Ég átti leið um ljótan stað
og langar frá að segja,
því lyktin minnti á sorarsvað -
ég sór, ég myndi deyja.

Svo sá ég nálgast mikinn mann
sem minnti á soltinn rakka.
Í vinstri augntóft hafði hann
hálfan kakkalakka.

Að sjá þann mann var sorgleg raun,
mig sveið í allt mitt hjarta.
Rétt við nef hans lafði á laun
loðin graftarvarta.

Verri en allt, sem var og er,
vartan líktist sulli.
Og eina hafð'ann uppí sér
eðaltönn úr gulli.

Aðrar tennur eins og klær
af ógurlegri skessu.
Um hálsinn skriðu skrilljón flær -
og skánar ekki úr þessu.

Um hann runnu gröftur, gall
og gulur, blautur svitinn.
Hratt um nasir horið vall,
hrátt - og grænt á litinn.

Úr hans kjafti slímugt slef
slettist ansi víða.
Vörtum grafið var hans nef
og vantaði bita íða.

Úr mjöðm hans stóðu brotin bein -
blár hann var og marinn.
Varla hár á höfði nein
og húðin víða farin.

Um hægra augað, langa leið
læddist vír með gadda
og út um vinstra eyrað skreið
ormalirfupadda.

Svo sá ég úrið, sem hann bar
og sá hans löngu fingur -
komst að því að kappinn var
kreppuholdgervingur.

(Jafnvel einnig útrásarvíkingur.)

Ég auglýsi hér með samkeppni um myndskreytingu ljóðsins og heiti látlausum verðlaunum fyrir bestu myndina.