Þannig er í pottinn búið hjá mér að ég opna mig aldrei, eða voða sjaldan. Ég á ágæta fjölskyldu en ég tala aldrei við neinn í henni, ég á líka mjög góða vini en ég tala aldrei opinskátt við þá. Svo að lokum á ég kærustu, sem þessi pistill verður að mestu leyti um, ég opna mig ekki einu sinni henni en ég hef þó gert það eitt skipti og endaði það í tárum hjá henni svo mig langar ekki beint að gera það aftur á næstunni.

Ég ætla því að röfla hér hvort sem ykkur líkar það betur eða verr, þið þurfið ekkert endilega að svara mér heldur er ég eiginlega að leita bara að vettvangi til að tjá mig. Öll svör eru þó mjög vel þegin.

Við höfum verið saman í að verða hálft ár. Þetta er fyrsta sambandið mitt og fyrsta stelpan sem ég sef hjá. Hinsvegar er þetta ekki fyrsta sambandið hennar og ég er alls ekki sá fyrsti sem hún sefur hjá. Við erum mjög ólík, höfum ekki sömu áhugamál(hún hefur nú varla nein áhugamál ef af því er að skipta), ekki sömu skoðanir og tvær mjög ólíkar sýnir á lífið almennt séð. Einhvern veginn höfum við þó endað saman og er okkar tími saman búinn að vera þokkalega góður. Við rífumst nánast aldrei(enda geri ég það ekki að staðaldri) og það kemur voða sjaldan eitthvað uppá sem við getum ekki leyst. Henni þykir vænt um mig og mér um hana.
EN eins og alltaf þá fæ ég bakþanka og virðist hafa áhyggjur af öllu. Ég velti því oft fyrir mér af hverju í fjandanum hún skuli vera með mér, ég er alls ekki hennar týpa og miðað við strákana sem hún hefur verið með í gegnum tíðina passa ég mjög illa inn í þann hóp. Hún hefur nokkurt orðspor á sér sem svolítill ‘teaser’ og það blundar í mér að hún hafi verið þokkalega ‘lauslát’ áður en hún byrjaði með mér. Hún á mjög marga strákavini og eyðir miklum tíma með þeim og tjah hvað eigum við að segja…'gerir þeim vonir'. Það gerir mig mjög afbrýðissaman en ég var búinn að ákveða að verða ekki sú týpa áður en ég fór í þetta samband. Afbrýðissemin er bara eitthvað sem ég ræð alls ekki við og getur haldið fyrir mér vöku svo dögum skipti. Mér finnst alltaf eins og hún sé að gera eitthvað ‘behind my back’ en ég veit svosem alveg að svo er ekki, hún eyðir miklum tíma með strákum sem ég þekki ekkert og það gerir mig hálf-stressaðan.
Ég verð líka að viðurkenna eitt, mig langar lúmskt út á markaðinn aftur, mig langar að prófa að sofa hjá öðrum stelpum eða kynnast bara öðrum stelpum betur en ég á alls ekki marga stelpuvini, hitti ekki oft stelpur sem mér líkar við. Mig langar að vera með kærustunni minni en mig langar líka að hitta aðrar stelpur, kannski einhverjar sem falla betur að mínum persónuleika og stíl, en ég vil ekki skemma þetta samband einhvernveginn. Þetta er skrítið, ég veit ekki hvort ég vilji vera með henni eða ekki, það væri ósanngjarnt gagnvart henni að hætta með henni held ég allavega.

Ég veit að þetta var algjörlega samhengislaust röfl en mér líður aðeins betur núna, mjög þægilegt að geta komið einhverju svona frá sér.