðir hans skólakennari. Í æsku var hann óviðráðanlegur, heimafyrir skapstyggur, en í skólanum verstur. Hann barði jafnaldra sína daglega og stakk einu sinni einn þeirra með hníf. Hann var rekinn úr mörgum skólum en það kenndi honum ekkert, hann varð bara verri. Þrátt fyrir fautaskapinn var hann mjög gáfaður og lauk prófum án erfiðleika. Mussolini fór 19 ára gamall frá Ítalíu til Sviss til að freista gæfunnar. Hann flakkaði á milli vinnustaða og var hálfgerður farandverkamaður. Á þeim tíma las hann mikið, rit um stjórnmál og heimspeki. Hann gerðist efnilegur blaðamaður fyrir málgögn stjórnmálaflokka, sérstaklega þeim vinstrisinnuðu, en Mussolini var þá orðinn harður sósíalisti. Upp úr því stofnaði hann sitt eigið blað, La Lotta di Classe, sem fékk það góðar undirtektir að hann var fenginn sem ritstjóri stærsta málgagns sósíalista á Ítalíu, Avanti!. Hann skrifaði áróðursgreinar um byltingar og hvernig ætti að koma þeim í framkvæmd með ofbeldi og var Mussolini handtekinn fimm sinnum fyrir skrif sín og óeirðir sem hann stóð fyrir. Það er eins og Mussolini hafi fengið högg á höfuðið því allt í einu sneri hann við blaðinu og gerðist hægrimaður, skrifaði gegn byltingu og sósíalisma, skrifaði í staðinn greinar um þjóðernisstefnu. Það var upphafið að fasismanum.
Í framhaldi af þessu stofnaði Mussolini fasistaflokkinn og náði hann miklum völdum. Árið 1922 tóku Mussolini og svartstakkar hans völdin í Róm með ofbeldi, nánartiltekið með valdaráni. Mussolini tók upp nafnið Il Duce (forninginn).
Ekki eru til miklar heimildir um millistríðsárin á Ítalíu því fasistar eyðilögðu allt sem var skrifað gegn þeim, en það er vitað að ástandið þar í landi var hræðilegt í valdatíð Mussolinis. Hann var einn versti stjórnandi í sögu mannkyns, skipti ávallt um skoðanir og hellti sér út í framkvæmdir sem hann hafði ekki hundsvit á. Áður var hann sósíalisti en þegar hann gerðist fasisti voru sósíalistar helstu andstæðingar hans. Hann var af smáborgaraættum en eftir að hann komst til valda fyrirleit hann þá stétt. Mætti af þessu ráða að Mussolini hafi lifað í afneitun allt sitt líf.
Ítalía kom einna verst út úr seinni heimsstyrjöldinni. Þjóðin var alls ekki í tilbúin til að fara í stríð, skorti bæði fjármuni og vopnburð. Ítalía voru bandamenn Þjóðverja og voru Hitler og Mussolini hinir mestu mátar, vegna þess að þeir aðhylltust báðir þjóðernisstefnu. Mussolini öfundaði Hitler yfir velgengni Þýskalands og vildi líka ávinna sér lönd. Hann réðst inn í Grikkland í gegnum Albaníu án þess að láta bandamenn sína vita. Árásin mistókst og þurfti Hitler að koma til bjargar. Einnig þurftu Þjóðverjar að hjálpa Ítalíu í Norður-Afríku.
Í rauninni var Ítalía þungur hlekkur á Þýskalandi og má segja að Mussolini hafi eyðilagt stríðið fyrir Hitler.
Mussolini komst í hann krappann árið 1943, en þá snerist þingheimur gegn honum og var hann handtekinn og sendur í útlegð. Hitler skipulagði björgunaraðgerð sem tókst og komst Mussolini heilu og höldnu til München. Hann reyndi aftur að komast til valda en það tókst ekki sem skyldi. Eftir að Þjóðverjar gáfust upp í stríðinu fór hann í felur með fjölskyldu sína. Ævi hans endaði ekki vel, því hópur róttækra sósíalista eltu hann uppi, handtóku og myrtu. Eftir að Mussolini og kona hans höfðu þolað misþyrmingar voru lík þeirra dregin frá Comoborg til Milano, þar sem þau voru hengd til sýnis og grýtt af fólki.

*Til gamans má geta að orðið fasisti er af etrúskum uppruna, af orðinu fasces, sem voru vendir með öxi fasta í, sem embættismenn Etrúra báru og máttu húðstrýkja eða hálshöggva hvern sem var. Þessir vendir táknuðu vald.







Adolf Hitler (1889-1945)

Hitler var austurrískur að uppruna og fæddist í bænum Braunau þar í landi. Raunverulegt ættarnafn Adolfs Hilters var í rauninni Schickelgrüber. Faðir hans var tollvörður en ekki er vitað mikið um uppruna móður hans. Í rauninni vita sagnfræðingar almennt ekki mikið um uppruna Hitlers. Því hefur verið fleygt fram að hann hafi verið af gyðingaættum, en það eru einungis getgátur.
Hitler var kominn af lágstéttum, rétt eins og Mussolini og Stalín. Hann gekk í skóla en hætti brátt vegna þess að hann fékk brennandi áhuga á myndlist. Þegar faðir hans dó nam hann myndlist í einkalistaskóla í München og eftir það reyndi hann að fá inngöngu í listaháskólann í Vín, en það mistókst tvisvar. Hann reyndi líka fyrir sér í byggingaverkfræði en vísað frá vegna skorts á prófgögnum. Þessi afneitun varð til þess að hann ræktaði með sér hatur. Hitler hataði alla tíð gyðinga, og má hugsanlega rekja það til synjunar frá listaháskólanum, þar sem gyðingur var við stjórn.
Hitler bjó við mikla fátækt í Vín og virtist sem hann ætti enga framtíð fyrir sér. Það eina sem bjargaði honum frá glötun var herinn. Hann skráði sig í hann árið 1914, þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á. Hann stóð sig mjög vel og var hækkaður í tign sem liðþjálfi og heiðraður með járnkrossinum. Eftir stríðið gegndi hann ýmsum störfum fyrir herinn, m.a. rannsakaði hann stjórnmálaflokka, sem leiddi af sér að hann gekk í einn þeirra. Árið 1920 komst hann í forystu flokksins og breytti honum brátt í öfgaþjóðernisflokk. Fylgismenn flokksins kölluðust nasistar. Þremur árum síðar voru Hitler og fleiri nasistar handteknir fyrir landráð og settir í Landbergsfangelsið. Þar skrifaði Hitler bókina „Mein Kampf“ (Baráttan mín), sem er hálfgerð uppskrift af nasisma, sem er öfgaþjóðernisstefna. Eftir að Hitler losnaði úr prísundinni fór hann að skipuleggja áframhaldandi áform flokksins.
Ekki verður hér rakin öll stjórnmálasaga nasistanna, en árið 1933 var flokkurinn svo valdamikill að Adolf Hitler var orðinn einvaldur yfir Þýskalandi, kanslari Þýskalands. Hann kallaði sig Der Führer og átti hann marga nána samstarfsaðila, er þar helst að nefna Göbbels (áróðursmálaráðherra), Göring (flugherforingi) og Himmler (foringi S.S.-sveitanna).
Brátt eftir valdatöku Hitlers byrjaði Þýskaland að hervæðast. Með því skapaðist mikil atvinna og á nokkrum árum var Hitler búinn að koma Þýskalandi út úr kreppunni. Fólk studdi hann í blindni en gerðu sér ekki fullkomlega grein fyrir fyrirætlunum hans. Hann var með einstaka persónutöfra (charisma) og ræðusnilld hans verður seint slegin út. Nasistar stunduðu líka fjölmiðlaáróður (propaganda) og með því blekktu þeir fólkið og heilaþvoðu það af stefnum sínum.



Önnur ríki í Evrópu urðu mjög óróleg þegar Hitler fór að færa út kvíarnar. Hann krafðist þess að fá hvert ríkið á fætur. Menn sögðu stopp þegar Hitler fór fram á að fá yfirráð yfir Póllandi. Hann sættist ekki á það sem varð til þess að seinni heimsstyrjöldin skall á með öllum sínum hörmungum.
Fyrst lék allt í lyndi hjá Þjóðverjum í stríðinu, en þegar Hitler rauf samninginn við Stalín og Bandaríkjamenn voru orðnir þátttakendur misstu Þjóðverjar tökin á stríðinu. Þjóðverjar þraukuðu alllengi, en þegar Rússar voru að nálgast Berlín framdi Adolf Hitler sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi sínu ásamt heitkonu sinni Evu Braun.
Hitler var án efa einn áhrifamesti stjórnmálamaður sögunnar, líka sá versti. Verstur er þá ekki í merkingunni lélegur stjórnmálamaður, heldur var hann vondur maður. Hann sýndi óvinum sínum enga miskunn og hatur hans á öðrum kynstofnum var svo mikið að hann lét gera þjóðhreinsanir á gyðingum og fleiri kynstofnum í þýskumælandi löndum. Um 6 milljónir saklausra gyðinga voru myrtir á hrottalegan hátt. Helstu útrýmingabúðirnar hétu Auswitch, sem er í Póllandi. Talið er að Hitler hafi ekki verið meðvitaður um allar þær aðgerðir sem bitnuðu á gyðingum, en hann var samt sem áður ábyrgur.
Eftir stríðið var 21 nasistaforingi tekinn af lífi í svokölluðum Nürnberg réttarhöldunum. Voru þeir sakaðir um viðbjóðslega glæpi gegn mannkyninu.


Hirohito (1901-1989)

Fullt nafn hans var Michinomiya Hirohito. Hann fæddist í Paoyama- höllinni í Japan og var faðir hans, Taisho, þáverandi keisari. Hirohito var sendur í alla virtustu skólana og stóð hann sig frábærlega vel í þeim öllum. Hann fékk fljótt mikinn áhuga á sjávarlíffræði og skrifaði nokkrar bækur.
Árið 1926 tók hann við sem keisari þegar faðir hans lést. Hirohito þótti mjög góður stjórnandi og var stjórnartíð hans kölluð Showa, sem þýðir „upplýstur friður“. Valdatíð hans er sú lengsta í sögu Japans, frá 1926 þar til hann lést árið1989.
Japanir voru hliðhollir Þjóðverjum og Ítölum vegna heimsvaldastefnu þeirra. Japanir hafa ávallt verið þjóðernissinar og hafa oft í gegnum söguna átt í erjum við önnur Asíulönd. Japanir voru mjög virkir í seinni heimsstyrjöldinni og sóttu mjög á Kyrrahafslöndin. Segja má að Hirohito hafi gert stór mistök, bæði fyrir þjóð sína og bandamenn, þegar hann fyrirskipaði árás á flota Bandaríkjamanna í Pearl Harbour á Hawaii þann 7. desember 1941. Bandaríkin höfðu þá ekki haft nein afskipti af stríðinu og var þá voðinn vís þegar þeir blönduðu sér inn í það. Eftir árásina á Pearl Harbour byrjaði veldi Axis-bandalagsins að hnigna, vegna gífurlegs krafts Bandaríkjahers.
Í stríðinu börðust Japanir mjög hart og gáfust ekki upp þótt öll von væri úti. Þeir voru með sérstakar sjálfsmorðssveitir (Kamakazi) sem flugu beint á hernaðarmannvirki og sprengdu allt í loft upp.
Þetta gerðu þeir fyrir keisarann og ættjörðina, sem sýnir að Japanir eru miklir þjóðernissinnar. Eftir að Þjóðverjar gáfust upp þann 7. maí 1945 streyttust Japanir samt á móti og endaði það með miklum hörmungum. Bandaríkjamenn höfðu verið að þróa nýtt vopn, kjarnorkusprengjuna, og þann 6. ágúst 1945 eyddu þeir borginni Hiroshima með hörmulegum afleiðingum. Japanir gáfust ekki upp fyrr en að Bandaríkjamenn eyddu annarri borg, Nagasaki, þremur dögum síðar eða þann 9. ágúst. Þá lauk seinni heimsstyrjöldinni. Nýr forseti Bandaríkjanna, Harry S. Truman, fyrirskipaði árásirnar á Japan. Enn í dag má sjá afleiðingar sprenginganna m.a. með fæðingum vanskapaðra einstaklinga.


Emil Hjörvar Petersen





Helstu heimildir


Bárður Jakobsson. 1978. Afburðamenn og örlagavaldar. Æviþættir tuttugu og eins mikilmennis sögunnar, 5. bindi. Ægisútgáfan, Reykjavík.

Heimir Þorleifsson og Ólafur Hansson. 1970. Mannkynssaga BSE. Fram til 800.
Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar, Reykjavík.

Häger, Bengt Åke. 1993. Samferða um söguna. Sigurður Hjartarson íslenskaði. Mál og Menning í samvinnu við Námsgagnastofun, Reykjavík.

Jenný Björk Olsen og Unnur Hrefna Jóhannsdóttir. 2000. Stríðsárin á Íslandi 1939-1945. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

http://www.eb.com