Rizelmine - Umfjöllun Heiti: Rizelmine
Framleiðandi: M.O.E í samvinnu við Madhouse og Imagin
Útgáfuár: 2002
Fjöldi þátta: 1. sería - 12 þættir (2. sería væntanleg í október)
Lengd þátta: Ca. 15 mínútur

Rizelmine fjallar um Rizel, 12 ára stelpu sem virðist hrikalega ofvirk, og Tomonori, 15 ára strák sem er ástfanginn af kennaranum sínum.

Dag einn þegar Tomonori er að koma heim úr skólanum mætir hann ókunnugri stelpu sem kallar hann eiginmann sinn. Tomonori er frekar hissa á þessarri manneskju, en verður enn meira ruglaður þegar þrír menn, sem kalla sig einfaldlega pabba hennar, mæta með giftingaskjöl og segja hann vera löglega bundinn stelpunni. Fljótlega kemur í ljós að stelpan heitir Rizel og er einhvers konar erfðabreytt manneskja sem sér ekki sólina fyrir Tomonori.

Þættirnir eru hrikalega fyndnir. Rizel er mjög einföld og barnaleg og reynir allt til að fá Tomonori til að líka við sig, en hann reynir alltaf að vera fullorðinslegur og leiðinlegur við hana. Inn í málin flækist svo fjöldinn allur af skrautlegum persónum og skrítnum uppátækjum.

Ég varð strax heillaður af þessarri seríu, enda skapar tónlistin, persónurnar og teiknistíllinn verulega skemmtilega veröld sem erfitt er að slíta sig frá.