,,Já í hvaða skóla ætlar þú svo?’’ Þessi spurning glymur við í öllum fjölskylduboðum vorið sem maður klárar lokabekk grunnskólans. Að því er virðist er þetta uppáhaldsspurning allra frænknanna sem klípa mann kinnarnar og dást að því hvað maður er orðin stór. Svör þessara spenntu tíundubekkina eru að sjálfsögðu margvísleg, en ég efa ekki að hjá nokkrum þeirra var svarið: MH!
Og þá get ég einnig ábyrgst að einhverjum frænkunum hefur orðið að orði, ,,Auðvitað, þú ætlar í kórinn!”
Þetta var einmitt svona hjá mér og ég viðurkenni fúslega að kórinn skipaði stóran sess í ákvörðun minni um að leggja stund á nám við Menntaskólann við Hamrahlíð. Kórinn er eitt af aðalsmerkjum skólans og dregur sennilega að sér hvern söngglaðan nemandann á fætur öðrum. Það er því ekki að undra að hann hafi starfað óslitið í meira en 35 ár.



Það var í haustbyrjun árið 1967 að ung stúlka, nýsloppin úr tónlistarnámi í Bandaríkjunum, var í heimsókn hjá kennara sínum og gömlum vini, Róberti Abraham Ottósyni og konu hans, Guðríði Magnúsdóttur. Þessi unga stúlka, Þorgerður Ingólfsdóttir, þá 24 ára, var menntaður kórstjóri og vantaði vinnu. Doktor Róbert eins og hann var oft kallaður brá þá á það ráð að hafa samband við vin sinn, þáverandi rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, Guðmund Arnlaugsson og athuga hvort hann hefði ekki áhuga á því að ráða Þorgerði. Hann tók vel í þessa hugmynd og var Þorgerður því ráðin sem söngstjóri við MH. (Heimir Pálsson 1997:68)
Þetta segir meðal annars í þessari bókun Jóns Böðvarssonar á kennarafundi, dagsett þann 20. september árið 1967:

Rektor skýrði frá því að hann hafi ráðið Þorgerði Ingólfsdóttur sem söngstjóra við skólann. Hún mun leitast við að stofna kór. (Heimir Pálsson 1997:67)

Þá hafði skólinn aðeins verið starfræktur í um það bil eitt ár og mætti maður þá ætla að hann hefði haldið sig til hlés svona fyrstu misserin, en því var ekki þannig farið. Strax þau hin fyrstu jól sem kórinn starfaði fór hann og söng á elliheimilum og Kleppsspítalanum, og hefur gert alla tíð síðan fyrir utan örfá skipti sem Þorgerður tók sér leyfi. (Heimir Pálsson 1997:70)
Þorgerður Ingólfsdóttir stofnaði kórinn og hefur stjórnað honum æ síðan. Hún var aðeins 24 ára þegar hún var ráðin en verður 60 ára nú í haust. Hún er brautskráður söngkennari frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og lærði einnig kórstjórn og tónvísindi hjá Róberti sem fyrr er minnst á hér í kaflanum. Þá fór hún í tveggja ára framhaldsnám til meistaraprófs í Bandaríkjunum þar sem námsgreinarnar voru tónvísindi og kórstjórn. Þorgerður er því með góða menntun og er nú einn reynslumesti kórstjórinn á landinu.
Kórinn var að vísu ekki mikill um sig fyrstu árin enda viðhorf til kórs ekki sérlega jákvætt. ,,Þá var því miður oftast litið á kórsönginn í besta falli sem skemmtilega tónstundaiðju, meinlausa svo lengi sem hún kæmi ekki niður á alvörunámi.” (Heimir Pálsson 1997:70) Heimir Pálsson segir frá í grein sinni, ,,Syngjandi sendiherrar” að ,,hafa orðið aðhlátursefni fyrir að taka þátt í að ,,syngja með kvenfólki út í bæ!” Þannig var litið á þátttöku ungra manna í blönduðum kórsöng.” (Heimir Pálsson 1997:69)
En úr viðhorfið hefur nú batnað til muna og þykir nú talsvert virðingarvert að hafa komist inn í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð, því að þangað komast nú ekki allir. Nú eru 85 nemendur skráðir í kórinn, 30 drengir og 55 stúlkur. (Andri Ólafsson og Valdimar Ásgeirsson, 2003)
Árið 1981 bættist nýr kór við tónlistarsögu menntaskólans. Sá kór var skipaður þeim sem voru brautskráðir en vildu síður hætta að vinna með Þorgerði og kórfélögunum. Kórinn sá er kallaður Hamrahlíðarkórinn á meðan hinn kórinn er kallaður Kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Þorgerður segir þetta í viðtali sem Margrét Hreinreksdóttir tók við hana fyrir Morgunblaðið í janúar 1983:

Til skamms tíma voru það óskráð lög, að nemendur hættu í kórnum ekki síðar en haustið eftir að þeir brautskráðust frá skólanum, … en veturinn 1981 kom það til, að kórinn syngi stórt verk með Sinfóníuhljómsveitinni, Daplinis og Chloé eftir Ravel, og til þess þurftum við að stækka hann úr sextíu í áttatíu manns. Þar sem við töldum ekki ráðlegt að gera það með inntöku ungra, óreyndra nemenda, var ákveðið að leita til eldri nemenda, sem áður höfðu starfað með kórnum. Síðan tók við Þýzkalandsferðin og flutningur Mattheusarpassíunnar með Pólýfónkórnum og upp úr þessu var ákveðið að tveir kórar skyldu starfa undir nafni Hamrahlíðar; annar einskonar framahaldskór, þar sem skilyrði fyrir inngöngu var að hafa starfað í kórnum áður; hinn eingöngu skipaður nemendum, sem stunda daglegt nám í skólanum, að stórum hluta nýliðum í kórstarfi. Með þessu verður unnt að fást við erfiðari verkefni en áður. (Margrét Heinreksdóttir 1983)

Kórinn syngur á öllum helstu hátíðum og athöfnum í skólanum, enda er það sjálfsagt því skólinn styður vel við bakið á kórnum. Kórinn byrjaði fljótt að leita út fyrir veggi skólans við tónleikahald og uppákomur. Fyrstu jólin söng hann á Kleppspítalanum og árin á eftir fór hann í ýmsar heimsóknir um land allt.
Sumarið 1971 fór kórinn til Llangollen í Wales og tók þátt í alþjóðlegri tónlistarhátíð sem bar nafnið International Eisteddfod. Þátttakendur mótsins voru allt úrvals tónlistarfólk og því má segja að kórinn hafi þarna skipað sér sess með betri flytjendum um heim allan. (Heimir Pálsson 1997:71)
Síðan þá hafa kórarnir farið tæplega þrjátíu sinnum til útlanda til að taka þátt í ýmsum hátíðum og keppnum. Þessar ferðir hafa þjappað kórfélögunum saman og styrkt félagsandann til mikilla muna. Það er alveg víst að þær skilja eftir sig minningar sem lifa í hugum kórfélaga um ókomna tíð.
Ótalmargir lagahöfundar hafa samið lög sérstaklega fyrir Hamrahlíðakórinn og má þar nefna Atla Heimi Sveinsson, Jón Nordal og Þorkel Sigurbjörnsson. Eins hafa fjöldamörg lög verið útsett fyrir kórinn. (Heimir Pálsson 1997:80)

En af hverju flykkjast unglingarnir að til að komast í inntökupróf í kórinn? Hvað er svona spennandi við skólakór?
Sumir ganga í kórinn til að öðlast góða reynslu af söng og tónlist, öðrum finnst bara óstjórnlega gaman að syngja, en ég held að flestir geti verið sammála um það að þarna er félagslegi parturinn einna stærstur. Kunningjarnir sem maður eignast í kórnum verða oft ævifélagar og vinir mans. Stemmningin er sérstök í þessum kór. Allir eru til í að gera allt saman og ef að einhver biður um hjálp, t.d. við kaffihúsið á lagningardögum, fyllist loftið af uppréttum höndum þeirra sem bjóða fram hjálp sína. Metnaðurinn er einnig meiriháttar. Allir gera sitt besta og mæta á æfingar sem eru oft ansi strembnar og tímafrekar, þrátt fyrir að hafa margt annað að gera. Þetta sannast á hversu vel kórinn stendur sig um jólaleytið og syngur á fjöldamörgum stöðum, þrátt fyrir að prófatíð og miklar jólaannir.




Nú hef ég verið í kórnum þær tvær annir sem ég hef verið við skólann og líkað það nokkuð vel. Að vísu hefur þetta verið talsvert strembið, margar æfingar og stjórnandinn kröfuharður, en á móti kemur reynsla sem ég tel að eigi eftir að nýtast mér um ókomna tíð, bæði við leik og störf. Í kórnum á ég eftir að eignast vini og kunningja og það er ómetanlegt.
Ég tel að kórinn beri vott um það hversu ungt fólk er megnugt. Hann er sómi skólans og mun vera aðalsmerki hans svo lengi sem hann verður starfræktur. Heimir Pálsson segir að ,,smám saman hafi Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Hamrahlíðarkórinn orðið gróinn hluti skólans í vitund almennings. Kórarnir hafa borið skólanum vitni og aflað honum álits langt út fyrir skólalóðina og raunar býsna víða um heim.” (Heimir Pálsson 1997:67)
Til að ljúka þessu ætla ég að leyfa Margréti Sigvaldason Jackson, Vestur-Íslendingi sem heyrði í kórnum á Íslendingahátíð í Toronto, að eiga lokaorðin (lauslega þýdd af mér.)
Hamrahlíðakórinn frá Reykjavík, sem samanstendur af 51 ungling á menntaskólaaldri, undir frábærri stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur, er blessun undurfagurs, raddaðs hljóms sem blandast saman eins og efra og neðra tónsvið á góðu pípuorgeli. Einstök staðsetning sóprana, alta, tenóra og bassa sem sýnist hafa verið handahófskennd uppröðun, bætti við tilkomumikil áhrifin. (Margrét S. Jackson 2003)





Heimildaskrá



Heimir Pálsson. 1997. “Syngjandi sendiherrar”. Menntaskólinn við Hamrahlíð 30 ára. Menntaskólinn við Hamrahlíð, Reykjavík. 67-85.

Margrét Heinreksdóttir. 1983, 29. janúar. “Úr tónlistarlífinu” Morgunblaðið.


Netheimildir:

Andri Ólafsson og Valdimar Björn Ásgeirsson. Febrúar 2003. Kórlisti 2002 – 2003.
vefslóð: http://www.kor-mh.tk/

Margrét Sigvaldason Jackson. Febrúar 2003. Reflection on Northern Encounters. Fálkinn –fréttablað the Icelandic Canadian Club of Toronto. Ritstjóri er Gail Einarsson-McCleery.
vefslóð: http://icct.info/newsletter/199709.html




Myndir:

Ragnheiður Sturludóttir. 2002. http://www.kor-mh.tk

The Icelandic Canadian Club of Toronto. 1997. http://icct.info/newsletter/199709.html