Sumir muna kannski eftir eðalbandinu At The Drive-In sem að komu sterkir inn í tónlistarvitund rokkara með plötunni Relationships of Command fyrir nokkrum árum síðan. Það sem að færri vissu var að ATDI hafði þá verið að harka í ca 9 ár við litlar undirtektir á smápöbbum og kústaskápum um öll bandaríkin spilandi emo-pönk, og það var ekki fyrr en að Cedric Bixler og Omar Rodriguez , söngvari og gítarleikari ATDI drógu sveitina út á framúrstefnulegri mið en áður á Relationships….sem að menn sperrtu eyrun. Því miður var það of seint, ATDI voru orðnir leiðir á stanslausum samvistum og ósætti um hvaða stefnu skyldi taka tónlistarlega séð olli því að sveitin klofnaði í tvennt, Cedric og Omar stofnuðu The Mars Volta á meðan hinir meðlimirnir stofnuðu hina mun hlustunarvænni hljómsveit Sparta, sem hefur verið að gera það gott í útvarpi undanfarið með plötunni Wiretap Scars. En nú er fyrsta afurð Mars Volta komin út og VÁ!. Ég leyfi mér að fullyrða að ekki síðan Radiohead gáfu út OK Computer hefur rokkið tekið jafnstórt skref fram á við. Ég ætla stuttlega að fjalla um þetta meistaraverk, en þið þurfið í rauninni ekkert að lesa þetta. Ef að þið hafið eitthvað gaman af rokki, eða bara vel saminni og spilaðri tónlist yfir höfuð skellið ykkur þá strax út í næstu tónlistarverslun og kaupið þennan disk. Hann er ÞAÐ góður.

De-Loused at the Comatorium er að grunninum til sama tónlist og ATDI voru að spila, þ.e pönkaðir rokkgítarar með miklu emo-ívafi, tilfinningaþrungnum söng og þessháttar, en það er mun meira spunnið í þessa plötu en bara það. Til að byrja með er einvalalið tónlistarmanna sem spilar hér undir sterkri stjórn Cedrics og Omars, m.a Flea bassaleikari Red Hot Chili Peppers og trommarinn úr finnska metalbandinu His Infernal Majesty. Upptaka er í höndum Slayer/Beastie Boys/ATDI pródúsentsins og allrahanda stúdíósnillingsins Rick Rubin sem að er með þeim allra bestu í bransanum.

Platan byrjar á introinu “Son et Luminere” sem að leggur línurnar fyrir fyrsta lagið “Inertiatic Esp” sem mikið hefur verið spilað á X-inu undanfarið. Það sem að slær þig fyrst er hversu þungir Mars Volta eru án þess að snerta nokkurntíman “overdrive” pedal. Gítarsándið minnir oft á svipaða tóna og Dead Kennedys notuðu, mikið reverb o.þ.h. Einnig gefur heimsklassa bassaleikur Flea gríðarlega vikt, og hér sýnir hann að hann kann meira en bara þetta fönkskotna rokk sem RHCP eru frægir fyrir. Annað sem kemur á óvart er hversu líkur henni Björk circa-Sykurmolarnir Cedric Bixler söngvari er á köflum, en alfarið á góðan hátt. Bixler er einn af fáum rokksöngvurum í dag sem að er ekki einungis með góða rödd og fulla stjórn á því sem hann er að gera, heldur syngur algerlega frá hjartanu, og á köflum fær maður gæsahúð yfir því sem hann er að gera, t.d í laginu Roulette Dares(This is the Haunt) þar sem hann bókstaflega fer á kostum.

Önnur lög sem standa upp úr eru hið tólf mínútna langa pshycaldelic-tripp Cicatriz ESP, hið á köflum Sign-lega “This Apparatus Must Be Unearthed” og lokalagið ógurlega “Take the Veil Cerpin Tax”

Þegar upp er staðið er “De-Loused….” miklu meira en bara pönkrokk plata. Mars Volta hafa gert plötu sem að er greinilega algerlega þeirra hugarfóstur, án nokkurs tillits til neinna markaðshugmynda, hér er öllu hrært saman, pönki, psychadelic, freestyle jazz, og allrahanda sýruhugmyndum. Það furðulegasta er að þetta er samt að virka sem heilsteypt tónlist, og maður fær aldrei á tilfinninguna að þeir séu eitthvað að reyna að spila sig sem einhverja arty-farty gaura. Ef að ég þyrfti að líkja þessari plötu við einhverja aðra myndi ég helst nefna OK Computer með Radiohead eða Dark Side of the Moon með Pink Floyd. Ekki af því að þær hljómi eins, langt í frá, heldur vegna einlægrar viðleitni til að gera eitthvað nýtt, til að marka ný spor í rokksögunni.

Ef að þú skelltir Björk, Pink Floyd, Dead Kennedys og Radiohead í sama herbergi og segðir þeim að taka upp plötu þá myndi þetta sennilega vera afurðin. Ég gef þessari plötu toppeinkun og hvet alla til að kaupa hana sem fyrst.