Eru vegir jarðarför?
er náttúran auðlind eða iðnbylting?
hvort vegur þyngra…
að brúa bilið eða að brúin haldi í bili?
er sandfok eða baknag í hnakkadrambi hálendisins?
flokkast Kárahnjúkavirkjun undir hagsmunaárekstur,
eða hreina og klára aftanákeyrslu?
er náttúruperla eða verðlaust glingur?
því ef valið stendur aðeins milli
sjálfsbjargarviðleitni eða niðurrifsatferlis
stíg ég heldur stutt þroskaskref,
en að grafa eigin gröf
heldur feta ég hárfína hengiflugsbrún
millum öræfa og allsnægta,
stöðugleika og hamfara, afturhvarfs og framfara,
en að lúta stjórn vitfirrtra lávarða,
sem skakklappast um skynskyggðir
á botni brunns að grafa neðar
og finnst það ekkert grunnhyggið!
þetta er ungt og leikur sér sakbitið
grátt fyrir járnum og hamstola,
með falskt og fallvalt fjöreggið
en hvað er þá að? eða er eitthvað að?
hvunndagshetjur&foreldrar?
eldberar&arfberar?
tja, á meðan bíð svars ætla ég að ýta úr vör
því vegir héðan af eru bara jarðarför…
Eru vegir jarðarför?