Aikido og upphafsmaður þess (c/p) Mig langaði það það komi grein hingað um aikido og upphafsmann þess. Þetta er frábær íþrótt og allir ættu að prufa (Þessi grein er c/p af heimasíðu aikido félags Reykjavíkur)

Aikido er japanskt sjálfsvarnarform. Það var þróað á 20. öldinni af Morihei Ueshiba og er nokkuð skylt Judo og Jiu-jitsu en er þó ólíkt þeim og öllum öðrum sjálfsvarnaríþróttum að því leiti að ekki er um neinar árásartæknir að ræða. Líkt og í Judo er mikið um köst og hvers kyns lása en þó aldrei neitt sem byggir á beinum líkamsstyrk.
Ólíkt judo hefur aikido þó ekki verið þróað sem keppnisíþrótt. Mikil áhersla er lögð á andlega uppbyggingu. Eðli aikido er þannig að allir geta æft saman óháð kyni, aldri, styrkleika og þyngdarflokkum.

Í aikido er öll áhersla lögð á að verjast árásum með því að beina krafti andstæðings frá sér í stað þess að reyna að mæta krafti með meiri krafti.

Upphafsmaður aikido var Morihei Ueshiba hann fæddist þann 14. desember 1883 í Tanabe. Hann var elsti sonur Yoroko Ueshiba, vel metins bónda í byggðarlaginu. Árið 1902 fluttist hann til Tokyo. Þar kynntist hann fyrst bardagalistum og lagði stund á hefbundið jujutsu og kenjutsu. Sama ár kvæntist hann Hatsu Itokawa.
Ueshiba tók þátt í rússnesk-japanska stríðinu 1904-5 og fékk viðurkenningar fyrir hugrekki á vígvellinum. Leikni hans með byssusting, ásamt vinnusemi og heiðarleika, ávann honum virðingu og hann fékk viðurnefnið “konungur hermannana”. Ueshiba tók þátt í landnámi Hokkaido, nyrstu eyju japanska heimaeyjaklasans árin 1912-20 og á þeim árum æfði hann stíft með Sokaku Takeda, meistara Daito-ryu jujutsu. Við dauða föður síns komst Ueshiba í kynni við Onisaburo Deguchi, andlegan leiðtoga Omoto-kyo trúarsafnaðarins. Þeirra leið ir áttu eftir að liggja saman í fjöldamörg ár og Ueshiba bjó og starfaði lengi vel innan safnaðarins.

Upp úr 1921 tók hann að brjóta sig frá hinum hefðbundnu Yagyu-ryu og Daito-ryu jujutsu með eigin kenningasmíð. Hann beitti saman tækni og hugmyndafræði til að brjóta niður höft milli huga, sálar og líkama. Árið 1922 hlaut þessi aðferð nafnið aiki-bujutsu. Tveimur árum síðar tóku þeir Ueshiba og Onisaburo sér ferð á hendur til Mansjúríu í leit að heilögu landi. Þar lentu þeir í nokkrum hremmingum í félagi við kínverskan herkonung og var bjargað frá aftöku á síðustu stundu af japönskum konsúl. Þessi ferð hafði mikil áhrif á Ueshiba þar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir andlegri uppljómun. Fólst hún meðal annars í því að í bardaga hafði hann séð ljósleiftur á undan aðvífandi byssukúlum og þannig getað vikið sér frá þeim tímanlega. Þetta sjötta skilningarvit hans (ef svo má kalla) átti eftir að fylgja honum æ síðan.

Í samræmi við hina andlegu nálgun umskírði hann íþrótt sína og kallaðist hún upp frá því aiki-budo. Öðlaðist hún sífellt fleiri áhangendur um allt landið og í hópi nemenda Ueshiba voru hátt settir ráðamenn. Árið 1927 var hann orðinn svo vinsæll að hann fluttist til Tokyo og 1930 hlaut hann heimsókn frá Jigoro Kano, stofnanda Judo og meistara Kodokan. Kano var yfir sig hrifinn af tækninni og lýsti því yfir að þetta væri hið idealíska budô. 1931 var Kobukan dojo opnað á sama stað og Hombu dojo stendur í dag og næstu tíu árin geta talist fyrri gullöld aikido. Kobukan var á þessu tímabili betur þekkt undir nafninu “dauða dojoið” vegna óvenju stífra æfinga. Árið 1941 var aiki-budo sett undir Butokukai (ráðuneyti sem setti allar bardagalistir undir eina stjórn) og það var á því tímabili sem nafnið breyttist í aikido.

Á sama tíma fluttist Ueshiba með konu sinni til Iwama og bjó þar við einfaldar aðstæður. Þar setti hann upp Aiki hofið og dojo utandyra, sem saman mynduðu innsta helgidóm aikido. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru bardagalistir bannaðar í Japan en 1948 fékkst leyfi til að hefja á ný kennslu í aikido. Þá var Aikikai stofnað og hafist var handa um að breiða aikido út um veröldina í samræmi við kenningar Ueshiba um sameiningu heimsins með iðkun aikido. 1954 voru höfuðstöðvar aikido fluttar á ný til Tokyo og höfuðstöðvarnar fengu formlega nafnið The Aikikai Foundation: the Hombu Dojo of Aikido. Eftir því sem hann eltist tók Ueshiba minni þátt í daglegu starfi en helgaði sig því meira andlegum fræðum. Hann sýndi þó áfram og ferðaðist meðal annars til Bandaríkjanna, kom fram í sjónvarpi og sýndi aikido víða um heiminn. Morihei Ueshiba lést þann 26. apríl 1969, 82 ára að aldri.


Í aikido er áhersla lögð á að æfingafélagar vinni saman að því að bæta sig í stað þess að keppa að árangri á kostnað annara.