…ég hrasa en skríð á fætur
hleyp áfram en þeir nálgast mig
blóðið lekur niður úr bringu minni
og skilur eftir sig merkta slóð.

…ég heyri andardrátt þeirra bak við mig
ég finn hitann frá þeim brenna mig
hleyp hraðar í áttina að skjóli
og finn hvernig öndunin dofnar.

…tréð stendur líkt og strá úr gresjunni
og næ að klöngrast upp á eina grein
klifra hærra til að nálgast toppinn
og ég er óhultur fyrir þeim hér.

…þeir standa fyrir neðan gildan bolinn
góna upp og bíða þess að ég hrasi niður
með opinn góminn og sýna í sér hvassar tennur
og græðgin skært í augum þeirra brennur.

…bíð þess að þeir hörfi á braut frá mér
en enginn sýnir fararsnið á sér
þeir setjast niður og sofna til skiptis
og gista margar vikur hér.

…brátt kemur sýking í sárin sem þeir ollu
sársaukinn í bringu minni sljóvgar mig
hjartað blæðir blóðtárum sem falla niður
og þeir gleypa það líkt og regn.

…að lokum finn ég hvernig ég dotta
en sé hvar lítill fagur fugl lendir hjá mér
horfir tindrandi og samúðaraugum á mig
og faðmar hverja sársaukataug svo mér batnar.

…ég er að deyja og ég veit það vel
fuglinn hungraður starir á djúpu sárin
ég vil ekki lenda í maga varganna
og gef honum allt er ég get gefið af mér.

…hann kroppar glaður í sárin mín
drekkur burtu hvern blóðdropa
gleypir í sig mína sorg og minn harm
og flýgur loks í burtu, saddur og sæll.

…ég leggst niður og stari á úlfana
brosi til þeirra og veit þeir munu ekkert fá
en á andlitum þeirra skynja ég glott
og ég titra af sorg er ég fell lífi frá.


………….


…fuglinn fellur og söngur hans hættir
sýkt kjöt mitt hefur eitrað hans litla líkama
hann horfir á mig skilningslausum augum er hann liggur kyrr
úlfarnir snúa burtu, til að fanga nýtt fórnarlamb.

…ég drap litla fuglinn sem huggaði mig…



-Pardus-
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.