Eftir mörg þúsund morgna
mun ég vakna
og líta dökkleita dögun
daggardropum í. Á sölnuðu grasi
og gulnuðum laufum geng
og geigur sækir að mér.
Svört er sólin og varpar
skugga í stað birtu. Og ég spyr
-Hvers vegna?

Hrundar borgir hvíla
á hafsbotni liðins tíma,
og blóði bornar öldur
berast hægt að nýjum ströndum.
Og askur allra tíma stendur
allslaus
og beinaberar greinar
brothættar
teygja sig upp til
tunglslauss himins.

-Hvers vegna?

Úr djúpinu rís dauðraskip.
Dökklitað og stýrislaust
heldur í senn til heljar. Í skelfingu
hendur mínar lít og neglur.

Himneskur hryllingur
heilsar. Úr djúprauðum, brennandi
augum skín reiði en jafnframt skilningur.
Ég spyr:
-Hvers vegna?

Hryllingurinn svarar :
-Hvers vegna ekki?