Ozzy Osbourne - fyrsti hluti Það hefur verið skrifað mikið um Ozzy Osbourne á þessari síðu, margt af því mjög gott en ég hef ekki séð neitt sérstaklega ítarlegt. Ég sauð þetta því saman og vona að menn nenni að lesa þessa langloku um þennan sérkennilega karakter og feril hans. Greinarnar verða fjórar

Til að fyrirbyggja umræður um málið þá eru þessar greinar ekki copy/paste. Þær eru settar saman úr ýmsum heimildum og eigin vitneskju eftir að hafa hlustað lengi á og fylgst með Ozzy og Sabbath.


Ozzy Osbourne var fæddur í Birmingham 3. desember 1948. Hann var skírður John Michael Osbourne, en nafnið Ossy festist snemma við hans sem stytting á Osbourne nafninu en það breyttist síðar í Ozzy eða stundum OzBrain. (Það tíðkast í Bretlandi að stytta ættarnöfnin og nota þau sem gælunöfn, sbr. Paul Gasgoigne-Gazza.) Ozzy var alinn upp í mikilli fátækt og hann fór snemma að vinna fyrir sér. Hann þvældist í á milli ýmissa starfa, en fór að lokum af afla sér peninga með innbrotum. Það endaði fremur illa og hann var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi árið 1966. Meðan hann sat inni bjó hann sjálfur til hin frægu Ozzy tattoo á fingurna og broskalla á hnéin.

Eftir dvölina í grjótinu það ákvað hann að hætta á þessari braut. Það kom nokkuð snemma i ljós að hann gat sungið og hafði mikinn áhuga á tónlist. Hann var í ýmsum böndum frá 14 ára aldri, en stoppaði stutt við. Hann auglýsti eftir einhverjum til að stofna band með þegar hann var 18 ára og þá kynntist hann Terence Butler sem kallaður var Geezer. Þeir stofnuðu saman blúshljómsveit sem kölluð var Rare Breed. Ozzy sem söngvari og Geezer sem gítarleikari, en hún entist aðeins stuttan tíma. Skömmu síðar hafði hinn ítalskættaði gítarleikari Anthony Iommi samband við hann. Þeir höfðu þekkst löngu áður en verið litlir vinir. Iommi var í samstarfi við trommara að nafni William Ward, bassaleikarann David Clark og saxafónleikarann Jimmy Phillips. Saman stofnuðu þessir sex, Ozzy, Geezer, Tony Iommi, Bill Ward, Clark og Pillips hljómsveit sem þeir kölluðu Polka Tolk Blues Band. Í fyrstu voru bæði Geezer og Iommi gítarleikarar, en Clark og Phillips hættu fjlótlega og þar sem Iommi var betri gítarleikari fór Geezer að spila á bassa.

Iommi lenti síðan í vinnuslysi sem olli því að hann missti framan af gómunum á hægri hendi, en hann var örvhentur. Þegar skinnið gréri aftur voru fingurinir svo viðkvæmir að hann gat ekki haldið um strengina. Í fyrstu reyndi hann að snúa gítarnum við og spila eins og rétthentur gítaleikari, en náði aldrei tökum á því og fann þá út að með því að útbúa sérstakar plasthlífar á fingurna gat hann spilað eins og áður eftir töluverða æfingu. Iommi notar svona hlífar á fingurna enn í dag.

Eftir stuttan tíma sem Polka Tulk breyttu þeir nafninu í Earth en það gekk ekki vel, því að það var önnur hljómsveit í Birmingham með því nafni. Sú hljómsveit spilaði dinnertónlist og það gerðist oftar en einu sinni að Ozzy og félagar voru bókaðir til að leika fyrir dansi á virðulegu balli í stað hinnar Earth. Þeir breyttu þá nafninu í Black Sabbath en það var nafn á lagi sem þeir höfðu nýlega samið eftir að Butler las bók með þessu nafni eftir Dennis Wheatly sem var afar vinsæll í Bretlandi þá. Stuttu eftir nafnabreytinguna ákvað Iommi að hætta og gekk til liðs við Jethro Tull sem var orðin nokkuð þekkt hljómsveit. Það entist ekki lengi og hann kom aftur með skottið á milli fótanna. Á þessum tíma spilaði Black Sabbath þeir nær eingöngu tónlist annarra, en stefnan smábreyttist úr blues og yfir í harðari tónlist. Ozzy sagði að upphaflega hefðu þeir hækkað í græjunum til að þagga niður í fólki sem kjaftaði saman á börunum þar sem þeir spiluðu. Þeir náðu dálitlum vinsældum á svæðinu í kring um Birmingham og reyndu einnig fyrir sér í Hamborg eins og Bítlarnir.

Þeir réðu umboðsmann árið 1969 og honum tókst að fá plötusamning handa þeim. Þeir settust niður og fóru að semja fleiri lög og tóku upp plötuna á tveimur dögum. Kostnaðurinn þótti heldur ekki mikill, en hann var um 1.000. pund. Platan kom út föstudaginn 13 febrúar 1970 og hét “Black Sabbath”. Þrátt fyrir lítinn kostnað þótti sándið á plötunni mjög gott og Sabbath náðu að búa til drungalegan og þungan undirtón í lögunum. Þessi plata þótti gefa nýjan hljóm í tónlistina á þessum tíma og með útgáfu þessarar plötu fannst mörgum sem þungarokkið hafi fæðst. Platan seldist vel og komst m.a. í 8. sæti á vinsældalista í Bretlandi og 22. sæti í Bandaríkjunum. Lögin NIB og Black Sabbath urðu klassísk og skipa enn stóran sess á hljómleikum hjá Ozzy og Sabbath. Í kjölfarið á vinsældum plötunnar fylgdi hljómleikaferð um Bandaríkin.

Þeir félagar áttu nóg af efni og strax um haustið var rokið í að gera aðra plötu. Það tók ekki nema fjóra daga að taka hana upp og hún kom út seint á árinu 1970. Í fyrstu átti platan að heita War Pigs og umslagið sýndi einhverja fígúru í hermannabúningi sveifla sverði. Á þessum tíma var stríðið í Víetnam eitt mesta hitamál heimsins og með nafni plötunnar átti að vísa í það. Á síðustu stundu var hætt við að kalla plötuna War Pigs og einu lagi sem upphaflega átti ekki að vera á plötunni var bætt við. Lagið hét “Paranoid” og platan fékk sama nafn. Paranoid sem var bætt á plötuna á síðustu stundu varð hinsvegar vinsælasta og þekktasta lag Sabbath og vörumerki Ozzy sjálfs alla tíð. War Pigs og Iron Man urðu klassísk, en meðal annarra má nefna Faries Wear Boots og hið frábæra Planet Caravan sem Pantera gerður góð skil á Strenght Beyond Strength. Platan rauk strax í efsta sætið í Bretlandi og fleiri löndum og náði inná topp tíu í Bandaríkjunum. Salan náði 5 milljón eintökum sem þótti frábært á þessum tíma. Á eftir fylgdu hljómleikar um allan heim.

Ozzy giftist fyrri konu sinni Thelmu Mayfair um áramótin 1970/71. Eftir hljómleikaferð 1971 fóru þeir að taka upp næstu plötu sem kom út haustið 1971 og hét “Master of Reality”. Hún seldist líka mjög vel og komst víða inn á topp 5 þó að hún næði hvergi efsta sætinu. Sweat Leaf og Children Of The Grave urðu þekktustu lögin en annað lag, After Forever olli miklu uppnámi meðal kirkjunnar manna í Bandríkjunum og alla skyns sögusagnar fóru af stað um djöfladýrkun galdra og fórnir í kring um Sabbath. Þeir fengu hótanir um að þeir yrðu drepnir næst þegar þeir yðru á ferðinni vestra og Ozzy varð svo hræddur að hann vildi um tíma að bandið legði upp laupana eða skipti um nafn. Þessar sögur um djöfladýrkun hafa fylgt Ozzy og Sabbath alla tíð og það hefur raunar oftar en einu sinni verið spilað á þessar sögur til að markaðssetja bandið.

Fjórða plata Sabbath kom út 1972 og hét einfaldlega “Volume 4”. Upphaflega átti hún að heita Snowblind eftir samnefndu lagi, en það fjallar um kókneyslu og útgefendur voru ekki hrifnir. Sabbath voru hinsvegar sjálfir komnir á kaf í dópneyslu og Snowblind varð þekktasta lagið af plötunni sem seldist ágætlega. Volume 4 hélt merki þeirra á lofti sem áður og þeir voru duglegir að spila um heiminn. Þetta sama ár fæddist fyrsta dóttir Ozzy.

Árið 1973 kom fimmta platan sem hét “Sabbath Bloody Sabbath”. Þar kvað við nýjan tón og þeir reyndu fyrir sér í tónlist sem var með svolítið klassískt yfirbragð á köflum. Platan var nokkuð dýr í framleiðslu og meðal þeirra sem spiluðu á plötunni var Rick Wakeman, sem var heimsþekktur hljómborðsleikari og spilaði með Yes. Platan varð næstmest selda plata Sabbath og fékk mjög góða dóma. Hljómsveitin var talin hafa þroskast og voru komnir í dýpri pælingar. Þarna var líka að finna fyrsta lagið sem Ozzy samdi, en það var Who Are You? Þeir félagar í Sabbath voru alla tíð allir skrifaðir fyrir lögunum en í reynd var það þannig að Iommi samdi nær öll lögin og Geezer samdi textana. Ozzy og Bill Ward trommari komu bara með einhverjar hugmyndir.