Viðskiptablaðið birti þann 27. september síðastliðinn ítarlega fréttaskýringu þar sem fjallað var um tónlistarmarkaðinn á Íslandi. Í greininni kom það meðal annars fram að sala á tónlist hefur tvöfaldast frá árinu 2001. Þetta eru sláandi tölur í ljósi þess að Samtök Myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS) hafa hingað til haldið því fram að niðurhal á tónlist hafi skaðleg áhrif á plötusölu.

Að mínu mati hefur að niðurhal á tónlist þvert á móti jákvæð áhrif á sölu tónlistar. Þetta segi ég vegna þess að nú fá smærri listamenn meiri athygli frá umheiminum en ella, því að með niðurhali sækir fólk sér diska sem það hefði annars ekki keypt. Hinn almenni tónlistarneytandi er oft hræddur við að kaupa geisladiska vegna þess að of oft lenda þeir í því að kaupa köttinn í sekknum. Ósjaldan er það eitt lag sem maður heyrir í útvarpi sem kveikir áhuga manns á viðkomandi geisladisk, svo þegar viðkomandi hefur eytt yfir 2000 krónum í diskinn kemst hann að því að aðeins eitt gott lag var að finna á disknum og honum finnst hann vera svikinn. En þegar fólk hefur kost á að hlaða niður diskum og hlusta á diskinn áður getur það svo dæmt um hvort diskurinn sé þess virði að kaupa. Og oftar en ekki kaupir fólk það efni sem því líkar við, til þess að styðja listamanninn og stuðla að því að hann haldi áfram á sömu braut. Í frétt Morgunblaðsins 27. júlí 2005 kom fram að breska rannsóknarmiðstöðin The Leading Question, sem fylgist með dreifingu tónlistar á Netinu, staðfesti að þeir sem deili tónlist sín á milli á Netinu eyða fjórum sinnum hærri fjárhæðum í kaup á tónlist heldur en þeir sem einungis ná sér í geisladiska með því að kaupa sér þá út úr búð.

Sjálfur átti ég fátæklegt safn af geisladiskum áður en ég kynntist kostum þess að hlaða niður diskum. Ég var einn af þeim sem var hræddur við að eyða fúlgum fjár í það sem var oftar en ekki algjört drasl, svo ég gafst upp og hætti að kaupa geisladiska nema ég væri fullviss um að þarna væri eitthvað á ferðinni sem væri þess virði að eyða peningunum sínum í. En núna á ég mun fjölbreyttara og stærra safn af diskum en flestir í kringum mig því eftir að ég fór að hlaða niður tónlist fór ég að kanna áður óþekktar hljómsveitir, hljómsveitir sem ég hefði ekki þorað að kaupa mér disk með. Ég kaupi mér að sjálfsögðu þá diska sem mér líkar við.

SMÁÍS menn sem telja sig vera málsvara tónlistarmannanna meðal annarra halda því ávallt fram að þeir séu að verða af miklum fjármunum vegna niðurhals: Þeir sem hali niður séu glæpamenn. Sagt er að nú sæki fólk sér diskana á netið í stað þess að kaupa þá. Menn verða hins vegar að gera sér grein fyrir því að oft er fólk að sækja sér diska sem það hefði aldrei keypt hvort eð er þannig að menn geta varla verið að tapa fjármunum sem voru ekki til staðar. Ég held að SMÁÍS ætti að hætta að kalla niðurhalara glæpamenn og reyna frekar að fá fólk í samvinnu við sig í stað þess að skapa reiði meðal netverja, því eins og kom fram þá eru þeir mikilvægir viðskiptavinir. Mér finnst líka hvimleitt og undarlegt að sjá auglýsingar frá þeim á DVD myndum sem ég kaupi þar sem kemur fram að niðurhal sé ólöglegt og ég sé glæpamaður, sér í lagi vegna þess að það er mjög vafasamt hvort um glæp er að ræða, sbr. ummæli Eiríks Tómassonar, prófessors í lögfræði við Háskóla Íslands og lögmanns Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, STEF, sem segir niðurhal sem slíkt á skrám af netinu löglegt. Einnig er undarlegt að sjá þessa auglýsingu á undan efni sem ég hef án alls vafa fengið löglega og finnst mér þeir því vera að beina þessum auglýsingum á vitlausan stað, auk þess sem það má deila um hvort það sé ólöglegt athæfi að deila tónlist á netinu.

Mín niðurstaða er sú að það sé til góðs öllum tónlistarmönnum, útgefendum og að ég ekki tali um tónlistarunnendum og þeim til mikilla hagsbóta að niðurhal tónlistar til einkanota og einkahlustunar einstaklinga verði látið óareitt. Litlu jurtirnar í húsi hvers einstaklings verða að blómlegum akri ef við leyfum þeim að blómstra Á þessum vettvangi eins og svo mörgum öðrum í lífinu er frelsið affærsælast. Látum þúsund blóm blómstra svo akurinn vaxi og dafni sem allra best.


Heimildir:
http://vb.is/index.php?menu=news&sub=in&id=24067
www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1151116
http://www.mbl.is/mm/frettir/serefni/skraarskipti_2006/nidurhal.html