Þann 2. Mars var unglinga meistaramót í karate. Á þessu móti var keppt í kata og í undanúrslitum var keppt á 4 völlum með 3 dómara hver, en í úrslitunum var keppt á 2 völlum með 5 dómara á hvorum velli.

En það sem vakti athygli mína á þessu móti sem og flestum öðrum mótum sem ég hef tekið þátt í á Íslandi, eru dómararnir nær undantekningarlaust vægast sagt hlutdrægir, þ.e. þeir dæma sínu liði í hag. Persónulega finnst mér það óþolandi. Ég hef keppt oft á mótum þannig að ég er ekki bara að segja eitthvað sem ég veit ekkert um.

Í hverri katakeppni eru gefnar einkunnir frá 5 upp í 7. Þar af leiðandi er 0,5 stiga munur mikill munur eða fjórðungur af 5-7. Sem dæmi má nefna er að það er mjög óalgengt að gefið sé 6,7-6,9. Svo að í raun er 0,5 einn þriðji af heildinni.
Dómarar eiga að vera nokkuð sammála um einkunnir annars er eitthvað að. Til dæmis er það ekki eðlilegt að einn dómari gefi 5,9 og annar gefi 6,4. En þetta er einmitt eitt af dæmunum sem ég hef séð og vildi þá svo einkennilega til að sá sem gaf 6,4, meðan hinir fjórir dómararnir(þetta var í úrslitum) gáfu 5,8 til 5,9 var einmitt þjálfari keppandans. Þetta er bara hrein spilling að mínu mati.
Samkvæmt reglum eiga liðin að senda að minnsta kosti einn dómara hvert og hinir dómararnir eru frá Karatesambandi Íslands. En sum lið eru stærri en önnur og senda þess vegna fleiri dómara enda ekkert sem mælir gegn því, svo lengi sem dómararnir dæma ekki sínu liði í hag bara vegna þess að þetta sé þeirra lið heldur vegna þess að einstaklingurinn sé það góður.

En það sem vakti einnig athygli mína á mótinu var það að einn af dómurunum er formaður ákveðins karatefélags í Reykjavík og ekki nóg með það heldur var hann að dæma hvernig sonur sinn stæði sig í forkeppninni, undanúrslitum og í úrslitum. Þið getið ímyndað ykkur hvernig syninum gekk.

Annað sem mig langar að benda á er að dómarar miða út frá fyrsta keppandanum í hverjum flokki. Sem gerir það að verkum að í flestum tilfellum gefa þeir honum lægra en restinni. Ég er ekki að kenna dómurunum um það því það er eðlilegt að þeim vanti einhverja viðmiðun en það á ekki að bitna á fyrsta keppandanum.
Það sem mér finnst að ætti að gera í þessu máli er það sem er gert á mörgum erlendum mótum og það er að fyrsti keppandinn fái að keppa aftur og fyrsta einkunnin sé ekki tekin gild.


Hvað finnst ykkur um það sem þið voruð að lesa í þessari grein?