Muse tónleikarnir-Rokkið holdi klætt Fyrir nokkrum árum uppgötvaði ég Muse þar sem ég lá skelþunnur á grískum sundlaugarbakka. Ég gat ekki hreyft mig, nennti ekki einusinni að henda þýskum handklæðum ofan í sundlaugina, sem hafði fram til þessa verið mitt uppáhalds hobbý. Ég lá þess í stað með heyrnartól og hlustaði á Origin of Symmetry, sem var þá nýkominn út.

Þegar ég kom heim hélt ég áfram að hlusta og alltaf ágerðist ástfóstur mitt á þessari yndislegu hljómsveit sem ég hafði dæmt ranglega í fávisku minni, þegar Muscle Museum var vinsælt á sínum tíma. Hápunkti náði aðdáun mín eftir að ég uppgötvaði að hægt var að sækja af Kazaa tónleikavideo með þeim. Eftir áð ég sá Newborn spilað live varð ekki aftur snúið. Hullabaloo var svo sannkallaður dópamínskammtur, þó svo að þeir tónleikar séu ekki alveg jafn hráir og kraftmiklir og margt sem maður hefur séð með þeim.
Það er einmitt þessi hrái kraftur og þessi einlæga snilld sem heillaði mig algerlega við þessa hljómsveit. Að sjá hvernig söngvarinn/gítarleikarinn/hljómborðsleikarinn Matt Bellamy sveiflast um sviðið eins og héri á amfetamíni. Úr gítarnum koma svo hin undarlegustu hljóð og manni er það fullkomlega ljóst að þessi maður hefur fullkomið vald á þvi sem hann er að gera, og hann gerir það vel. Einnig er vel þess virði að gefa löppum hans gaum þegar hann er að taka sólo, þær eru oft einnig á fullu við að stjórna hinum ýmsu effectum og græjum.

Ekki einasta að hann sé með betri gítarleikurum nú í dag er hann án efa lang besti söngvarinn, alltént í þessum geira. Röddin býr yfir sama krafti og sviðsframkoman en er um leið hárnákvæm og allt að því brothætt, það fer um mann þegar hann leikur sér að því að sveiflast milli hæðstu hæða og ofan í djúpa dali.

En Muse væri nú varla svipur hjá sjón ef að bassaleikarinn og trommarinn stæðu sig ekki í stykkinu. En þessi hljómsveit myndar einstaka heild og maður á virkilega erfitt með að sætta sig við að allur þessi hávaði komi frá einungis þremur einstaklingum.

Ég skora á alla sem vettlingi geta valdið að mæta í höllina og líta þessi goð augum, svona á Rokk að vera. Sjálfur get ég ekki mætt þar sem að þessir tónleikar eru einmitt í miðjum prófum hjá mér. Ég verð því að bíta í súrt epli skella mér út næsta sumar.
Og að lokum legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði.