Í fjörtíu og tvo mánuði gekk ég
um borg óttans
og fyrir himnana dró
óútskýranlegt myrkur.
Að hliði ég kom
en það var brotið og inn streymdi hagl og blóð
vellirnir loguðu
að öðru hliði ég kom
en það var brotið og þar sá ég logandi fjall í hafi
að hinu þriðja ég kom
en það var einnig brotið og þar var Remma
að því fjórða ég kom
en það hlið var brotið og í gegnum það sá ég
dag verða nótt og nótt dag
fimmta hliðið var brotið
og inn runnu sporðdrekar
svartir sem eilífar nætur
hið sjötta var brotið
og inn þeystu herbúnir menn og konur
í eldrauðum, svartbláum og brennisteinsgulum brynjum
á hestum með höfuð ljóna og
miklum vígavögnum
og járnklæddir fuglar er spúðu eldi
risu til himins

Dag einn, var eitt sinn spáð,
mun rauður dreki,
höggormur, renna af himnum ofan
með sjö höfuð og tíu horn
og borgir myndu falla.
Allar borgir enda á hafsbotni
rétt eins og öll fjöll enda í fjörunni
og yfir himininn ganga eldar

Lifandi er ég um aldir alda
hef lykla dauðans og Heljar
í þúsund ár mun ég sofa
í þúsund ár mun ég sofa
uns undirdjúpin verða tær sem kristall