Ég sem fyrir sjálfan mig
og til að seðja aðra
um ekkert, allt, og allt á milli
ég verð sjálfsagt engin milli
á svona bjástri,
býsnin öll af ljóðum á maður
til að gefa út
en ekkert þeirra mun gera mig ríkan
nema þó af aðdáun annara og hrósi
til þess nægir oft góður prósi
eða ljóðkorn
ort af einlægni.

Ég yrki um hatur og hamingju
heiftina og heitar ástir
líf annara, mitt eigið
ljósið í huganum
sem og hjúpandi myrkrið.
Um það sem fyrir augu ber
það sem miður fer
og það sem gleður
hvort sem er sólina
sem tiplar á jöklunum
og heilsar með skínandi brosi
eða sandkornið við tær mér
sem svo ofursmátt
tekur yfir huga minn
svo ég sem um það ljóð.


Ég samdi þetta áðan í kerskni vegna ánægjulegs símtals sem ég fékk í gær frá manni á vegum Ljóð.is. Nú bráðum kemur út bók með 100 bestu ljóðum þessa ágæta ljóðavefs og ljóð mitt “Ferðin Heim” verður þar á meðal. =) Maður fær víst 2 eintök og auðvitað heiðurinn af því að birta í hópi góðra skálda, fyrsta ljóð mitt á prenti takk fyrir, vonandi ekki það síðasta :)
—–