hann snýst og snýst
spinnur og spinnur
athafnasamur í erli dagsins

alla daga - öll kvöld
oft fram á nótt

sofnar seint - vaknar snemma
og undirbýr spenntur spuna dagsins

spinnur sig upp yfir morgunverði
mogga og minningargreinum
með útvarpsfréttir
af heimsósóma
í öðru eyra

vaknar seint
á sunnudagsmorgni
og leggur blíður úthvílt höfuð
á hennar öxl sem við hlið hans liggur
og hefur loksins góðan tíma

hvíslar ástarorð í eyra
augnablik áður en síminn hringir

eitt andartak er undarleg spenna
engin orð - engar strokur
svo opnast hurðin

það er síminn til þín pabbi