Jæja, þá er þetta búið. Í Tokyo um síðustu helgi var háð lokauppgjörið í stjörnum prýddri milliviktarkeppni Pride og þegar upp var staðið var mörgum spurningum svarað og grunnurinn lagður að bjartri framtíð MMA í Japan. Í alvöru talað þá hefur þetta sport tekið sig alvarlega saman í andlitinu undanfarna 12 mánuði, Pride virðist batna og batna og UFC er í stórsókn einnig. Eins og ég hef gert fyrir flestar stóru keppnirnar undanfarið ár þá ætla ég að skrifa lýsingu á Final Conflict á íslensku, að þessu sinni byggð á lýsingu frá vefsíðunni SFUK.

VARÚÐ! SPOILERAR FRAMUNDAN!


1. Bardagi - Gary Goodridge vs Daniel “The Bull” Bobish

Dan Bobish er stór. Ef að hann slæst einhverntímann við Bob Sapp myndi samanlögð þyngd þeirra slaga upp í byrjunarlið KA í handbolta. En stærð er ekki allt og það sannaðist svo um munar þegar holdanautið mætti Pride/UFC harðjaxlinum Gary Goodridge. Fyrrverandi King Of The Cage meistari, Bobish var samt algerlega yfirspilaður af hinum 35 kg. léttari Goodridge. Bjallan klingdi og Bobish spratt af stað, skaut inn einni stungu og reyndi svo fellu sem að virtist frekar eiga heima á ruðningsvellinum heldur en í MMA keppni. Goodridge steig auðveldlega til hliðar og refsaði Bobish illilega með höggum. Þeir færðu sig inn í miðjan hringinn og fyrsta stunga Goodridge hittir Bobish hátt á andlitinu og nautið grípur um augað, allur vindur greinilega úr honum. Goodridge grípur tækifærið og eltir, sigurlyktin liggur í loftinu og þetta er sá Goodridge sem að menn vilja sjá, miskunnarleysið algert þegar hann lætur höggin dynja á stóra manninum sem er ekki í neinu formi til að verja sig og ber sig illa. Dómarinn skynjar viljaleysi Bobish og stoppar bardagann á hárréttu augnabliki.

Eftir bardagann kom í ljós að annaðhvort þumalfingur eða hnúi Goodridge potaðist í auga Bobish, sem var afar bólgið og blóðhlaupið. Auðveldur sigur fyrir Goodridge sem þar með fær eina framlengingu enn á sinn köflótta MMA-feril

Úrslit: Gary Goodridge á Referee Stoppage 0:18 1. lota


2. Bardagi - Quinton “Rampage” Jackson vs Chuck “The Iceman” Liddell

Úff….hvað skal segja. Þessi bardagi var að mörgu leyti hápunktur kvöldsins. Liddell hafði stimplað sig rækilega inn aftur á topp-5 listann með góðum sigri yfir Alistair Overeem og var til alls líklegur. Rampage hafði aftur á móti rétt marið Murilo Bustamente á split decision í fjórðungsúrslitunum og þar með var allt í óvissu.

Liddell byrjaði betur, dældi út stungum og Rampage virtist vera ráðvilltur, læstur úti og engin leið inn. Liddell bætti svo lágspörkum og hægrihandar straights inn í blönduna og Rampage var bara einhverstaðar úti að aka. En Liddell varð smám saman kærulaus og byrjaði að láti vinstri hendina síga á bakaleiðinni eftir stungurnar. Rampage fór að sikta út taktinn hjá Ísmanninum og brátt var hverri vinstri stungu Liddell svarað með hægri yfirhandar sveiflum sem að voru hlaðnar illum ásetningi. Það er þarna sem það kemur í ljós að báðir þessir menn eru með firnasterka kjamma og fyrir hverjar þrjár stungur sem lenda beint á nefi Rampage neyðist Liddell til að éta eina góða sveiflu. Rampage kemst smám saman inn í bardagann sem er jafn og spennandi svo ekki sé meira sagt. Öðru hvoru reynir Rampage að clincha og færa bardagann í gólfið en Liddell tekur það ekki í mál og verst vel, hrindir honum í burtu og neyðir hann til að boxa við sig. Dagskipunin augljós: halda bardaganum standandi hvað sem það kostar.

Það er eftir eina slíka hrindingu sem að Rampage nær fallegri fléttu sem að sendir Liddell afturábak þvert yfir hringinn, Rampage eltir, þrífur í hann og lyftir honum upp og enn ein fella í “Rampage Slam-Cam” safnið virðist vera í aðsigi. Liddell nær að redda sér með því að grípa í kaðlana en sleppur einhverra hluta vegna við gult spjald. Hann fellur samt og neyðist til að fara í skjaldbökustellinguna og Rampage sendir umsvifalaust hné í rifin á honum. Liddell kemst aftur á fætur en er verulega þreyttur og allur vindur úr honum. Rampage fellir hann aftur með snöggri stungu rétt áður en bjallan glymur og fyrri lotan er búin. Frábær lota á allan hátt, hlaðin hasar og drama.

Rampage er mun ferskari þegar önnur lota hefst, og Ísmaðurinn virðist vera utan þjónustusvæðis, þreyttur, glaseygður og kominn á hælana. Þeir taka upp þráðinn úr fyrri lotunni og skiptast á stungum en í þetta skiptið er það augljóst að Rampage er ekki í neinni hættu lengur. Hann skellir Liddell í gólfið, og upphefst löng og sársaukafull Ground n´Pound lexía sem að Liddell hefur einfaldlega ekki orku til að stoppa. Dómarinn stoppar bardagann og Rampage er kominn í úrslitin.

Úrslit: Quinton Jackson á TKO/Referee Stoppage 2. lota 3:10


3. Bardagi: Vanderlei “The Axe Murderer” Silva vs. Hidehiko Yoshida

Meiri púðri hefur verið eytt í að ræða kosti og galla þessa bardaga heldur en nokkurs annars í þessari keppni. Annars vegar höfum við brasilíska villidýrið Vanderlei Silva sem hefur fátt annað gert undanfarin ár en að hakka í sig hvern lánlausan andstæðinginn á fætur öðrum og er þekktur fyrir höggkraft, árásargirni og mikla reynslu. Hinsvegar höfum við mann sem að hefur tiltölulega litla reynslu í MMA og er afar umdeildur. Yoshida hefur ekki notið mikilla vinsælda meðal hörðustu MMA aðdáendanna vegna þrálátra orðróma um að hann sé einfaldlega svindlari. “Gulldrengur” Pride er 3-0 í MMA og hver einasti bardagi hans hefur verið sveipaður gróusögum um svindl, baktjaldamakk og fyrirfram ákveðin úrslit. Allt þetta hefur nú breyst til muna.

Silva byrjaði á fyrirsjáanlegan hátt, skaust út úr horninu og byrjaði að hamra andlit Yoshida með höggum sem Judokappinn átti í miklum erfiðleikum með að verjast. En allavega þá er hann ekki hræddur við að taka sársauka þar sem hann beit á jaxlinn, greip um Silva og keyrði hann afturábak út í hans eigið horn. Þar náði hann góðri, snöggri double-leg fellu og eftir 30 sek. af bardaganum er hin óhugsanlega staða komin upp: Yoshida er með yfirhöndina og er kominn á eina staðinn þar sem hann á einhverja von um sigur, í gólfinu. Áhorfendur tryllast þar sem þeir skynja að þeirra maður er ekki dauðans matur eftir allt saman. Silva er með full guard á Yoshida og reyndi armbar en Yoshida sá hann fyrir, reynir að ná arm-triangle choke á Silva en Silva verst vel og sýnir betri grappling tækni en margir(þ.á.m ég) bjuggust við. Silva reynir triangle choke en Yoshida notar tækifærið og nær side-control en einungis í augnablik þar sem Silva nær að sópa honum og ná topp stöðu. Öllum að óvörum nær hann ekki neinum höggum á Yoshida sem verst vel og grípur um úlnliði Silva. Yoshida er þekktur í Judo heiminum fyrir að vera gríðarlega handsterkur og það kemur honum að góðum notum hér þar sem hann bæði sleppur meira og minna ómeiddur út úr þessu og nær að ógna meistaranum með lásatilraunum hér og þar. Silva fær nóg og kemst á fætur og lætur nægja að sparka í fætur Yoshida þangað til dómarinn endurræsir þá í miðjum hringnum. Yoshida nálgast og nær mjaðmahnykk-fellu og er næstum búinn að gera út um bardagann með Kesagatame en Silva sleppur. Salurinn trompast algerlega og Silva er í vandræðum, nær guard og tíminn rennur út. Fyrsta lotan búin og MUN jafnari en nokkur bjóst við.

Í seinni lotu er Silva búinn að skipta um aðferð. Hann forðast að clincha við Yoshida og ýtir honum frá og verst fellum með því að sprawla sem virkar mun betur. Yoshida kemur illa út úr þessu, og er orðinn marinn og blóðugur eftir hnefa og hné. Yoshida fer að svara höggunum með sínum eigin, meira til að stila upp fellutilraunum heldur en nokkuð annað. Að hann fór illa út úr þeim skiptum er enginn vafi, en hann nær samt tveimur góðum sem að hrekja Silva út að köðlunum og setja hann í góða kast stöðu, en kaðlarnir flækjast fyrir og kastið mistekst. Silva endar á bakinu á Yoshida en er snöggur að standa upp og sparkar duglega í afturendann á andstæðingnum á leiðinni upp. Hann stikar í burtu og Yoshida stendur upp, örvinda og tekur sér góða pásu. Silva slappar líka af, hann er búinn að sjá að Yoshida er alvöru ógn í návígi og ætlar ekki að vaða beint inn aftur. Að lokum er það Yoshida sem að tekur sénsinn, hann veit að hann er undir á stigum og verður að eiga góðar lokamínútur. Hann skutlar sér á Silva sem að svarar með hné í andlitið, grípur í Gi-inn og lætur vinstri högg og spörk dynja á Yoshida í gríð og erg. Í örvæntingu rúllar Yoshida og reynir að ná kneebar en það er of lítið, of seint. Bjallan glymur og einróma dómararsigur Silva er í höfn.

Yoshida er samt hinn sanni sigurvegari í þessum bardaga. Hann vann sér inn virðingu aðdáenda fyrir þrautseigju og hörku, sem að mínu mati er verðmætari en nokkur titill. Þetta tap gerði meira fyrir MMA feril hans en allir þrír sigrar hans til samans. Þeir eru ekki margir sem hafa farið alla leið gegn Silva í seinni tíð, Þeir einu sem ég man eftir eru Cro-Cop og Dan Henderson, sem að var einmitt næsti maður á svið…….

Úrslit: Vanderlei Silva á Unanimous Decision


4. Bardagi - Murilo Bustamente vs Dan Henderson

Þessi bardagi var upp á varamannasætið, ef að annaðhvort Silva eða Jackson hefði fallið úr keppni vegna meiðsla og Liddell/Yoshida ekki getað keppt heldur hefði sigurvegari þessarar viðureignar komist í úrslit. Það átti sér ekki stað en var hörkuviðureign samt, ef þónokkuð stutt. Þeir skiptust á nokkrum höggum og mældu hvorn annan út áður en Busta skaust inn fyrir double-leg fellu. Slæm ákvörðun gegn manni sem hefur stundað Freestyle Wrestling frá fimm ára aldri(!). Hendo sprawlaði og þegar Busta reyndi að rúlla sér á bakið og ná Guard umbreyttist Henderson allt í einu í Vitor Belfort og byrjaði að raða inn höggum vinstri-hægri-vinstri beint á kjammann á Busta sem að var fastur upp við kaðlana á bakinu. Verulega vankaður reyndi Busta samt að faðma fætur Hendersons og koma sér inn í bardagann en það var of seint. Dómarinn sá að hann var sama og rænulaus og stoppaði bardagann. Góður sigur fyrir Henderson sem er að reyna að koma sér aftur inn í milliviktina eftir að hafa meiðst á hné.

Úrslit: Dan Henderson á TKO 1. Lota 0:53


5. Bardagi: Heath Herring vs. Norihisa Yamamoto

Lágpunktur kvöldsins var þessi bardagi, sem að var svo greinilega bara upphitun fyrir Herring að komast aftur í sigurform en VÁ! Yamamoto er ca. 5-10 í MMA og Herring var í standandi vandræðum með hann. Hann náði rear naked choke í þriðju lotu en hefði átt að standa sig miklu, miklu betur. Búúú!


6. Bardagi - Kazushi Sakuraba vs. Kevin “The Monster” Randleman

Þegar Sakuraba gekk inn í Tokyo Arena klæddur eins og Super Mario ætlaði þakið að rifna af höllinni. Jamm, Saku er ennþá goð meðal landa sinna þó svo að hann hafi tapað illa undanfarið. Og í kvöld sýndi hann hvað hann getur þegar hann er í formi. Sakuraba var varkárari en oft áður, verndaði andlitið á sér gegn höggum og var ekki að reyna nein af sínum Pro-Wrestling brögðum, sem er eins gott gegn mennskri górillu á borð við Randleman. Randleman virkaði stressaður og varkár líka, en sendi að lokum Saku á bakið í full-guard. Þar hafði Randleman engan tíma til að lumbra á honum þar sem hann var alltof upptekinn við að forðast armbar og triangle-choke tilraunir. Mjög tæknilegur bardagi, hægur og það liggur við að það hefði mátt heyra saumnál detta þar sem 65.000 áhorfendur héldu niðri í sér andanum. Saku nær ekki lás en sleppur afar vel miðað við að Ground n´Pound á að vera sérgrein Randleman. Lotan endar og allt í járnum ennþá.

í annarri lotu nær Randleman höggi á Saku og salurinn tekur andköf þegar litli Japaninn fellur við. Er draumurinn búinn? Nei, Saku stendur upp, og tekur gabbhreyfingu sem að fær Randleman til að sprawla að óþörfu. Um leið og hendurnar færa sig frá andlitinu smellir Saku upp vinstrifótar sparki sem að hittir Randleman beint á gagnaugað. Randleman hristir það af sér og skellir Saku aftur á bakið í full-guard, og Saku byrjar strax aftur að reyna að ná lásum. Randleman er enn og aftur í bullandi vörn og reynir ekki einu sinni að ná mount þó að hann hafi séns á því oftar en einu sinni. Lotan endar í sömu stöðu og sú fyrsta, Randleman ofaná í standandi vandræðum.

“The Monster” veit að hann er á eftir hjá dómurunum og reynir að ná skellu í þriðju lotu, þrífur um mitti Saku og lyftir honum hátt á loft en hann rúllar vel með hreyfingunni og endar standandi yfir Randleman og nær double-wrist lock sem neyðir Randleman til að taka kollhnís til að létta spennunni af öxlinni. Saku grípur tækifærið og nær snotrum armbar og gerir út um bardagann. Salurinn trompast og Saku er aftur kominn á kortið! Vúhúúú!!!! Gaman gaman! ;-)

Úrslit: Kazushi Sakuraba á Submission(Armbar) 3. Lota 2:36


7. Bardagi: Antonio Rodrigo “Minotauro” Nogueira vs Mirko “Cro-Cop” Filipovich

Þessi þungaviktarbardagi mundi skera úr um hvor af þessum mönnum fengi tækifæri til að etja kappi við meistarann Fedor Emilienko sem að er meiddur þessa dagana. Cro-Cop hefur verið í stórsókn undanfarna mánuði og er búinn að helga sig MMA að fullu eftir að hann sagði skilið við K-1 fyrir nokkru. Nogueira fór aftur á móti illa út úr viðureign sinni við Fedor og vann svo fremur vafasaman dómarasigur gegn Ricco Rodriguez í síðustu Pride keppni.

Það var ljóst þegar Nogueira gekk inn í hringinn að hann nýtur mikillar virðingar í Japan, og að áhorfendur litu á hann sem “góða gæjann” í þessum bardaga. Cro-Cop var einbeittur og ískaldur eins og alltaf, og þegar fyrsta lota hófst var ljóst að Minotauro ætlaði ekki að taka neina sénsa í sambandi við spörkin hans Mirko - hann steig ávallt til vinstri í burtu frá hinum banvæna vinstri fæti Cro-Cop.

Mirko elti þolinmóður, og lét eins og hann hefði allan tíma í heiminum til að ganga frá Brasilíumanninum, sem skaut inn nokkrum stungum áður en hann clinchaði, og skellti sér á bakið með það sama. Cro-Cop virtist ætla að ná að lemja sig út úr varnarstöðu Nogueira en hinn klóki Jiu-Jitsu meistari stóð sig vel í að flækja hendurnar og stjórna úlnliðunum. En það er ljóst að Mirko hefur lært ýmislegt í gólfglímu undanfarna mánuði og er ekki í mikili hættu og sýnir einstakan aga í grundvallaratriðum Jiu-Jitsu.

Hann nær að losa sig og stendur upp og Nogueira fylgir á eftir. Cro-Cop smellir inn vinstri lágspörkum en Nog blokkar vel. Þá virðist andinn yfirgefa Minotauro allt í einu og hann reynir þrjár illa tímasettar fellutilraunir í röð og geldur fyrir þær dýru verði, í hvert skiptið refsar Mirko honum með eitilhörðum vinstrifótarspörkum sem taka greinilega sinn toll og Nogueira neyðist í hvert skipti að rúlla sér á bakið en Cro-Cop er alltof séður til að elta og stiklar í kringum hann og bíður eftir að hann standi upp. Vinstri straight frá Mirko ratar heim og skellur á nefi Nogueira og brákar það. Það eina sem bjargar Mino frá tapi er það að hann heldur sig ávallt frá vinstri hlið Mirko og dregur þannig verulega úr slagkrafti hans.

Cro-Cop er að reyna að stilla andstæðing sínum upp fyrir náðarhöggið og nær góðu vinstri roundhouse sparki rétt fyrir lok lotunnar. Nogueira hrynur í gólfið um leið og bjallan glymur og ef að þetta spark hefði komið 10 sekúndum fyrr er mögulegt að Mirko hefði getað klárað dæmið. Nog skjögrar aftur í hornið sitt og ósigur hans liggur í loftinu.

Þegar þriðja lota hefst er eins og allt annar maður stígi inn í hringinn. Guð má vita hvað Mario Sperry og Busta sögðu við Nog í hléinu en það er allavega að virka þar sem hann nær double-leg fellu með það sama, Mirko átti aldrei séns að verjast því. Nog “flæðir” úr guard í side-control og svo beint í mount og Mirko er í vandræðum. Nog lætur höggin dynja, reynir svo arm-triangle og þegar Mirko reynir í örvæntingu að velta honum af sér grípur Nog úlnliðinn og læsir út armbar. Mirko á engra kosta völ nema að gefast upp og Nog er búinn að tryggja sér re-match gegn Fedor.

Úrslit: Antonio Nogueira á Submission(Armbar) 3. Lota

8. Bardagi - Quinton Jackson vs Vanderlei Silva

Úfff…..eftir allan þennan hasar sem á undan gekk var erfitt að sjá hvernig tveir menn sem voru búnir að berjast fyrr um kvöldið gátu toppað það. En það gerðu þeir. Það er búið að vera illt milli þeirra síðan að það lá við slagsmálum eftir Jackson-Randleman bardagann og nú skyldi vera gert út um málin.

Rampage stökk á Silva, skaust undir fléttu og lyfti honum upp með það í huga að skella honum í gólfið en Silva nær Guiliotine choke og Jackson neyðist til að leggja hann varlega niður til að koma sér út úr því. Hann Ground n´Pound-ar hann en Silva verst sæmilega. Dómarinn skilur þá að og gefur báðum gult spjald fyrir að vera óvirkir í gólfinu. Rampage reynir lága fellu og mætir hné Vanderlei á miðri leið og bakkar en fær þá snögga einn-tveir fléttu beint í andlitið. Rampage er í vandræðum og þau aukast bara þegar Silva nær Muay Thai clinch og byrjar að raða inn hnjám, alls ca. 20 talsins(!) Silva er gjörsamlega að klikkast, greinilega staðráðinn í að gera út um slaginn hér og nú, nokkurnveginn hvert einasta hné ratar beint í andlitið á Jackson sem að reynir að blokka þau með framhandleggjunum en gengur illa, það eina sem heldur honum á lífi er stálkjammi frá helvíti, flestir aðrir væru löngu rotaðir. Hann fellur og Silva sóar engum tíma í að senda soccer-kick sem David Beckham hefði verið stoltur af beint í höfuð Rampage sem ENN neitar að gefast upp, grípur í ökkla hans og reynir að komast á fætur. Það er allt að verða vitlaust í Tokyo Arena og þegar dómarinn ákveður að hann sé búinn að fá nóg og skilur þá að er eins og Rampage átti sig á því að hann á að vera rotaður og hnígur í gólfið. Vanderlei Silva er nýi GP meistarinn!!!

Úrslit: Vanderlei Silva á TKO/Referee Stoppage 1. Lota 6:20

Snilldarcard, brilljant bardagar(fyrir utan Herring/Yamamoto) og góð aðsókn gera Pride: Final Conflict að besta MMA móti allra tíma. Undanfarið virðist sem að Pride geti ekki gert neitt rangt og þeir verði bara betri og betri, ef að cardið fyrir UFC 45 gengur eftir er enginn vafi á að Pride hefur vinninginn hvað matchmaking varðar.

Jæja, þá er þetta búið. Ef einhver nennir að lesa þetta allt saman þá væri gaman að fá einhver comment á þetta.

Takk fyrir mig.

Einar Freestyle