Stranglers Hljómsveitin Stranglers er langlífasta og sennilega virtasta hljómsveit bresku nýbylgjunnar. Hún var stofnuð í september 1974 og hefur starfað óslitið síðan þá, að mestu án mannabreytinga.

Pönkárin

Stranglers voru fljótlega spyrtir saman við pönkbylgjuna sem reis hæst á árunum 1976 til 1978, en áttu ekki að öllu leyti samleið með pönkinu. Tónlist Stranglers fetaði alla tíð krákustíg milli þróaðs rokks síðhippaáranna og pönks. Viðfangsefni texta og tónlistar var myrkt og þrungið ógn og ofbeldi. Groddabassi Jean Jacques Burnel og síðklassískur hljómborðsleikur Daves Greenfield einkenndu tónlistina frá upphafi og greindu hana frá annarri tónlist tímabilsins.

Almennari vinsældir

Stranglers seldu langflestar plötur allra nýbylgjusveita á þeim árum og gekk betur að höfða til hins almenna plötukaupanda en t.d. Sex Pistols, Ramones og Clash. Hefur hún einkum selt vel af breiðskífum og hafa þær flestar náð inn á topp 10 lista í Bretlandi og Evrópu.

Rokkað í Reykjavík

Hljómsveitin kom svo til Íslands og spilaði árið 1978 við ótrúlegar undirtektir, enda hafði landinn lengi verið sveltur af heimsóknum erlendra sveita. Af mörgum rokkáhugamönnum eru þetta taldir áhrifamestu tónleikar Íslandssögunnar, enda hrundu þeir af stað íslensku rokkbylgjunni sem lýst var í myndinni Rokk í Reykjavík og enn sér ekki fyrir endann á. Heilluðu þeir marga með kröftugu rokki og sviðsframkomu sem ekki hafði sést hér áður.

Golden Brown, vals dauðans

Það var svo með risasmellinum “Golden Brown” 1981, sem hljómsveitin sló verulega í gegn á heimsvísu. Lagið var grípandi sólarvals þar sem Greenfield lék á sembal en textinn var tvíræður og með myrkum undirtón.

Mýkt og myrkur

Eftir vinsældir “Golden Brown” mýktist hljómur sveitarinnar, þó hún héldi að einhverju leyti hinum ógnandi undirtón sem einkenndi hana. Mörg lög sveitarinnar nutu verulegra vinsælda á 9. áratugnum. Má þar nefna t.d. “Strange Little Girl”, “Skin Deep” og “Always the Sun”. Hafa verið gefnir út tugir safnplatna því alltaf fjölgar aðdáendum sem hrífast með. Breidd og dýpt tónlistar þeirra hefur fyrir löngu gert þá klassíska.

Alltaf jafn góðir

Nýjasta stúdíóplata Stranglers, “Norfolk Coast”, hefur hlotið afar lofsamlega dóma og er af mörgum talin þeirra besta plata í 20 ár. Á henni eru bæði heljarrokklög sem minna á upphafsár sveitarinnr og mýkri lög eins og þeir urðu vinsælastir fyrir. Má telja öruggt að Stranglers eigi enn langt líf fyrir höndum.

Heimasíða Stranglers