Finn mjúkhenta sólargeislana strjúka mér um andlitið og læða fingri niður um hálsmálið á nýja sumarkjólnum. Þeir leika um mig alla og fylgja mér á göngu minni. Á túninu vaxa þúsund litlar sólir. Þær sleikja grasið og brosa við mér er ég geng milli þeirra og passa mig á að stíga ekki á þær.
Tælandi fagur liggur lækurinn í rúmi sínu og tekur mér fagnandi. Hann gælir við nakta fætur mína og kyssir mig á ökklann.
Þó get ég ekki dvalið hjá honum, verð að halda áfram. Stíg upp úr lostköldu vatninu og hrafnaklukkurnar við fætur mér klingja í sælu sinni. Hljómur þeirra heiðbjartur ómar í eyrum mér er ég dansa á brott.
Hvert fer ég? Kannski fer ég yfir fjöllin blá að finna annan draum. Kannski kný ég dyra á hjartanu þínu einhvern kaldan vetrardag. Hver veit?