Þetta er engin varnarræða stuðlasetningar heldur persónuleg skoðun mín.

Illa samdar vísur eða söngtextar, sem brjóta í bága við allar bragreglur, fara í taugarnar á flestum (t.d. öllum sem eru músíkalskir), jafnvel þótt þeir viti ekki af hverju og jafnvel þótt þær séu fullar af frábærri fyndni eða djúpri speki.
–Guðmundur Sæmundsson Skapandi skrif

Einhverstaðar í umræðunni hér sá ég því hent fram að bragfræði, stuðlar og rím hefti tjáninguna og torveldi því að hægt sé að koma meiningu sinni fram í ljóðum. Þessu gæti ég sjálfur ekki verið meira ósammála og þá sem halda þessu fram tel ég ekki dómbæra á nein ljóð, stuðluð eða óstuðluð.
Auðvitað hefta reglur þá sem þær ekki kunna. Það er staðreynd. Hinsvegar hefta stuðlareglurnar engan sem tilbúinn er að leggja smá tíma og vinnu í sína ljóðagerð. Þær gefa ljóðum og vísum þetta extra búst sem getur gert góðan texta að snilld.

Það er algengur misskilningur að hægt sé að semja ljóð á engum tíma, nánast galdra það upp úr erminni. Gott ljóð krefst yfirlegu, bæði til að koma innihaldinu vel til skila og einnig til að þægilegt sé að lesa það. Þar kemur hrynjandin til sögunnar þ.e.a.s atkvæðafjöldi.
Ef hrynjandin er á ská og skjön í ljóðinu og fylgir engum reglum þá er erfitt og eiginlega bara hundleiðinlegt að lesa það.
Stuðlar og höfuðstafir leggja síðan áherslu á einstaka orð í ljóðum og án þeirra er textinn litlausari og viðvaningslegri.

Stuðladæmi:

Fyrr var oft í koti kátt

Mér finnst ég varla heill hálfur maður

Auga þitt og augað mitt, ó þá fögru steina

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

Hver sem er getur hent fram einhverjum orðum í línu og kallað það ljóð. En til þess að lokka lesandan að ljóðinu aftur og aftur þarf meira til.

Knús annars!

Mig langaði mikið að segja´ eitthvað sem
sælubros fært gæti yður.
En aftur stíg feilspor og sorprit ég sem,
sturta má því nú strax niður.
Ég kannski get náð góðum kvæðunum þrem
klakklaust ef einhver mig styður
En fljótlega með verra kvæði ég kem
og kúka´ uppá bakið því miður.