Ég stóð á ströndinni og horfð'út á sjó
og sjórinn, hann starði á móti, og hló;
með handfylli'af sandi,
í fjarlægu landi,
ég stóð á ströndinni og hló, og hló.
Með handfylli af sandi
ég stóð og hló,
sölt tárin blönduðust söltum sjó,
sandurinn rann milli fingranna minna,
sömu sandkornin mun ég aldrei finna.
Á heimaslóðir ég kom fyrir rest,
þar er sama sólin sem hnígur og sest,
tár mín og sjórinn; saman þau hlæja
og kanski, er vindinn fer loks að lægja
munu tár mín og sjórinn, og vindurinn forðum
sameinast hér í þessum orðum.
Ég stóð á ströndinni og starð'út á sjó
og sjórinn hann horfði á móti, og hló,
sandur úr höndunum horfinn er senn.
Ég stóð á ströndinni; og stend þar enn.