Framhaldsstofnfundur Litboltafélags Reykjavikur verður haldinn í Sigtúni, Landssímahúsinu við Austurvöll, þriðjudaginn 18.7.2000, kl. 17:00.

Það er tilgangur framhaldsstofnfundar að staðfesta lög félagsins, kjósa fyrstu stjórn og ákveða árgjald.

Dagskrá fundarins.
1) Kjör stjórnar. Formaður er kjörinn sérstaklega og svo 2 meðstjórnendur.
2) Lagabreytingartillögur afgreiddar ef einhverjar koma fram.
3) Kjör í nefndir
4) Ákvörðun árgjalds.
5) Önnur mál

Þetta félag þarf að gera ýmislegt til að litbolti geti orðið að veruleika á Íslandi.

Við þurfum að bindast samtökum um að spila paintball. Þetta er ódýrara en að leigja byssu og borga sig inn á völl sem rekinn er af fyrirtæki í hvert sinn sem menn vilja spila ef menn vilja spila oft, en kostar ákveðna vinnu sem félagsmenn þurfa að leggja af hendi. Félagsmenn þurfa þá að borga rekstrarkostnað til félagsins, en kosturinn er að með því að vinna sjálfboðavinnu fyrir félagið og þar með fyrir sjálfa sig má halda beinum kostnaði í peningum í lágmarki

Það vantar menn í stjórn, formann og 2 meðstjórnendur. Félagið vantar sérstaklega ábyrgðarmann félagsins sem hefur byssuleyfi.

Litboltafélag Reykjavíkur þarf fernt til að geta starfað. Stjórn, ábyrgðarmann, húsnæði og völl.
Húsnæðið þarf að vera nægilega stórt til að geyma kaffistofu þar sem má setjast niður og spjalla og vera með stóra læsta geymslu fyrir byssur í eigu félagsins. Húsnæðið þarf að hafa þjófavarnarkerfi og fá viðurkenningu lögreglustjórans í Reykjavík. Þetta mun kosta um 400 þúsund á ári í leigu og rekstur.

Félagið vantar 3 menn í húsnæðisnefnd til að leita að hentugu húsnæði og fá viðurkenningu lögreglustjóra á því. Félagið þarf einnig nokkra umsjónarmenn sem skiptast á um að mæta í klúbbhúsið á kvöldin og lána út byssur og taka á móti þeim aftur. Umsjónarmenn bera þannig ábyrgð á útlánum. Félagið á sem sagt byssuna fyrir þig og lánar þér hana þegar þú vilt spila. Það þýðir að þú þarft að koma inn í klúbbhús og sækja byssuna. Síðan skilar þú henni aftur þegar þú ert búinn að spila.

Klúbbhúsið er ekki við völlinn þannig að þetta þarf ekki að vera samdægurs.

Völlurinn þarf að vera utan alfaraleiðar og ekki á almennu útivistarsvæði. Það að standsetja völl með merkingum, byrgjum og öðru getur kostað frá 200 til 500 þúsund.

Félagið vantar 3 menn í vallarnefnd til að finna völl og fá samþykki sveitarstjórnar og lögreglustjóra þar sem völlurinn er. Það er ekkert sem segir að völlurinn þurfi að vera á landi Reykjavíkur.

Það vantar menn í kynningarnefnd til að auglýsa félagið og starfsemi þess.

Mætið á fundinn og takið þátt í uppbyggingu stórskemmtilegrar íþróttar í líflegum félagsskap.