Kveðja Fyrirgefðu, fyrirgefðu mér.

Lífið gæti verið auðveldara, bæði fyrir mig og þig. Það gæti hafa verið auðvelt, en núna verður það þyngra og þyngra með degi hverjum. Þú veist að ég sekk dýpra aðeins við það eitt að hugsa um þig. Lífið hefði getað orðið eitthvað annað. Ef ég hefði kannski aldrei hitt þig, þá hefði ég ekki fundið og upplifað ástina, hvað þá þessa eina og sönnu ást. En hvað með það, þótt ég sé í bullandi þunglyndi, lífið heldur áfram, er það ekki?

Þótt ég sé föst í sömu eilífu sporunum, þá eru kannski aðrir það ekki.
En málið er, að síðan þú fórst þá hef ég verið að velta mikið fyrir mér hvað ég eigi eiginlega að gera. Ég hef verið að velta því of mikið fyrir mér. Ég virðist bara ekki finna minn samastað í tilverunni án þín. Ég veit að það eru bara nokkrir dagar síðan þú fórst, en ég náði aldrei að kveðja þig almennilega, ég náði ekki að finna síðasta angann af þér, ég náði ekki að faðma þig heitt og innilega.

Mér finnst alltaf erfitt að kveðja fólk sem ég elska heitt, mér finnst það svo þungbært. Þú ert engin undantekning, ég veit að þetta hafa verið erfiðustu tímar lífs míns.
Ég man daginn þegar þetta gerðist. Þá vorum við að tala í símann, þú hlóst og sagðir mér að hitta þig upp á Höfða. Svo heyrðist ekkert. Mér fannst það svo sárt að þurfa að keyra framhjá slysstaðnum. Sjúkrabíllinn var ekki kominn. Ég stoppaði bílinn, reif upp hurðina og hljóp að þér, þar sem þú hvíslaðir síðustu orð þín að mér. Ég man hvert andartak svo skýrt. Ég fer yfir atburðinn aftur og aftur, hann hringsnýst í huga mínum og það er alltaf jafnt sárt.

Orðin sem þú hvíslaðir eru ógleymanleg í huga mínum, þau eru stimpluð þar, og verða þar ætíð. Þú sagðir ,,Mundu að halda áfram.”
Mundu að halda áfram. Þú sagðir það skýrt og greinilega, en ég hlustaði ekki. Ég ætti að vera að gera það sem þú sagðir mér að gera, en ég get það ekki, kraftur minn hefur þverrað og tárin hafa þornað upp.

Það eina sem ég hugsaði um morguninn eftir var lagið okkar. Manstu, við dönsuðum alltaf eins og fífl við það. Það er kannski betra að hugsa um góðu minningarnar. Við áttum mun fleiri góðar heldur en slæmar. Ég minnist fyrst og fremst þeirri stund sem við hittumst fyrst. Úti í rigningunni án regnhlífa, biðum eftir strætó. Ég leit á þig, það láku litlir regndropar af nefbroddi þínum. Ég hló svolítið, leit undan en mátti til að stara á fallegu bláu augun þín. Ég veit auðvitað ekki hvað uppáhalds minningin þín er, og mun líklegast aldrei fá að vita en er viss um að hún hafi verið geymd á góðum stað.

Ég hef afþakkað alla hjálp, ég hef gert allt sem þú mundir aldrei gera. Ég hef snúið baki í þá sem þurfa á mér að halda, einfaldlega því ég hef ekki þig.

Þú, ég vona að þú fyrirgefur mér. Ég vona að það sem áttum fari ekki frá mér og geymist frekar en gleymist.

Þetta er kveðjan mín.

Ég elska þig, að eilífu.