Í draumum mínum dansar þú fyrir lokuðum augum
Þú kitlar augnlok sem vilja aldrei opnast heldur halda sig við þig eina.
Þú ert haltu mér/slepptu mér týpan, nýtur athygli minnar
Þó ekki jafn og þú nýtur þess að kitla augnlokin til að sjá hvort ég muni opna þau og hætta að sjá…
þig.
Og auðblekktur hugurinn krafsar sig áfram í áttina að hinum einstaka kossi
(ef ég kyssi þig þarna, á hugans víðlendum, berskjaldaður fyrir sjálfum mér, þá þýðir það að við munum aldrei kyssast í raun, en ef ég kyssi þig ekki… þá er ég að fresta því óumflýjanlega, því við munum aldrei kyssast.
Ég hef áhyggjur af öllu.
Mest þó af því að ég hafi áhyggjur.)
Ég kyppist fram og til baka í átt að fingrum þínum, leyf mér að snerta þá aðeins eitt sinn
Leyf mér… að sameinast þeim.
Andlit þitt hleypur um, áfengisandi ástarinnar, heltekinn.
Ó hve ég hata að elska þig.
Andlit þitt dansar um, húðfrumurnar frjálsar.
Andlit þitt breytist í allar þær sem ég hef áður elskað
Allar þær sem ég hef áður misst.
Ástin er tálsýn hugans segi ég sjálfum mér til að ýta frá hafsjó tilfinninga, um leið og sorg söknuðarins og sjálfsábendingarnar ætla að hamra mig með sleggju sinni.
Og þú hlærð. Diddilídei.
Og ætlarðu að gleypa mig, lengja kjaft þinn á ótrúverðugan hátt og umbreyta tönnum þínum í nagla; gleypa mig? Ætlarðu að binda enda á frumstæða og kannski ósmekklega tilraun mína til þess að öðlast hamingju?
Ó hamingju, þú þungi hlutur massaleysis, bylting hugans hefst á fæðingu þinni.
Ég hef ekki orku í að reyna klaufalegan keisaraskurð.
Við verðum vísast að bíða örlítið lengur.

Ég er í raun vakandi.
______________