Sólveig Sigurðardóttir, félagi í Karatefélaginu Þórshamri, dvelur núna sem skiptinemi í Japan, í borginni Sendai sem er í Tohoku í norðurhluta Japans. Sólveig er karatekona ársins 2001, núverandi bikarmeistari kvenna í karate og margfaldur unglingameistari í kumite og kata. Um síðustu helgi tók hún þátt í fylkismóti fyrir shotokan karate en Sólveig keppir í flokki unglinga 15 - 17 ára. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði í báðum flokkum sínum, í kata og kumite. Í kumite keppti hún þrjá bardaga sem hún sigraði örugglega. Í kata var hún eftir undanúrslit jöfn stigum og Japansmeistari unglinga í þessum flokki en í úrslitum sigraði Sólveig örugglega. Þessi árangur Sólveigar er mjög glæsilegur í ljósi þess að Japansmeistari unglinga í kata tók þátt í mótinu. Þetta er annað mótið sem Sólveig tekur þátt í síðan hún fór til Japan en fyrir mánuði tók hún þátt í borgarkeppni Sendai þar sem hún sigraði í sínum aldursflokki í kata, kumite og var í sigurliði í sveitakeppni í kumite.