.hack//Sign (2002) Nafn: .hack//Sign
Framleiðandi: Bandai
Útgáfuár: 2002
Fjöldi þátta: 26
Lengd þátta: Ca. 25 min

Ég vil byrja á að taka það fram að það er frekar langt síðan ég sá seríuna, svo það er mögulegt að eitthvað infoið sé 100% rétt, og lýsingin gæti orðið heldur skrítin, en það verður bara að hafa það, vegna þess að það sem mestu máli skiptir, mitt eigið álit á seríunni, ætti að koma fram.

Í byrjun apríl 2002 var sýndur fyrsti þátturinn í sjónvarpsseríunni .hack//Sign, fyrsta hluta stórrar seríu Bandai sem teygði sig út frá sjónvarpinu í myndasögur og tölvuleiki. Serían er án efa ein af stærstu tilraunum Japana til þess að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum. Auk seríunnar er til myndasögusería, sem spannar þónokkrar bækur, tölvuleikjasería og stutt OVA sería sem gerist í hinum raunverulega heimi á sama tíma og leikirnir, og svo er það nýjasta sería sem gerist 2 árum eftir að leikirnir gerast. Því miður hafa leikirnir ekki enn komið til Evrópu og miðað við hvernig útlitið er þá mun hún ekki koma til Evrópu í bráð, en fyrir þá allra áhugasömustu ætti ekki að vera erfitt að kaupa leikina inn frá Bandaríkjunum. Einnig er alls óvíst hvenær seinasta serían kemur út á DVD…

Árið 2005 kemur upp vírus sem kallast “Pluto Kossinn” og hefur hann svo mikil áhrif að allt internetið hrynur. Tveimur árum seinna, árið 2007, er internetið komið aftur í gang og á því ári er gefinn út tölvuleikur sem á eftir að hafa mikil áhrif á mannkyn. Hann kallast The World og er sýndarveruleiki þar sem fólk hittist, styrkir persónur sínar saman, eða svíkur félaga sína og vini. Sem sagt… þetta er sýndarheimur þar sem þú gerir það sem þú vilt.

Tsukasa er enn einn nýgræðlingurinn í þessum heimi sem hefur verið skapaður. Hann er einrænn og á enga vini sem spila leikinn. Hann er sem sagt einn á báti, og vill helst vera þannig, og neitar hverjum þeim sem býður honum hjálp. En sér til skelfingar þá kemst hann að því að hann getur ekki hætt í leiknum. Sama hvað hann reynir þá reikar hugur hans í heiminum og hann getur ekki slitið sig frá honum. Og það er aðeins einn af óteljandi hlutum sem eru í þann mund að fara úrskeiðis í þessum sýndarveruleika, sem virðist vera hættulegri mönnum en upphaflega var gert ráð fyrir…
Með hjálp annara spilara þarf hann að berjast á móti hinum ýmsu fjendum, bæði skrímslum sem eru inni í leiknum sem og bræðralagi spilara sem berjast gegn svindlum og eyða út öllum þeim sem eru grunaðir um svindl eða stórfelld svik.

Söguþráður .hack//sign er frumlegur, það fer ekki á milli mála. En því miður þá eru ýmsir vankantar á honum, fleiri vankantar en hefðu átt að vera á honum. Persónur ráða yfir upplýsingum sem þær ættu í raun ekki að hafa ráð yfir. Söguþráðurinn er einnig frekar hægur, í raun má segja að það gerist ekkert í fyrri parti seríunnar, þáttum 1-13, nema einhverjir örfáir merkilegir atburðir. Allt hitt sem teljast má mikilvægt er að finna í þáttum 14-26.

Persónurnar eru margar hverjar mjög daufar, stundum heldur maður að þær séu bara eitthvað sem er fyrir manni, því miður. Pælingin er samt allt í lagi, ekki ósvipuð þeim sem maður sér þegar maður er að spila MMORPG leiki dagsins í dag. Þeir talast á innan leiksins eins og þeir myndu gera hér, þeir senda e-mail á milli sín og tjá sig í gegnum korkakerfi, en á hinn bóginn veit maður aldrei hver manneskjan á bak við persónuna er. Það gæti þess vegna að þessi fallega gella sem Tsukasa hljóp framhjá áðan hafi í raun veru karlmaður… hver veit…
En því miður þá er voðalega lítil breyting á persónunum í gegnum söguna, a.m.k. tók ég ekki eftir neinni rosalegri persónusköpun. Persónuskapari seríunnar, sem áður hafði meðal annars unnið að Neon Genesis Evangelion, var alls ekki að standa sig þegar hann skilaði af sér sínu verki í .hack//sign.

Teikningar eru mjög skemmtilegar, bakgrunnar eru skemmtilega hannaðir og það er engu líkara en mikið hafi verið pælt í útliti heimsins áður en hann fór í vinnslu. Skrímslin eru alls ekki af verri endanum, mörg hver eru skemmtilega hönnuð.

Tónlistin í seríunni er vægast sagt æðisleg. Skapari hennar, Kajiura Yuki, hafði áður unnið að tónlistinni í Noir, og ber tónlist .hack//Sign mikinn keim af tónlistinni úr Noir. Tónlistin er breytileg eftir umhverfinu, líkt og í mörgum tölvuleikjum, og það er greinilegt að Kajiura-san hefur lagt mikið á sig til þess að passa það að tónlistin passi við hvern stað og hvert atriði í seríunni. Byrjunar og endaþemað er svo flutt af dúettinum See Saw, en Kajiura Yuki er einmitt annar helmingurinn af honum.

Allt í allt er serían ‘alltílæ’ en það er margt sem hefði mátt bæta. Serían er langt frá því að vera besta sería í heimi… mjög langt frá því. En hún á sína góðu punkta, sem betur fer, því þegar söguþráðurinn er kominn á fullt heldur hann manni við efnið. Því miður gerist það ekki fyrr en í seinni hlutanum…
En já, ég held það sé hægt að nálgast alla diskana í Nexus, en þeir eru 6 talsins.
Og nú er svo bara að bíða eftir því að leikirnir fjórir komi til Evrópu…

Tengdar síður:
www.dothack.com

Vilhelm