Góðan daginn. Árið 1976 gaf prógressífhljómsveitin Rush út sína fjórðu plötu og nefndist hún 2112. Á A-hliðinni er 20 mínútna verk sem vill svo skemmtilega til að heitir einnig 2112. Verkinu er skipt í 7 lög: Overture, The temples of Syrinx, Discovery, Presentatiton, Oracle: the dream, Soliloquy og Grand Finale. Allur hljóðfæraleikur og söngur í lögunum er til fyrirmyndar og vissulega eru öll lögin afar góð og vel samin. Textinn er saminn af Neil Peart og er afar flottur. Las í grein hérna á huga að sagan væri byggð á bókinni Anthem eftir rússneska rithöfundinn og heimspekinginn Ayn Rand. Ætla aðeins að segja frá textanum.

Sagan gerist greinilega árið 2112 og fjallar um dreng sem finnur einhvern framandi grip sem lýst er eins og gítar… flottar lýsingar á því hvernig hann er að finna út úr hljómunum og læra smám saman að spila. Í bæklingnum stendur náttúrulega allur textinn og þar er í gæsalöppum smá texti inn á milli, sem maður getur lesið á meðan maður hlustar á instrumental-kaflana. Þeir kaflar smellpassa oftast við þennan texta og í þessu lagi spilar einmitt Alex Lifeson á gítarinn til að byrja með frekar falska hljóma en gítarleikurinn þróast einmitt svo skemmtilega þegar líður á lagið. Geddy Lee syngur t.d. um það í textanum um að hann þurfi að sýna prestunum frá Syrinx þennan grip, en um þá var sungið í fyrsta laginu. Geddy Lee breytir alltaf röddinni þegar hann leikur prestana og gerir hana hörkulegri, sem gerir þetta alltsaman söngleikjalegt. Verkið er líka þannig samið að hann syngur alltaf hærra uppi fyrir þá. Verkið heldur áfram. Í næsta lagi kemur Father Brown að drengnum og pilturinn sýnir honum gripinn, en hann gerir lítið úr honum og segir að hann sé tímaeyðsla og “another toy that help destroy the elder race of man”. Hann brýtur gítarinn sem gerir drenginn afar óhamingjusaman. Í næsta lagi gengur hann leiður heim til sín og sofnar. Spámaður kemur til hans í draumi og sýnir honum heim sem vondu prestarnir og fólkið sem lifir á þessari plánetu hafði lagt niður fyrir mörgum árum… og þar með fór tónlistin með hinu fólkinu til annarar plánetu. Í næsta lagi er svo flott lýsing á því hvernig hann finnur að hann getur ekki lifað þarna lengur. Á endanum myrðir hann sig. Síðasta lag verksins er instrumental-lag, afar flott og sem passar vel við allt sem gerst hefur á undan í verkinu.

Á B-hliðinni eru 5 lög… sem eru svosem ekki eins góð og 2112 en samt fín. A passage to Bangkok og The twilight zone eru að mínu mati best og svo er lagið Tears líka fallegt og flott. Lessons og Something for nothing eru að mínu mati ekki sérstaklega góð… bæði lagasmíðarnar og textarnir eru ekki jafnflottir og hin lögin á disknum en hinsvegar er hljóðfæraleikurinn alltaf jafn frábær.

Ég mæli með að allir kaupi sér disk þennan sem eiga hann ekki nú þegar, hlusti á hann yfir textanum í bæklingnum og njóti stundarinnar út í ystu æsar.

Takk fyrir mig.