Þessi grein er upprunalega skrifuð sem svar við þessum þræði: http://www.hugi.is/romantik/threads.php?page=view&contentId=7041667 . Hún miðast við óreynda eða lítið reynda unglingsstráka sem markhóp, en það getur vel verið að einhverjir aðrir geti lært eitthvað af þessum lestri.

Ég hef verið með kærustunni minni í eitt og hálft ár núna, við vorum fyrst bara vinir, en urðum frekar fljótlega hrifin af hvoru öðru. Við vorum bæði frekar óreynd og feimin, svo við vorum mjög lengi að byrja saman, t.d. kyssti ég hana ekki fyrr en ég hafði þekkt hana í tæpt ár, en þá höfðum við samt verið hrifin hvort af öðru næstum allan þann tíma og vorum orðin mjög nánir vinir. Við vorum rosalega oft komin mjög nálægt því að byrja saman, en svo datt það á köflum svolítið niður. Að lokum urðum við formlega kærustupar þegar ég hreinlega spurði hana beint út „Viltu vera kærastan mín?“. Hún sagði strax já og þótt þetta hafi kannski verið ögn kjánalegt, þá passaði þetta við okkur og henni (mér reyndar líka) fannst bara mjög gott að fá það alveg á hreint að við værum orðin kærustupar.

Vissulega getur vel verið að það passi ekki öllum pörum að byrja svona saman. Hjá sumum gerist þetta bara einhvernveginn yfir tímann að þau verða kærustupar, en hjá (held ég) flestum þarf einhvern atburð til þess að staðfesta það. Það getur verið eitthvað mjög einfalt, eins og að breyta relationship status á facebook í „in a relationship“. Ég veit að hjá sumum gerist þetta þegar einhver spyr þau (t.d. í partýi eða einhverjum hittingi sem þau eru bæði viðstödd) „Eruð þið saman?“ og eitt þeirra svarar játandi.

Annað sem ég hef haft í huga síðan ég byrjaði með kærustunni minni er eftirfarandi ráð. Þetta er eitthvað sem ég vildi að ég hefði getað fylgt eftir þegar við vorum að byrja saman: Ekki hika, og ekki hugsa of mikið. Þetta hljómar kannski stereótýpískt, en hik og „overthinking“ hamlaði mér mjög mikið á sínum tíma. Ef þér finnst stemningin vera rétt til þess að kyssast, gerðu það bara. Ekki fara að pæla geðveikt í því: hugsanir á borð við “Hvað ef hún vill það ekki? Hvað ef hún er ekkert hrifin af mér? Hvað ef þetta og hvað ef hitt?” gagnast þér ekkert. Þær gera þig taugaóstyrkan og hikandi, og ef þú hikar of lengi, þá hverfur „momentið“.

Þetta á líka við um minni hluti, eins og t.d. að snerta handlegginn á henni í samræðum (sérstaklega þegar þið hlæjið saman): lúmsk, lítilsháttar hreyfing sem hefur samt mikil áhrif og brýtur ákveðinn múr. Það að snerta stelpuna sem þú ert hrifinn af í fyrsta sinn á svona náinn hátt gerir allar fleiri snertingar mun auðveldari og hjálpar mikið við að losa um vandræðaleika.

Eitt að lokum, fyrst við erum að tala um upphaf sambands: Ekki fara á fyrsta „deit“ í bíó. Það að sitja og glápa á stóran skjá í herbergi þar sem bannað er að tala er ekki góð leið til þess að kynnast. Hléið getur líka mjög auðveldlega orðið að vandræðalegri þögn. Farið frekar í göngutúr í Grasagarðinum, farið í húsdýragarðinn eða bara eitthvað út að labba. Annars, ef þið eruð ekki mikið fyrir slíkt, getið þið farið á kaffihús eða bara eitthvert þar sem er gott að spjalla. Svo er það ekki léleg hugmynd að vera með 2-3 umræðuefni í kollinum, svona rétt til þess að geta byrjað að tala saman auðveldlega. Ekki samt velja eitthvað umræðuefni bara vegna þess að það lætur þig hljóma gáfaðan. Veldu eitthvað skemmtilegt og einfalt, eitthvað sem allir geta haft eitthvað að segja um.

En núna er þessi grein orðin alveg nógu mikil romsa um eitthvað sem ég er engan veginn sérfræðingur í, svo ég læt hér við sitja. Ég vona að einhver njóti góðs af þessum skrifum.-Optimus
Janúar 2010
Autobots, roll out.