Fengið af mbl.is
Herferð gegn þeim sem skiptast á tónlist á netinu einnig á Íslandi
Alþjóðasamtök tónlistariðnaðarins, IFPI, og dóttursamtök þess í einstökum löndum sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem lýst er yfir stríði á hendur ólöglegu „niðurhali”. Hafist var handa við 2.000 ný málaferli gegn einstaklingum sem opna öðrum aðgang að miklu magni af höfundaréttarvarinni tónlist. Portúgalar eru til dæmis að hefja málaferli á þessu sviði í fyrsta sinn en þar hefur sala á löglegu efni beðið afhroð vegna óhemjumikilla ólöglegra skráarskipta.
Hundruð manna hafa þegar orðið að gjalda fyrir ólögleg skipti á höfundaréttarvörðu efni, og sektirnar sem um hefur samist hafa að meðaltali numið 230.000 íslenskum krónum.
Með málabylgju þeirri sem hafin var í dag ásamt málum sem rekin hafa verið á undangengnum mánuðum nemur heildarfjölda málaferla gegn þeim sem gera tölvuefni aðgengilegt öðrum rúmlega 5.500 málum í 18 löndum utan Bandaríkjanna.
Skráarskiptakerfin p2p og fleiri svipuð eru blönduð í málið
Málaferlin í dag beinast gegn öllum helstu heimildarlausu skráarskiptakerfunum – p2p (þ.m.t. FastTrack (Kazaa), Gnutella (BearShare), eDonkey, DirectConnect, BitTorrent, WinMX, og SoulSeek.
Aðgerðunum er hleypt af stokkunum samtímis í Austurríki, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Hong Kong, Íslandi, Ítalíu, Portúgal, Svíþjóð og Sviss.
Margir þjóðfélagshópar eiga sér fulltrúa meðal hinna brotlegu. Þar má nefna finnskan smið, breskan póstburðarmann, tékkneskan stjórnanda í upplýsingatæknifyrirtæki og þýskan lífeyrisþega. Mikill fjöldi mála hefur verið höfðaður gegn karlmönnum á aldrinum 20 til 35 ára og foreldrum sem hafa ekki sinnt fræðslu- og varnaðarherferðum um lagalega áhættu af því að leyfa skráarskipti á heimilinu.
Viðvörun til foreldra
Nú er verið að senda út nýja viðvörun til foreldra þar sem þeir eru minntir á ábyrgð sína á því sem börnin eru að gera á heimilistölvunni. Margir þeirra sem eiga nú mál yfir höfði sér eru foreldrar barna sem hafa skipst ólöglega á þúsundum af tónlistarskrám á skráarskiptakerfunum – p2p.
Fræðsluefni á vefnum
Á síðustu tveimur árum hefur verið ráðist í ýmsar fræðsluherferðir um þetta málefni. Leiðarvísirinn „Ungt fólk, tónlist og Netið“ sem gefinn er út af Net Family News og Childnet International, sem er góðgerðarstofnun fyrir börn, hefur verið þýddur á sex tungumál og fæst á www.pro-music.org og á vefsíðu Childnet.
Hugbúnaður sem stöðvar ólöglegt niðurhal
Digital File Check er afar aðgengilegur hugbúnaður sem fæst á diskum eða á vefsíðu IFPI – með hjálp hans er unnt að fjarlægja eða hefta öll óæskileg skráarskiptakerfi sem mikið eru notuð til að dreifa höfundaréttarvörðum skrám á ólöglegan hátt. Þessi hugbúnaður getur þannig hindrað að neytendur taki vísvitandi eða óafvitandi þátt í ólöglegum skráarskiptum.
Foreldrar þurfa að fylgjast með tölvunotkun barna sinna
Mary Louise Morris, forstöðumaður fræðslu og upplýsingamála hjá Childnet International, segir: „Það er reynsla okkar að foreldrar geri sér ekki grein fyrir því sem börnin eru að gera á Netinu og viti ekki hvað spurningar sé rétt að nota til að vekja máls á þessu málefni. Á þessum skráarskiptasíðum kann vel að vera að börnin séu ekki einungis að taka þátt í ólöglegri starfsemi á borð við höfundaréttarbrot, heldur einnig í því að horfa á afar óviðeigandi efni og stofna öryggi heimilistölvunnar í hættu. Foreldrar þurfa að fara að skipta sér af því sem börnin eru að gera á Netinu og verða virkari í að leiðbeina þeim um notkun á Netinu.“