Muse - Absolution (2003) Muse gáfu frá sér frumraun sína 1999,
Showbiz. Sú plata var ansi róleg og
voru Muse að leita að sínum stíl. Henni
var mikið líkt við Radiohead og var
mikið af fordómum í þeirra garð.
    Origin of Symmetry kom 2001 og
eftir það hefur þessi Radiohead hugmynd
dottið upp fyrir. Origin of Symmetry
kom með meira rokk og nýja ímynd fyrir
Muse.
    Nú árið 2003 er komin út þriðja
skífa Muse. Margir segja að þriðja
plata hljómsveitar sé sú erfiðasta og
eflaust margt til í því. Muse hafa
allveganna staðist þá raun núna að gefa
út þrjár plötur og er tónlist þeirra
komin til að vera.


01. Intro
02. Apocalypse Please
03. Time Is Running Out
04. Sing for Absolution
05. Stockholm Syndrome
06. Falling Away with You
07. Interlude
08. Hysteria
09. Blackout
10. Butterflies and Hurricanes
11. TSP
12. Endlessly
13. Thoughts of a Dying Atheist
14. Rule by Secrecy

Absolution er góð plata þótt fyrri
skífur Muse séu betri. Öll lögin hafa
eitthvað til brunns að bera og mætti
engu sleppa né bæta við hana.
Absolution hljómar mun þykkari en fyrri
plötur meira er í lögunum og tónlistin
flóknari. Á fyrri skífum fengu hins
vegar melódíur og hljóðfæri betur að
njóta sín.
    Píanóstef Matt Bellamy eru eitthvað
sem fer ekki framhjá neinum við að
hlusta á Muse og eru þau nú mögnuðri en
nokkru sinni fyrr. “In Your World” af
“Hullabaloo” og “New Born” af “Origin
of Symmetry” hafa heillað mann og annan
með sínum stórkostlegu píanóstefum en
Butterflies and Hurricanes af
Absolution hefur að geyma flottasta
píanóstef sem ég hef heyrt í rokklagi
og eru stef í fyrrnefndum lögum aum í
samanburði við það. Apocalypse Please
sem er fyrsta lag disksins hefur einnig
að geyma ótrúlegt gegnumgangandi
píanóstef. Auk þessara laga hafa hin
lögin mörg að geyma stef bæði á
hljómborð og píanó sem setja einstakan
svip á diskinn.
    Chris Wolstenholme bassaleikari
Muse hefur alltaf verið með línur sem
setja punktinn yfir i-ið í Muse. Á
Absolution gefur Chris ekkert eftir og
eru kaflar í lögum eins og Time Is
Running Out
og Hysteria sem gefa manni
gæsahúð og setja tilfinningu “Muscle
Museum” af “Showbiz” í nýjan búning.
    Fátt er í raun nýtt á þessum
diski, tónlistin er orðin þróaðri og
við fáum aftur til okkar keima af
fyrstu plötu Muse; Falling Away with
You
og Blackout sýna rólegu hlið
þeirra sem vantar á “Origin of
Symmetry”. Thoughts Of A Dying Atheist
gefur okkur samt eitthvað sem muse
hafa ekki gert áður. Þó lagið sé í
raun ekki ósvipað hinum lögum
Absolution finnst mér það vera eina
lagið á Absolution sem hefur ekki lit
af fyrra efni Muse og gefur þeim aðra
vídd. Með lag sem minnir óneitanlega á
“Without you I'm Nothing” disk
“Placebo”.
    Vankanntar eru samt sem áður á
Absolution, ber þar að nefna hvað
diskurinn er einstaklega sundurleitur
og lögin einfaldlega styðja ekkert við
hvort annað. Ef við horfðum á diskinn
eins og pústluspil væru lögin pústl í
fallegri mynd en búið væri að þrýsta
þeim saman á einhvern óviðeigandi
hátt. Ég finn til með sumum lögunum
þar sem þau missa allan kraft. Dæmi má
nefna samskeyti Hysteria/Blackout þar
sem Hysteria býður upp á meira rokk en
Blackout er eitt rólegri laganna á
disknum. Sömuleiðis er Stockholm
Syndrome
magnþrungið miklum
tilfinningum og týnist Falling Away
With You
algjörlega þar á eftir. TSP
er mjög kröftugt lag sem fór nær alveg
framhjá mér þar sem Butterflies and
Hurricanes
sem er hápunktur disksins
kemur á undan.
    Annað sem mér fannst ekki nógu
skemmtilegt eru textar Matt Bellamy.
Það er í raun ekki textarnir sjálfir
sem eru slæmir heldur er það
tilhneiging Matt til að endurtaka þá í
sífellu. Þetta dregur ekki lögin niður
á neinn hátt en á fyrri diskum voru
textarnir lengri og gáfu því laginu
meiri lit svo ég set spurningarmerki
við þennan nýja söng Matt sem er mun
litlausari og einhæfari en áður.
    En ef á heildina er litið er þetta
góður diskur og mæli ég með honum til
allra þeirra sem hafa áhuga á góðri
tónlist. Butterflies and Hurricanes er
besta lag disksins eftir nokkra
hlustun en önnur góð lög eru:
Stockholm Syndrome, Apocalypse Please,
Hysteria, TSP, Endlessly, Ruled by
Secrecy
.

4/5