Björn Þorleifsson valinn maður mótsins (US Open), TKD Frétt fengin af Taekwondo.is.
_____________________________________________

Björn Þorleifsson valinn maður mótsins

Björn Þorleifsson var valinn maður mótsins á US Open af mótshöldurum. Park, sem var þjálfari íslenska liðsins, sagði að þetta væri mikil viðurkenning fyrir íslenska keppendur, fyrir taekwondosamband Íslands og fyrir Björn sjálfan. Hann sagði að þessi viðurkenning sýni að Björn er að gera mjög góða hluti, og tekið sé eftir honum sem keppanda hvar sem hann keppir. Park sagði einnig að landsliðsþjálfari Ítalíu hefði komið til sín og hrósað Birni fyrir frábæra frammistöðu. Þess má geta að Ítalía er með eitt sterkasta lið í heimi þessa dagana.

Björn sagði í viðtali við Taekwondo.is að allt hefði gengið upp hjá sér, og dagsformið hafi verið mjög gott.

Björn mætti Tom Lynn frá Flórída, og sagði hann að sá andstæðingur hafi verið auðveldur. Björn sagði: “Ég stjórnaði bardaganum og var yfir allan tímann. Ég var þó dálítið kærulaus í síðustu lotunni og fékk Tom nokkur ódýr stig á mig þar”. Tom er fyrrum Bandaríkjameistari, og var í þriðja sæti á HM fyrir 3-4 árum síðan.
Björn sagði um næsta bardaga, sem var á móti Dominic Taylor: “Sá bardagi var bara fín upphitun fyrir næsta bardaga.” Og svo hló hann. “Dominic var þó nokkuð snöggur, en ég stjórnaði þeim bardaga frá A til Ö!”.

Sá þriðji var á móti Seth Grossman. Björn sagði að erfitt hafi verið að lesa þann keppanda í byrjun og var Seth yfir í byrjun með 0-3. “Eftir að mér tókst að lesa Seth var eftirleikurinn auðveldur, eins og heildarstigin gefa til kynna”. Bardaginn fór 17(1)-4.

Undanúrslitin voru svo á móti Salim Oden. Björn sagði að Salim væri mjög grófur keppandi og frekar leiðinlegt að keppa við. “Hann kýldi mig í andlitið og hálsinn, en fékk engin mínustig þar sem dómarinn sá það ekki. Hann var mjög grófur og notaði mikið af ‘dirty tricks’. En ég náði svo að lesa hann, og var svo eftirleikurinn auðveldur”. Þess má geta að Salim er fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna.

Úrslitin voru svo á móti Pacifico Laezza frá Ítaliu. “Ítalinn var gífurlega sterkur og snöggur. Ég hafði séð hann keppa fyrir og sá að hann notaði aðeins gagnárásartækni. Ég ákvað því að gera slíkt hið sama á móti honum. Þetta kom honum að óvöru og náði ég þannig að stjórna bardaganum allan tímann. Ég vildi bara taka hann öruggt, og mér tókst það.”.

Björn var mjög ánægður með mótið, en sagði að hann hafi verið mjög þreyttur líkamlega eftir mótið, þó ekki á þolinu. Mótið fór mjög fljótt fram, þar sem keppt var á 8 gólfum og því lítil hvíld milli bardagana. Allir bardagar Björns fóru fram frá kl. 9:30 til 14:00.

Björn kemur til Íslands í dag, en heldur síðan til Danmerkur í æfingabúðir landsliðshóp Dana, undir handleiðslu Bjarne Johansen og Stig Kramer.

Fyrri frétt: “Björn Þorleifsson fékk gull á US Open”

Texti:
Erlingur Jónsson
Taekwondo.is