Onegai Teacher (2002) Nafn: Onegai Teacher! (JPN) / Please Teacher! (USA)
Framleiðandi: Bandai Visual
Útgáfuár: 2002
Fjöldi þátta: 12
Lengd þátta: Ca. 25 min

Onegai Teacher er ekki það sem maður kallar hið venjulega rómantíska gamandrama sem við höfum séð í hinum ýmsu seríum. Þættirnir gerast í litlum, ónefndum bæ í Japan sem situr við lítið og fagurt vatn. Sagan fjallar um nemandann Kusanagi Kei (eða Kei Kusanagi ef þið viljið fara amerísku nafnaleiðina, en ég kýs að halda upprunalegri nafnaröð, þ.e. fjölskyldunafn fyrst, svo skírnarnafn), sem haldinn er sérstökum sjúkdóm sem veldur því að líkami hans fer í ástand sem er nær dauða en lífi. Hann lifir góðu lífi hjá fjarskyldum ættingjum sínum í þessum litla bæ. Eitt kvöldið verður vitni af því að stór hringiða myndast í miðju vatninu og að kona, böðuð í ljósi, birtist á vatnsbakkanum. Hið undarlega er að næsta dag fréttir hann að kennarinn hans hafi hætt og í staðinn hafi nýr kennari komið. Kennarinn, Kazami Mizuho, er ung og fögur og það er ekki laust við að nemendur hennar beri mikla aðdáun til hennar. En hún er ekki öll séð, eins og menn komast í raun um strax eftir fyrsta þátt…

Ég held það sé óhætt að fullyrða að þessi sería sé ein þeirra sem tyllir sér á topp 5 listann minn. Teikningarnar eru yfirleitt líflegar og hressandi, sérstaklega teikningarnar í opnunarmyndbandinu, og persónurnar eru fjölbreytilegar, skemmtilegar og hressandi. Söguþráðurinn tekur marga skemmtilega snúninga á leið sinni í gegnum seríuna, sumt er reyndar allt of augljóst en margt kemur þó mjög á óvart og það er gaman að fylgjast með öllum þeim furðufuglum sem birtast í seríunni. Tónlistin er reyndar ekki upp á marga fiska, hún er að miklu leiti ekkert annað en þynnt útgáfa af opnunarþemanu. Opnunarþemað er í höndum Kotoko, og nefnist Shooting Star, og ég held ég geti fullyrt það að þetta sé bara ágætis lag hjá henni. Lokaþemað er hins vegar í höndum söngkonunnar Kawada Mami og ég held það sé óhætt að fullyrða að lagið er toppur tónlistarinnar í seríunni.

Serían er, eins og segir fyrir ofan, 12 þættir að lengd, en þess má geta að með DVD safninu fylgir einn auka þáttur sem fjallar um… já, ég held það sé best að þið komist að því ‘the hard way’ :).
Fyrsti DVD diskurinn er nú þegar kominn út í Bandaríkjunum (en serían er gefin út á samtals 4 diskum), og eru fyrstu 4 þættirnir á honum. Diskurinn ber undirtitilinn ‘Hot for Teacher’ en heiti seríunnar á amerískum markaði er, eins og áður segir, Please Teacher. Sjálfur er ég með þennan disk undir höndum og get bara sagt að hann er skyldukaup fyrir alla þá sem fíla rómantík, sýrðan söguþráð og hafa ágætis húmor.

Því má bæta við að núna í júlí byrjar sýning á seríu sem heitir Onegai Twins (eða One*2 upp á styttra nafn) og gerist einmitt í sama bæ og Onegai Teacher.

Vilhelm