Alexander Karelin - Síberíska Tröllið

1.175 mílum austur af Moskvu, mitt í óbyggðum Síberíu stendur iðnaðarborgin Novosibrisk (Íbúafjöldi:1.75 millj.)umkringd gríðarstórum furuskógum. Á veturna fer hitinn stundum niður í -50 gráður á Celsius. Það er þar sem að maður að nafni Alexander Karelin fæddist og býr enn þann dag í dag. Þó svo að fæstir á vesturlöndum kannist við nafnið hans þá var hann nýlega valinn einn af 25 bestu íþróttamönnum 20. aldar, ásamt fólki á borð við Pele, Michael Jordan, Muhammed Ali, Jesse Owens og fleiri. En hver er þessi Karelin?

Alexander Karelin fæddist árið 1968 og var öllum ljóst að hér væri ekkert venjulegt barn á ferð. Hann vó rúmlega 7 kíló (28 merkur!)við fæðingu, og þegar hann hóf skólagöngu gnæfði hann höfuð og herðar yfir jafnaldra sína. Átti honum til að vera strítt fyrir sitt grófa og tröllslega andlitsfall og langa klunnalega útlimi. Sasha, eins og hann hefur alla tíð verið kallaður, var afar þægt og hlædrægt barn, einrænn jafnvel, og sýndi góðan námsárangur, enda af miklu menntafólki kominn. Langafar hans og ömmur voru Rússneskt vísinda- og listafólk sem Lenín sendi í útlegð til Síberíu í kjölfar Byltingarinnar Miklu.
Eina íþróttin sem hann stundaði í barnaskóla var sund, og stóð hann sig með sóma. Einnig var hann mikill skíðagarpur, og hamingjusömustu æskuminningar hans eru frá löngum veiðiferðum á gönguskíðum um skógana kringum Novosibrisk í leit að refum og safölum.

Grísk-Rómversk glíma er ein af upprunalegu Ólympíu íþróttunum og á sér meira en 3.000 ára sögu. Allt frá því að Ólympíuleikarnir voru endurvaktir höfðu Sovétríkin átt afar sterka glímumenn og unnið til fjölmargra verðlauna. Glímuþjálfarar ferðuðust vítt og breitt um hin víðfeðmu héruð landsins í leit að efnilegum íþróttamönnum sem gætu orðið verðugir fulltrúar fósturjarðarinnar á alþjóðavettfangi.

Þegar Karelin var orðinn 13 ára var hann farinn að nálgast 1.90 á hæð og líkamsbygging hans vakti áhuga Victor Kusnetzov, sem þjálfaði glímumenn í Novosibrisk.

Karelin hafði glímt í skóla, en fannst ekki mikið varið í íþróttina og var um það bil að leita á önnur mið, en Kusnetov tók það ekki í mál. Sá hann strax að hér væri kominn drengur sem lofaði góðu sem yfir-þungaviktarmaður(super-heavyweight), og þó að Karelin væri tregur til í fyrstu ákvað hann að gefa Kusnetzov tækifæri. Hefur hann ekki skipt um þjálfara síðan.

Tók drengurinn stórstígum framförum næstu tvö árin, en þegar hann var 15 ára varð hann fyrir því áfalli að fótbrotna á glímumóti. Móðir hans tók meiðslum einkasonarins afar illa, brenndi glímubúninginn hans, hellti sér yfir Kusnetzov og húðskammaði hann fyrir að slasa barnið hennar. Tilkynnti svo Alexander að hann myndi ekki glíma meir á meðan hún fengi einhverju um það ráðið. En hið rúmlega 100 kílóa “barn” var ekki á þeim buxunum.
“Hvernig gat ég gengið á brott frá íþróttinni sem ég hafði gefið allt sem ég gat, þar á meðal fótlegginn?”, sagði hann síðar meir.

Hann sat ekki heldur auðum höndum á meðan hann beið eftir að brotið gréri, heldur hélt sér í formi með því að róa á árabát fram og til baka á hinum gríðarstóru stöðuvötnum í nágrenni Novosibrisk, svo klukkutímum skipti þangað til að blæddi úr höndunum á honum. Þegar hann varð þreyttur lét hann sig fljóta og las. Það var á þessum tíma sem að Karelin fékk áhuga á rússneskri menningu og bókmenntum og las allt sem hann komst í. Turgenev, Streiser, Bulgakov, Esenin, Marx, skipti ekki máli, hann hakkaði þetta allt í sig og meira til. Þótt ótrúlegt megi virðast segir hann að lesturinn, og þá sérstaklega ljóð Sergei Esenin hafi veitt honum innblástur til að þróa glímutækni sína enn frekar. Einnig hóf hann að yrkja sín eigin ljóð.

“Glíman er eins og ljóð” sagði hann í viðtali við Sports Illustrated. “Allir nota sömu orðin, en það sem máli skiptir er hvernig þú setur þau saman, hvernig þú býrð til eitthvað nýtt og fallegt úr hversdagslegum orðum. Þannig lít ég á glímuna, hver glímumaður nálgast hana á mismunandi hátt og setur sitt persónulega mark á hana.”

Ári seinna var hann aftur orðinn heill heilsu og sannfærði foreldra sína um að leyfa sér að byrja að glíma aftur. Hefur það vafalaust spilað inní að Sovétríkin voru á þessum tíma föst í blóðugum stríðsátökum í Afghanistan, og hinn 16 ára Karelin var óðfluga að nálgast herskyldualdur.
Ein af fáu leiðunum til að forðast herskyldu var einmitt að komast inn í íþróttaprógramm ríkisins.

Næstu tvö árin skaust Karelin upp á stjörnuhiminn rússneskra íþróttamanna, og árið 1986, þá 1.90 cm, tæplega 150 kg af vöðvum(7% líkamsfita) og með næstum því 2 metra faðm, tapaði hann einungis einni glímu. Ósigurinn kom á móti þáverandi heimsmeistara, Igor Rostorotsky, 1-0(Mjög lítill munur í Grísk-Rómverskri glímu, úrslit á borð við 10-8 eru ekki óalgeng).

1987 vann hann U-21 heimsmeistaratitilinn og var valinn í landsliðið. En Karelin hafði um annað að hugsa. Hann var staðráðinn í að sigra Rostorotsky og tryggja sér sess sem aðal yfirþungaviktarmaður Rússa fyrir Ólympíuleikana 1988 í Seoul. Það var þá sem að hann fékk hugmynd sem átti eftir að vekja gríðarlega athygli í glímuheiminum og verða hann aðalsmerki í framtíðinni. Hann varð staðráðinn í að nota öfuga skrokklyftu(reverse body-lift).

Öfug skrokklyfta er kast sem er mikið notað í léttari þyngdarflokkum í Grísk-Rómverskri glímu, og felur í sér að þegar fórnarlambið er á fjórum fótum krýpur glímumaðurinn við hlið hans og snýr í öfuga átt, tekur utan um mittið á andstæðingnum og spyrnir sér upp og afturábak. Hið óheppna fórnarlamb hefur þá um tvo kosti að velja og báða slæma. Annarsvegar að streitast á móti og lenda þá að öllum líkindum á andlitinu með augljósum afleiðingum, eða að velta sér með kastinu og enda á bakinu, sem að nokkurnveginn gulltryggir sigur þar sem að sá sem leyfir herðablöðunum að hvíla á gólfinu í meira en þrjár sekúndur er úr leik í Grísk-Rómverskri glímu. Öfug skrokklyfta tryggir þér í minnsta falli 5 stig, í besta falli sjálfkrafa sigur. En þó svo að hún væri mikið notuð af léttari, snarpari glímumönnum var hún afar sjaldséð hjá þeim þyngri, og engum hafði nokkurn tíman dottið í hug að reyna hana í yfirþungavikt. “Það var talin almenn staðreynd að það væri ómögulegt að kasta mönnum á stærð við okkur”, sagði bandaríkjamaðurinn Jeff Blatnick, gullverðlaunahafi á ÓL ´84 og eitt af fyrstu fórnarlömbum “Karelin-lyftunnar” eins og hún hefur verið kölluð. Blatnick var 134 kg á þeim tíma. “Karelin kenndi okkur að fljúga”.

Svo mánuðum skipti æfði Karelin eins og óður maður, fór í tveggja klukkutíma víðavangshlaup í hnédjúpum snjó, fleygði 30 kg sandpokum úr einum stafla yfir í annann eins hratt og hann gat og svo aftur til baka, kastaði trjábolum og eyddi heilu og hálfu dögunum með Kusnetzov að fínpússa skrokklyftuna sem átti eftir að sigra heiminn.

Á boðsmóti í Kanada varð glímuheimurinn óþyrmilega var við að reglurnar sem allir héldu að giltu um stóru strákana voru ekki lengur í gildi. Hvert tröllið á fætur öðru sveif á mót ósigurs og Karelin bókstaflega jarðaði mótið.

Þegar hann kom heim sigraði hann Rostorotsky oftar en einu sinni og tryggði sér sess í hópi Ólympíufara.

Í Seoul lenti Karelin einungis tvisvar í vandræðum. Í fyrra skiptið þegar hann komst að því að hann kunni ekki á hinar háþróuðu kóresku þvottavélar í Ólympíuþorpinu(sóvéska kvennalandsliðið í blaki reddaði því fyrir hann!) og svo í úrslitaglímunni í keppninni þegar hann var einu stigi undir gegn Gerovsky með einungis 30 sekúndur eftir. Þá náði hann að læsa klónum utan um mitti Gerovsky og þar með voru örlög hans innsigluð. Eins og allir aðrir flaug hann í gegnum loftið og fyrsta Ólympíugull Alexanders Karelin var orðið að staðreynd. Tvö í viðbót áttu eftir að fylgja í kjölfarið, ásamt ótal Heims-, Evrópu-, og Rússlandsmeistaratitlum.

Þessi árangur kappans komu af stað vangaveltum um að líkamsbygging hans væri langt frá því að geta talist náttúruleg, og hlyti að vera afleiðing af steranotkun eða annarri lyfjaneyslu sem á þessum tíma var algeng meðal austur-evrópskra íþróttamanna. En Karelin hefur alla tíð hlegið að því og jafnvel þegar hann var ekki kallaður í hin handahófskenndu lyjapróf bauð hann sig fram sjálfur, því honum hefur alltaf verið það kappsmál að sýna að hann hafi ekkert að fela.

“Glímumenn vita yfirleitt hverjir eru á lyfjum og hverjir ekki löngu áður en þeir falla á prófi” sagði Greg Strobel, framkvæmdarstjóri USA Wrestling. “Það er nokkurnskonar opinbert leyndarmál. Nafn Karelins hefur aldrei komið upp í ”búningsherbergjaspjallinu“”.

Næstu 12 árin tapaði Karelin ekki einni einustu glímu, hvorki heimafyrir né á alþjóðamótum, og var í svo miklum sérflokki að öll viðmið yfirþungaviktarmanna breyttust.

“Menn litu á það sem sigur”, segir Blatnick,“ef að hann kastaði manni ekki. Skítt með hvort maður tapaði, það var skrokklyftan sem við vorum hræddir við. Það er ekkert meira niðurlægjandi fyrir þungaviktarmenn heldur en að vera kastað”. Og enginn gat kastað mönnum eins auðveldlega eða á eins niðurlægjandi hátt og Karelin.
Og það var niðurlægingin sem menn gerðu allt til að forðast. Þessi ótti gekk svo langt að menn brutu höfuðreglu Grísk-Rómverskrar glímu: þeir veltu sér á bakið og gáfu Karelin tækifæri til þess að pinna axlirnar í gólfið. Það var eina leiðin til að sleppa við lyftuna.

“Ég trúði ekki mínum eigin augum”, sagði Mike Houck, bandaríski landsliðsþjálfarinn. “Heimsklassa glímumenn voru að brjóta einu regluna sem að hefur verið hömruð inn í hausinn á þeim allan þeirra feril, að aldrei, aldrei, aldrei gefa færi á bakinu sér, og þeir voru að gera það af því að þeir voru hræddir. Karelin vann þá löngu áður en glíman byrjaði:hann bókstaflega braut þá niður andlega”.

Brátt varð “Sasha” Karelin þekktur um öll Sovétríkin sem eitt af fáum átrúnaðargoðum á erfiðum tímum. Gamla kerfið var að hrynja og óvissan um framtíðina gerði öllum erfitt fyrir. Karelin notaði peningana og virðinguna sem íþróttaferillinn færði honum til að tryggja sér frekari menntun(hann hafði þá þegar útskrifast sem vélvirki áður en hann fór til Seoul)og náði sér í kennararéttindi. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur 1990 bjuggust margir við því að Karelin myndi flytjast úr landi, jafnvel til Bandaríkjanna, eins og svo margir aðrir íþróttamenn gerðu þegar ferðafrelsi komst á. Karelin fékk atvinnutilboð frá mörgum virtum háskólum í bandaríkjunum að koma og þjálfa, einnig frá NFL liðum, WWF Pro-wrestling deildinni og jafnvel Hollywood um að gerast leikari. En hann hafnaði þeim öllum. Fósturjörðin var honum svo kær að hann gat ekki hugsað sér að yfirgefa hana.

Eitt það fyrsta sem var skorið niður þegar kommúnistastjórnin féll var hið viðamikla ríkisrekna íþróttaprógramm. Karelin sá að glímuhefð Rússa væri í mikilli hættu þannig að hann stofnaði Karelin-sjóðinn, góðgerðarsamtök sem studdu við bakið á glímuhreyfingunni í Síberíu og tóku við fjárframlögum frá stofnunum og fyrirtækjum svo að ungmenni gætu lagt stund á þessa fornu íþrótt. Einnig eyddi hann löngum stundum við Spartak-íþróttaskólann við Svartahaf, þar sem að hann kenndi glímu og æfði sjálfur. Einnig nældi hann sér í svartabelti í Judo og hinni rússnesku fangbragðalist Sambo, þó að frami á þeim vettfangi hafi aldrei verið takmarkið. Grísk-Rómverska glíman hefur alltaf verið hans stærsta ást.
Allt annað var bara dægrastytting, eða í mesta lagi auka-þjálfun fyrir glímuna.

“Ég vil líta á mig sem klassískann mann”, sagði Karelin í Sports-Illustrated viðtali. “Eg les klassískar bókmenntir, hlusta á klassíska tónlist og ég elska Grísk-Rómverska glímu af því að hún á sér svo langa og ríka sögu, allt aftur til gullaldar visku og þekkingar Grikkja. Að fá að vera hluti af svo merkri hefð eru forréttindi sem að ég er ekki tilbúinn að vanrækja fyrir frama í öðrum íþróttagreinum”.

Karelin tók gullið auðveldlega á ÓL “92 í Barcelona og enn og aftur var hann aðalmaður Rússa í Atlanta ”96. Þar mætti hann bandaríkjamanninum Matt Ghaffari í úrslitunum, Ghaffari hafði einsett sér það að sigra Karelin, enda á heimavelli og Karelin veikar fyrir en áður, hafði nýlega verið skorinn upp vegna meiðsla í öxl. Ghaffari var svo heltekinn löngun að sigri manninn sem hafði sigrað hann í tuttugu viðureignum í röð á ýmsum alþjóðlegum mótum að hann hengdi upp risastóra andlitsmynd af Karelin í svefnherberginu sínu, þannig að um leið og hann vaknaði á morgnana væri hann minntur á hvert takmark dagsins væri: æfa,æfa og æfa meira þannig að draumurinn gæti ræst.

Lengi vel voru þessir tveir risar læstir í þrátefli, hvorugur náði að skora eitt einasta stig. Karelin hafði ekki mætt þvílíkri mótspyrnu í áraraðir. Glíman fór í framlengingu. En þegar tvær mínútur voru liðnar af henni skoraði Karelin eitt stig, og það var nóg. Enginn gat skorað gegn honum, og tíminn rann út. Þriðja ÓL gull Karelin var í höfn, og Ghaffari grét á verðlaunapallinum þegar hann tók við silfrinu.

Á árunum eftir fall kommúnistastjórnarinnar rauk spilling og skipulögð glæpastarfsemi upp úr öllu valdi í Rússlandi, og Síbería bar ekki varhluta af því. Karelin hóf þá störf hjá Fjármálaeftirliti Ríkisskattstofunnar, sem að í Rússlandi er stofnun ansi ólík hliðstæðum stofnunum á vesturlöndum. Þar þjálfaði hann vopnaðar víkingasveitir Fjármálalögreglunnar, sem eru nokkurnskonar “Untouchables” sveitir sem eru skipaðar mönnum sem á að vera ómögulegt að múta eða hafa áhrif á. Hafa þeir víðtækar heimildir til að gera rassíur hjá fyrirtækjum og ríkisstofnunum sem talin eru vera tengd skipulagðri glæpastarfsemi. Karelin var gerður af ofursta í fjármálalögreglunni, og var ábyrgur fyrir því að kenna víkingasveitunum návígis-bardagatækni, en einnig var hann andlit Fjármálalögreglunnar útávið, kom fram í auglýsingum og á blaðamannafundum og hvatti almenning til að standa saman og láta ekki mafíuna kúga sig, heldur tilkynna misferli og glæpi hvar sem þeir kynnu að vera. Gat hann sér gott orð, og það er á hreinu að sú virðing sem rússneskur almenningur ber fyrir honum hefur haft sitt að segja um að þónokkur árangur hefur náðst í baráttunni við það samfélagsmein sem glæpir og spilling er.

1998 bauð Karelin sig fram til setu í Dúmunni, neðri deild Rússneska þingsins, og hlaut með eindæmum góða kosningu í Novosibrisk. Sagði hann starfi sínu hjá Fjármálaeftirlitinu lausu og settist á þing. Þar hefur hann átt farsælan feril og unnið ötullega að því að Síbería gleymist ekki í hinu nýja Rússlandi. Hefur hann átt sérlega góð samskipti við Vladimir Putin Rússlandsforseta(til gamans má geta að Putin er einnig svartbeltingur í Judo)og stutt hann dyggilega. Karelin var samt ekki búinn að yfirgefa glímuna, og stefndi á að styrkja arfleið sína enn frekar með því að vinna gull á fjórðu Ólympíuleikunum í röð, árangur sem er hreint sögulegur.

Á síðustu Ólympíuleikum virtist allt ætla að fara á sama veg og áður, Karelin var óstöðvandi - þangað til að hann mætti ungum mormóna strák frá Utah, Rulon Garner í úrslitunum. Í þetta skiptið var úrslitunum frá 1996 snúið við, Garner náði að skora eitt stig gegn Karelin, sem var fyrsta stigið sem Karelin fékk á sig í tíu ár. Garner varðist vel það sem eftir lifði glímunnar og sama hvað Karelin reyndi gat hann ekki skorað gegn Garner. 1-0 fyrir Garner og Karelin varð að sætta sig við silfur. En það skiptir svo sem ekki máli, Karelin er fyrir löngu búinn að tryggja sinn sess í sögu Ólympíuleikanna, og ekki síður í sögu Rússland sem einn af fyrirmyndarborgurum landsins. Hlaut hann nýlega gullstjörnuna og titilinn “Hetja Föðurlandsins”, æðsta heiðursmerki sem að óbreyttur borgari getur fengið.

Heimildir: Sports Illustrated, www.karelin.ru.