Ókei, ég er ekki vanur því að biðja ókunnuga um hjálp í svona málum, en mér finnst ég þurfa að létta á mér við einhvern um þetta og af ástæðum sem koma vonandi fram hér á eftir vil ég síður leita til vina í þessu tilviki. Tek það fram að ég og stelpan sem um ræðir erum bæði á háskólaaldri.

Þannig er að um síðustu helgi var ég í partíi hjá félaga mínum, og kynntist þar stelpu. Ég hafði vitað af henni áður á hinum enda vinahópsins í einhvern tíma (m.a. þökk sé facebook) en aldrei hitt hana eða talað við svo ég muni. Það gerðist svosem ekkert í partíinu sjálfu eða beint eftir það annað en spjall, en daginn eftir ákveð ég að adda henni (og fleirum sem ég kynntist í partíinu) á facebook, í von um tækifæri til að kynnast henni betur. Hún samþykkir mig fljótlega og við spjöllum heilmikið saman, allt gengur vel og ég fæ á tilfinninguna af samtalinu að henni líki bara þó nokkuð vel við mig. Ég passa mig að gefa ekki of mikið í skyn þó, því mér er farið að líka betur og betur við hana á þessum tímapunkti (hún er klár, sæt, svöl og næstum jafn mikill nörd og ég - hvað er ekki að líka við?) og vil ekki klúðra neinu með því að fara of hratt. Samt vonandi nóg til að hún geri sér grein fyrir því að ég hafi mögulega áhuga.

Síðan þá hef ég hangið á fésbók nánast öllum stundum í von um að sjá hana aftur online til að geta spjallað, en árangurslaust. Ég er búinn að renna oftar en einu sinni í gegnum myndirnar af henni, fundið link á bloggið hennar og stillt mig um að kommenta og svo framvegis. Pínu obsessive, ég veit. Í gær flaug mér í hug sú staðreynd að um næstu helgi verða haldin hrekkjavökuböll úti um allt, og að það væri kjörið fyrir mig að láta reyna á hvort hún hefði áhuga á að koma með mér á eitthvert þeirra. En ég hef ekki ennþá fengið tækifæri til að bjóða henni.

Svo í kvöld tók ég eftir því að hún var greinilega online, því einhver facebook leikur sem hún hafði verið í birti upplýsingar á veggnum hennar. Hún var samt ekki á spjallinu. Svo eftir nokkrar mínútur var það horfið. Svartsýni púkinn á öxlinni á mér hvíslaði: “Hún er pottþétt að forðast að tala við þig! Þú ert of ágengur!” en ég bandaði honum frá mér. Ég íhugaði að hafa samband við hana gegnum skilaboðakerfið eða senda henni sms en stoppaði mig af. “Wtf?” hugsaði ég og leit aftur á púkann. “Er ég orðinn einhver stalker núna, út af stelpu sem ég hef hitt einu sinni og spjallað við tvisvar gegnum netið!? Hvað er í gangi?” Bjartsýni púkinn á hinni öxlinni hristi hausinn og sagði “Ohh, þú ert nú meiri kjáninn. Hún er ekkert að forðast þig. Það er bara mikið að gera í skólanum hjá henni, þess vegna er hún sjaldan á facebook.” “Nú jæja,” svarar sá svartsýni. “Hvers vegna var hún þá online áðan en ekki á spjallinu?” "Kannski er hún að forðast einhvern annan? Datt þér það ekki í hug? Eða kannski er hún bara þreytt og nennir ekki að spjalla. Eða kannski er facebook bara að stríða henni, þú veist vel að þetta er ansi bögguð síða og virkar ekki alltaf rétt," svarar sá bjartsýni fyrir sér. Ég gríp þá báða og hendi þeim í búrið sitt, þar sem þeir halda rifrildinu áfram.

Svo nú er ég orðinn alveg ringlaður og veit ekkert hvernig ég á að snúa mér í þessu lengur, svo ég sný mér til ykkar (ekki mikið gagn í púkunum amk). Hvað á ég að gera? Hvað á ég ekki að gera? Hvað er í gangi? :-S Ég hef klúðrað of mörgum viðreynslum í fortíðinni, mig langar ekki að klúðra þessari líka.

Blóm, kransar og skítköst vinsamlegast afþökkuð.
Peace through love, understanding and superior firepower.