hann ýtti henni niður í gólfið
sparkaði fast í kviðinn
lamdi oft í höfuðið
hrækti á hana…

hún stundi grét og sparkaði
hélt utan um ófrískan kviðinn
til að verja það
sem í henni dafnaði…

hann lagðist ofan á hana
reif hana úr tötrunum
þröngvaði sér inn
til að ná sínu fram…

hún gafst upp með ekkasogum
starði á loftið og vonaði
að stundin liði fljótar
ef hún reyndi að sofna…

hann lauk sér af í snarhasti
lamdi hana ítrekað
með kylfu
og hnúum…

hann hrinti henni niður stiga
þeytti henni utan í vegginn
og endaði kvöldið
…á enn einu sparki í ófrískan kviðinn…



hann
fékk fimm ára fangelsisdóm
fría máltíð á hverjum degi
þak yfir illkvittið ljótt höfuðið
og laus tveimur árum
fyrir tímann
…fyrir góða hegðun…

hún
fékk lífstíðar þunglyndisdóm
fría depurð á hverjum degi
vantraust á alla ástvini sína
og missti barnið
fimm mánuðum
fyrir tímann
…fyrir hans hegðun…



-pardus-

***Madda sendi ljóðið “Nauðgun” inn fyrir skömmu. Það ljóð hefur verið tekið af ljod.is og stolið frá mér (Daníel Páll Jónasson). Í pirringskasti ætla ég að senda þetta inn undir mínu (og réttu) nafni!***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.