Ég er 22 ára námsmaður og hef svo sem ekkert alltof mikla rómantík í lífi mínu til að státa mig af, þó að ég hafi vissulega átt mínar stundir eins og flest allir. Með öðrum orðum þá hefur það öðru hvoru komið fyrir að kvennmaður hafi aumkað sér yfir mér. Allavega, í augnablikinu er ég staddur í Austuríki þar sem ég stunda nám. Ég var að taka lest milli Vínar og Salzburgar fyrir viku síðan og hugðist taka Sound of Music túrinn svona bara upp á húmmorinn, borða Mozart súkkulaði og njóta þess að vera á mála hjá LÍN. Lestarferðir í Austuríki geta verið afskaplega heillandi sérstaklega ef maður er að fara til Salzburgar þar sem maður fær gott útsýni yfir Alpana og annars konar fegurð. Ég tillti mér í lestina fimm mínútum fyrir brottför og sólin skein í gegnum gluggan á lestarvagninum. Lestin lagði af stað til brottfarar og um leið birtist kvennmaður, gullfallegur kvennmaður og mér til mikillar ánægju settist hún beint á móti mér og spurði mig hvað ég væri að lesa. Ósköp gremjulega sýndi ég henni bókina mína, Post Office eftir karlrembuna og drykkjuhrúttinn Charles Bukowski. Hún brosti eiturfögru brosi til mín og spurði mig hvort ekki væri allt felldu einkalífi mínu og ég vildi helst ekki ljúga og sagði í örlítilli kaldhæðni að ég þjáðist víst af því sama og allir, einhversskonar millistéttarþunglindi.
Fleiri bros af hennar hálfu fylgdu og samræðurnar voru einstaklega opinskáar og skemmtilegar. Við röbbuðum um rómantík, heimspeki og bókmenntir og mér leið einna helst eins og ég væri staddur í Litrófi með Arthúri Björgvinni Bollasyni, þvílík sjálfsfróun á listrænum hlutum var í gangi. En það er allt í lagi, manni er alveg sama um leið og maður hefur gullfallegan kvennmann andspænis sér og úsýnið er eins og paradís á jörðu, maður verður skelfilega væminn. Eftir þriggja tíma lestarferð var komið að mér að hoppa út og henni að hoppa í aðra lest. Við kysstumst blíðlega á munninn (ekkert of rómanstískum samt) og skiptumst á símanúmerum. Hún sagðist vera á leðinni heim til Sviss og ég var að fara á Sound of Music túrinn, það var allt og sumt.
Þetta augnablik heillaði mig hræðilega en ég fleygði samt símanúmerinu. Man einhver eftir myndinni Before Sunrise? Ég var eiginlega staddur í þeirri mynd og, úff það var of mikið. Ég er ekki Ethan Hawke þó að hún sé kannski Julie Delpy. Lífið er ekki skáldskapur og í flestum tilfellum ekki rómantískt, allavega ekki mitt líf. Þó að maður geti vissulega átt sín augnablik. Þetta augnablik var rómantískt.