Fokið er í fokheld skjól,
furstahallir, eyðiból.
Strokinn friðar styrkur.
Hver blés á ljós frá lífs vors sól?
Hvar leynist sá, sem okkur fól
að kljást við kreppu og myrkur?

Hvers virði er gall? Hvers virði er blóð?
Hvers virði er lífsins daufa glóð?

Á vaðið oft var tæpast teflt,
hvert tetur keypt en aldrei selt
og sumir supu hvelju…
Fá nú reiðir rakkar elt
þann raft, sem okkur lengi hélt
á milli heims og helju.

Hvers virði er hefndin, römm og rjóð,
ef regnið hylur hjartans slóð?

Hvert húm er svart, hver himinn grár.
um hlíðar lands vors streyma tár.
Þau tár á niðdimm nóttin.
Við höfum klifið gljúfur, gjár,
og grætt vor dýpstu hjartasár.
En eftir situr óttinn.

Hvers virði er lítið, vesalt ljóð
ef vosbúð ógnar heilli þjóð?