1. Horfið á hvort annað sem elskendur aftur. Þá á ég við, að eftir því sem sambandið þróast, hættir fólki til dæmis til, að hætta að kalla hvort annað skírnarnöfnum sínum, en fara í staðinn að kalla hvort annað t.d. mamma og pabbi, eða konan mín og maðurinn minn. Reynið í staðinn að horfa á makann ferskum augum og sjá hann sem elshuga ykkar.


2. Notið nöfn hvors annars og/eða segið ástin mín eða elskan og hættið að kalla hvort annað mömmu og pabba, það eru væntanlega aðrir til þess. Verðið bara aftur Jón og Guðrún.


3. Segðu maka þínum hversu sérstakur hann/hún er. Vandaðu val orða þinna. Meðan þú manst alla þessa hluti í huganum, sem þú elskar við maka þinn, í sambandi við móður/föður hlutvekið og hversu vel þið hjálpist að á heimilinu, þá skaltu ekki nefna það núna, heldur talaðu um alla þá kosti, sem heilluðu þig í fari hans/hennar í tilhugalífinu, það sem gerði hann/hana eftirtektarverðari en alla hina á sínum tíma. T.d. hugulsemi,sjarmi, húmor, gáfur eða fallegt bros. Hvað var það nákvæmlega, sem þú féllst fyrir á sínum tíma? Sérð þú þetta enn í fari hans/hennar.


4. Vertu ástleitin, þá ekki í kynferðislegum skilningi, heldur rómantískum skilningi. Ef öll ástaratlot eru túlkuð sem tilboð um kynmök og ekki er hægt að kyssast og kela án þess að það leiði strax til kynlífs, þá vantar eitthvað upp á rómantíkina í sambandinu. Verið náin. Haldist í hendur bæði heimavið og eins á almannafæri. Það er mjög rómantískt. Skilaboð t.d. í fjölmennu samkvæmi, um hvað þú sért stoltur að vera með þessari frábæru manneskju úti og að þú sért tilbúin/inn að segja það, er líka mjög rómantísk yfirlýsing.

5. Gefið ykkur tíma til að gera hluti hvort fyrir annað. Sum pör eru í stöðugri valdabaráttu sín á milli, hver á að fara í búðina, eða sækja börnin á leikskólann. Hættu að hafa samskipti við maka þinn á þessum nótum, eins og þið séuð sest að samningaborði í erfiðri kjaradeilu. Gerðu heldur eitthvað sérstakt, eins og t.d. að leggja lykkju á leið þína, til þess að kaupa eitthvað, sem þú veist að maka þínum þykir sérstaklega gott og komdu honum/henni á óvart, t.d. með því að elda uppáhaldsréttinn óumbeðið.

6. Kauptu ástargjafir, litla táknræna hluti, sem hafa merkingu bara fyrir ykkur tvö. Það getur t.d. verið ein rós, eða litlu gullkornabækurnar um ástina, vináttuna eða eitthvað, sem þér dettur í hug. Lítill hlutur, sem minnir ykkur á eitthvað sérstakt, t.d. ferðalag í Frakklandi sem var mjög rómantískt, þá gæti lítil stytta af Eiffelturninum hrundið af stað flóði af góðum minningum, ef þú t.d. skrifaðir á hana: Manstu?

7. Farið á stefnumót við hvort annað. Hringdu í maka þinn og bjóddu honum/henni út í bíó eða á veitingastað og leggðu jafn mikið upp úr útliti þínu og þú gerðir þegar þið voruð að fara saman út í tilhugalífinu. Leggðu til við maka þinn, að hann skipuleggi næsta stefnumót. Eftir nokkur stefnumót, stingdu þá upp á því að þið farið saman í rómantíska helgarferð, t.d. í sumarbústað bara tvö, þar sem þið sinnið bara hvort öðru, gangið úti, lesið og njótið ykkar.

8. Ekki vanrækja rómantíska hluti heima, eins og að kveikja á kertum þegar þið eruð að borða saman tvö. Kauptu fersk blóm eins oft og þú hefur efni á. Notaðu ilmvatn/rakspíra aftur, hafir þú hætt því. Kauptu falleg og rómantísk undirföt, náttföt, rúmföt fyrir hana og silkisloppa á ykkur bæði.*

9. Farðu með maka þínum á staði, sem hann/hún hefur áhuga á, jafnvel þó þetta sé ekki akkúrat þitt áhugasvið, t.d. á völlinn með honum, á tónleika, í leikhús, bíó eða eitthvað annað. Ég er ekki að tala um, að þið eigið að vera gjörsamlega eins og síamstvíburar, heldur vill þróunin hjá fólki oft verða sú eftir langa samveru, að það verður sjálfstætt í því að fara hvort sína leið eftir áhugasviði og með tímanum eiga þau svo lítið sameiginlegt til að sækja. Oftar en ekki eru það skoðanir manna, sem ákveða hvað þeim finnst um leikhúferðir, bíó og annað að óreyndu og síðan þegar á hólminn er komið, getur þetta orðið hin besta skemmtun.

10. Segðu: “Ég elska þig”, eins oft og þú kemur því við, en ekki bara þegar þú finnur þig knúna/inn til þess. Sumum reynist erfitt að segja þessi einföldu fallegu orð og held ég að það komi aðallega til af æfingarleysi, eins og brandarinn af manninum, sem sagði þessi orð aldrei við konuna sína. Þegar hún fór síðan að kvarta undan því, að hann segðist aldrei elska hana sagði hann: “Ég sagði þér, að ég elskaði þig fyrir 25 árum, þegar við giftum okkur og ég mun láta þig vita ef það breytist.”

Náir þú tökum, þó ekki sé nema á hluta af þessu, þá glæðir þú samband þitt rómantík að nýju. Það þarf ekki að vera erfiðara að gera þessa hluti með maka sínum, en að fara að kynnast nýjum aðila og fara þar í gegnum allan pakkann. Um leið og ég óska lesendum mínum árs og friðar, vil ég þakka samfylgdina á árinu sem er að líða, öll góðu bréfin og kveðjurnar sem ég hef fengið og vona að þau verði ekki færri á komandi ári. Gangi ykkur vel.