gekk út í kyrrðina
þegar leiðinn tók völd
horfði á norðurljós
sem lýstu bjart í kvöld…



nokkur þeirra stigu spor gegnum himinhvolfin
heitt í hamsi þau gleymdu sér í dansi
vöktu upp brosið á vörunum mínum
og hurfu…

nokkur þeirra röltu svo hæglát undir stjörnum
drógu seiminn og lýstu hægt upp heiminn
tindruðu lengi í augunum mínum
og hurfu…

nokkur þeirra komu sem leiftur yfir himin
lítil skutust og gegnum loftið brutust
stöldruðu stutt við í huganum mínum
og hurfu…



líkt og norðurljós lýsa upp himin
og dansa um himininn glatt
dvelja persónur í okkar hugum
og hverfa svo hægt eða hratt…




-Danni-


***Fór út rétt eftir miðnætti í nótt til að fá mér sígarettu. Tók eftir því að norðurljós voru farin að myndast við sjóndeildarhringinn. Ég stóð grafkyrr og fylgdist með þeim vaxa og nálgast nær mér. Allt í einu varð eins og sprenging beint fyrir ofan hausinn á mér - norðurljósin létu sem tryllt væru í eina mínútu eða svo (veit ekki tímann) og ég gapti gjörsamlega! Hef mjög oft séð norðurljós í fjallaferðum og bíltúrum en aldrei séð þau hreyfast svona áður - beint fyrir ofan mig :) Ég varð allavega alveg dolfallinn, beið í dálítinn tíma horfandi upp í himinn til að ná kannski að sjá þetta aftur en það tókst ekki - fór þess í stað inn til að skrifa þetta ljóð. Endilega segið mér hvað ykkur finnst um ljóðið ;)***
Náttúrubarn, landfræðinemi, veiðimaður, ljóðskáld og alls konar manneskja.