Þetta á etv. illa heima sem grein og fyrst og fremst skrifað til þess að fá viðbrögð frá notendum.

Er tíska í mótorhjólum á Íslandi?

Ég man eftir því fyrir c.a. 15 árum síðan þá var mjög algengt að fólk væri á svokölluðum “kappaksturshjólum” með hestaflatölu á við lítið vatnsaflsorkuver og hönnuð í vindgöngum. Því meira plast þeim mun betra. Fólk notaði lokaða hjálma með dekktu gleri og klæddist níðþröngu leðri sem oftar en ekki var litað í öllum regnbogans litum. (þetta lið var ekki ósvipað “mannræningjunum” í The Big Lebowski).

Næsta sem maður var við var að skyndilega var sítt skegg og bjórvömb aftur komin í tísku. Menn fjárfestu í “hippamótorhjólum” með V mótor og ógurlegu torki. Hjálmarnir opnuðust á ný og flugur og annað drasl fengu aftur aðgang að andliti reiðmannanna. Gamlir gallajakkar gengu í endurnýjun lífdaga sem drusluleg vesti utan um sjáða leðurjakka.
Þetta virðist reyndar lifa góðu lífi meðal eldri hjólamanna.

Nýliðunin núna virðist hins vegar fyrst og fremst vera í krossurum (drullumöllurum eða hvað þeir nefnast). Mikil umfjöllun er um krossferðir á íslenskar heiðar og gryfjur. Menn hafa myndað með sér samtök um málefnið og þetta er greinilega málið í dag.
Þessir riddarar “götunnar” klæðast nú þröngum litríkum göllum úr geimaldarefnum svo sem kevlar, tefloni og hátækniplasti. Til að tapa ekki úr sér líffærum er nýrnabelti orðið að skylduklæðnaði.

Getur þetta verið vegna þess að skellinöðrur eru alltaf að líkjast litlum krossurum meira og meira með tímanum? Þegar drengir (og stúlkur) vaxa upp úr nöðruskapnum og langar í meira afl.
Skellinöðrur í forneskju voru mun líkari mótorhjólum sama tíma.
Getur etv. verið að þetta séu áhrif frá erlendum ferðamönnun sem koma hingað til að ferðast á hjólum?

Hvaða tíska ætli ryðji sér næst til rúms? Ætli “Cyber” hljólin verði næst til vinsælda?

Potemkin