Endalok DC++ á Íslandi? DC notkun Íslendinga hefur farið hrörnandi á undanförnum misserum og bendir allt til þess að það sé vegna þess að fólk hefur alfarið snúið sér að BitTorrent staðlinum. Þetta gæti leitt til endaloka DC menningarinnar á Íslandi og virðist vera að Torrent hafi endanlega gengið frá DC.

Tilkynning barst frá einum stjórnanda síðasta alvöru opinbera DC++ tengipunktsins á Íslandi, Aztek á nexus.kjarni.cc, en hann sér ekki tilgang í að halda þessu uppi með tilheyrandi kostnaði og vinnu þegar fólk er hætt að nýta sér þetta.

Tilkynningin er eftirfarandi…
Sælir,

Ég hef mikið verið að pæla í stöðu dc++ og ég verð að viðurkenna að hún er slæm. Fólki finnst dc bara of flókið og fer endanlega. Og af þeirri ástæðu fækkar notendum bara í stað þess að hækka. Notendafjöldinn á NeXuS hefur verið lækkandi jafnt og þétt í marga mánuði og núna er staðan sú að notendafjöldi fer aldrei yfir 100 manns á dag. Allir aðilar sem eru með mér í þessu eru búnir að gefast upp (RadoX, Spider) á dc++ staðlinum og eru jafnvel hættir að nota hann sjálfir. En Ég er sá eini sem hef haldið DC lifandi svona lengi, án mín hefði dc lognast útaf fyrir löngu síðan. En ég verð að horfast á við staðreyndir, DC er dautt og í þetta sinn endanlega.

Af þeirri ástæðu hryggir mig að tilkynna að Kjarni mun hætta með alla tengipunktaþjónustu frá 1. Júlí 2008

Með kveðju, Kjarni

En það er ekki eins og BitTorrent geti nokkru sinni leyst DC alveg af hólmi, þar sem þetta er allt annar staðall og allt önnur hugsun á bakvið hvoru tveggja. Til dæmis þarf að senda inn efni á Torrent, en á DC er nóg að deila möppu og þá er mögulegt fyrir almenning að sækja allt í þeirri möppu.

Torrent er aðallega hugsað fyrir innsendingar á stórum skrám, pökkum af efni, heilum tónlistardiskum, o.s.frv., á meðan DC er hugsað fyrir allt á stöku formi. Vissulega er hægt að sækja t.d. bara eitt lag af tónlistardiski á Torrent, en það er staðreynd að mest er um innsendingar á heilum diskum og minna um stök lög. Þess vegna er hvoru tveggja gott til síns brúks, og því má segja að staðlarnir séu mjög ólíkir og báðir gagnlegir á sinn hátt, þó grunn-hugmyndin sé sú sama.

Þetta er sannkallaður sorgardagur í heimi netverja.
Gaui