Konur og Jiu-Jitsu Undanfarin ár hef ég mikið velt fyrir mér hlutverki kvenna í bardagalistum og þá sérstaklega í fangbragðalistunum. Það er óumflýjanleg staðreynd að þar eru þær í miklum minnihluta iðkenda og keppenda.

Þegar ég byrjaði fyrst að glíma 2002 í Judo salnum í KA-heimilinu var ein af mínum fyrstu uppljómunum um að hér væri ég búinn að finna mitt sport þegar ung kona (sem ég er því miður búinn að gleyma hvað heitir)með brúna beltið glímdi við mig. Þetta var á annarri eða þriðju æfingunni minni og þegar við tókum gripin hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Hún var sirka einn sjötíu og ekkert og sextíu kíló. Þetta yrði nú lítið mál. Hún pressaði inn í mig og náttúrulega pressaði ég á móti. Ég var farinn að velta fyrir mér hvaða kast ég ætlaði að nota til að leggja hana þegar allt í einu ég tókst á loft, og ég sver það að á tímabili vorum við bæði í lausu lofti áður en ég skall á bakið ca. einu sekúndubroti áður en öxlin á henni(með alla líkamsþyngdina á bak við sig!) keyrðist inn í solar plexus svæðið á mér. Ippon og meira til.

Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég bókstaflega sá stjörnur þegar ég loksins gat opnað augun aftur.

Seinna komst ég að því að ég hafði orðið fórnarlamb þess sem að japanir kalla kuzushi, listin að koma andstæðing þínum úr jafnvægi. Þegar hún útskýrði fyrir mér kastið sá ég að svona 80% af hreyfiorkunni í kastinu kom frá mér, ekki henni. Með því að ýta á mig gabbaði hún mig til að ýta fastar á móti þannig að þegar hún togaði í staðinn fyrir að ýta flaug ég fram á við og yfir þyngdarpunktinn hennar, algerlega úr jafnvægi.

Í dag veit ég meira um Judo, kuzushi, og mun meira um Jiu-Jitsu í heild sinni og allstaðar sé ég sama hlutinn - vöðvastyrkur og harka má sín lítils þegar réttri tækni og þekking á hvernig grundvallar eðlisfræði virkar á mannslíkamann er beitt á réttan hátt.

Líkamlegur styrkur sker einungis úr um úrslit ef að um gríðarlegan mun er að ræða, eða báðir aðilar eru á sama plani tæknilega séð.

Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á að þetta væri náttúrulega æðisleg hugmynd, sérstaklega þar sem að ég er enginn Magnús Ver sjálfur. Annað sem að ég var fljótur að átta mig á var hversu hentugt Jiu-Jitsu er konum.

Það er engin leið til þess að horfa fram hjá þeirri staðreynd að konur eru að eðlisfari ekki eins sterkar og karlmenn. 70 kg kona er í langflestum tilfellum veikbyggðari en 70 kg karlmaður. Þetta hafa karlmenn nýtt sér í gegnum aldirnar til að kúga kvenþjóðina og byggja upp feðraveldið sem að við lifðum við í árþúsundir og enn eimir alltof mikið eftir af í dag. Ofbeldi gegn konum er smánarblettur á siðmenntuðu þjóðfélagi, blettur sem að sem betur fer er verið að vinna í að afmá. En í millitíðinni þarf mikill fjöldi kvenna að þola líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi af hálfu karlmanna. Tölur um tíðni kynferðisofbeldis á Íslandi í dag eru hreint út sagt skelfilegur lestur.

Eðli ofbeldis gegn konum og ofbeldis gegn körlum er nefnilega tveir ólíkir hlutir. Karlmenn berjast innbyrðis, oftast nær undir áhrifum áfengis á götum úti. Eina sem karlmaður þarf að gera til að minnka líkur á að á hann verði ráðist niður í nánast ekki neitt er að forðast skemmtistaði og öldurhús. Konur aftur á móti eru mun líklegri til að verða fórnarlömb hvar sem er, á vinnustöðum, götum úti, og síðast en ekki síst á eigin heimili. Það er afar lítið sem þær geta gert til að forðast þær aðstæður.

Annað sem skilur kynin að er að ofbeldi gagnvart körlum er í fæstum tilvikum kynferðislegs eðlis. Fáar lífsreynslur eru jafn mikið eitur fyrir mannssálina eins og nauðgun, og þá byrði þurfa konur að axla nær eingöngu.

Áður en lengra er haldið skal tekið fram að ég er hjartanlega sammála því sjónarmiði að samfélagið eigi að tryggja konum líkamlegt og kynferðislegt öryggi hvar sem er og hvenær sem er, en tilgangur þessarar greinar er að tala um hvað ER hér og nú, í okkar daglega lífi, ekki hvað ætti að vera. Ég vona svo innilega að fyrr eða síðar muni sá heimur líta dagsins ljós að samskipti kynjanna verði með siðmenntuðum hætti….en mig grunar að hvorki ég nér börn mín muni líta þann heim augum.

Jiu-Jitsu og aðrar fangbragðaíþróttir henta konum sérstaklega vel til sjálfsvarnar því að með beitingu þeirra geta þær gert forskot karlmanna hvað styrk og stærð varðar að engu. Auk þess er Jiu-Jitsu fyrirtaks hreyfing, þjálfar alla vöðvahópa jafnt, eykur þol og brennir fitu.

Eftir að ég kynntist fangbragðaíþróttunum greip mig hálfgert æði(sem deila má um hvort standi enn eða ekki!) og dró ég allar mínar vinkonur og skyldkonur sem nálægt mér voru með mér í tíma. Flestar fóru undan á flæmingi og fannst þetta fremur ósmekklegt, og drógu mjög í efa að þetta væri eitthvað sem að hentaði þeim, jafnvel eftir að hafa séð mig hengja mér mun stærri og sterkari(en óvanari) menn á æfingum. Þetta var svona strákaeitthvað…..margar höfðu áhyggjur af því að þær yrðu of stæltar á þessu, eða þá að þær yrðu alltaf með marbletti og sigg á hnjám og olnbogum, sem að er óumflýjanlegt þegar þú veltist um í gólfinu. Segjum bara að krossferð mín til að vígbúa þær konur sem mér þykir vænt um gegn hugsanlegu ofbeldi hafi ekki áorkað mikli. Satt best að segja nákvæmlega engu.

Konur hafa nefnilega verið, viljandi og óviljandi upp í þeirri skilyrðingu að þær eigi að vera passívar og yfir það hafnar að takast á um hlutina, hvort sem það er á líkamlega sviðinu eða því félagslega. Þær eiga að vera sáttasemjarar, bera klæði á vopnin, tala sig út úr hlutunum og almennt halda sig til hlés.

Þessi samningsgleði kvenna gengur stundum það langt að þær láta leiða sig í ógöngur með því t.d að fallast á að fara eitthvert með mönnum sem þær þekkja lítið eða stendur uggur af til að forðast rifrildi, og átta sig ekki á því fyrr en það er of seint að þær eru ekki lengur í aðstöðu til að geta kallað á hjálp.

Þessi undirgefni kvenna er ekki náttúruleg. Það ber lítið sem ekkert á henni á fyrstu 4-5 aldursárum þeirra, allavega samkvæmt því sem ég hef séð á þeim börnum sem í kringum mig hafa verið í mínu starfi á leikskólum og öðrum uppeldisstofnunum. En þegar fram líða stundir byrja þær að aðskilja sig frá strákunum og taka upp “mýkri” hætti. Hvort sem það er viljandi eða óviljandi þá steypir samfélagið stúlkur í form sem að gerir þær berskjaldaðar fyrir ofbeldi.

Þegar karlkyns nýliðar koma í sína fyrstu Brazilian Jiu-Jitsu tíma er það yfirleitt fyrsta mál á dagskrá hjá kennaranum að róa þá niður. Þeir tuddast áfram með sigurinn einan að markmiði og reyna að breiða yfir reynsluleysi og skort á tæknikunnáttu með því að beita vöðva aflinu. Þeir vilja sanna sig, sigra þá sem að eru búnir að æfa lengur til að sýna hversu miklir “naturals” þeir séu og eru almennt öllum til vansa þar sem að þeir eiga til að gleyma sér og slasa æfingarfélaga sína í hamaganginum. Aldrei man ég eftir að hafa þurft að hvetja karlkyns nýliða til að vera árásargjarnari. Þvert á móti. Með tímanum þá róast þeir, kyngja stoltinu og byrja að taka eftir því hvernig sér reyndari menn hegða sér. Þeir sem ekki róast af sjálfu sér eru teknir í “attitude adjustment” af bestu nemendunum og rústað í glímu eftir glímu þangað til þeir annaðhvort átta sig á því að það er verið að senda þeim skilaboð eða þá að þeir hypja sig, vonsviknir yfir því að vöðvamassinn hafi brugðist þeim.

Þegar kvenkyns nemendur koma inn í sinn fyrsta tíma þá er hugsanagangur þeirra nokkurnvegin þveröfugur. Þær flissa mikið og hlæja að klunnaskap sínum sem að karlmenn myndu aldrei gera því að þeir skammast sín fyrir hann og vilja losna við hann sem fyrst á meðan stelpurnar jafnvel reyna að draga athygli að honum. Þegar þær skilja ekki það sem kennarinn var að sýna þá heyrist strax “ég get þetta ekki!” eða “ég skil þetta ekki!”: á meðan drengirnir reyna að fá frekari útskýringar eins hljóðlega og hægt er til að sem fæstir taki eftir.

Þegar kemur tími til að sparra(frjáls glíma) í lok tíma þá eru flestir karlkyns byrjendur óðir og uppvægir til að reyna, og oft er sigurvon í augunum á þeim þegar þeir taka í hendina á eldri nemandanum og hjóla í hann eins og naut í flagi.

Stelpurnar fást yfirleitt alls ekki til að sparra í sínum fyrstu tímum og fara undan á flæmingi, og hika ekki við að segja hluti eins og: “þú myndir örugglega vinna mig” og “ég vil ekki slasa mig í fyrsta tímanum”, s.s önnur útgáfa af “ég get ekki”. Þeim stendur flestum ógn af því nána líkamlega sambandi sem er partur og pakki af sparring og Jiu-Jitsu yfirhöfuð, sem væri svosem skiljanlegt ef að það væri ekki tilgangurinn með öllum herlegheitunum - að undirbúa þær Kyra Gracie fyrir áras einhvers sem að ætlar að halda þeim niðri bjargarlausum og gera miður skemmtilega hluti við þær. Er ekki vel á sig leggjandi að glíma við kurteist vinveitt fólk sem að eru þarna saman komnir til að hjálpa hvort öðru að læra, ef að það gæti orðið til þess að kona geti seinna meir bjargað sér sjálf gegn árásarmanni?

Og svo þegar þær fást til að sparra þá hrökkva þær í baklás og gefa eftir um leið og eitthvað sem þær reyna gengur ekki upp.

Síðustu málsgreinar líta örugglega út eins og að ég sé pirraður út í stelpurnar en þvert á móti, ef að ég mætti einhverju ráða þá væri Jiu-Jitsu skyldulærdómur fyrir alla kvenþjóðina. Bæði kynin þurfa að ganga í gegnum ákveðna hugarfarsbreytingu til að ná fullum afköstum í listinni, drengirnir þurfa að læra að beisla sína eðlislægu árásargirn og kyngja stoltinu, því að þeir sem að eru tapsárir endast ekki lengi í Jiu-Jitsu. Þeir þurfa að slappa af.

Stúlkurnar þurfa að læra að standa á sínu, gefast ekki upp þó á móti blási og fyrst og fremst að viðurkenna þá staðreynd að þær hafi fullan rétt á að berjast og sigra. Þær þurfa að læra að æsa sig.