Villta vestrið - Einn af fjórum komandi völlum Langaði að deila frétt úr Fréttablaðinu Mánudaginn 11.Ágúst. Hún fjallar um fyrsta völlinn sem verður byggður á nýja svæði Litboltafélags Hafnafjarðar, litbolti.is.
Verið er að byggja völlinn í Gufunesinu, Grafarvogi, en þetta er fyrsti völlurinn af fjórum sem verða reistir. Þarna verða meðal annars World War II þema og Mummy þema, þeas. Egyptaland.

Samkvæmt mínum upplýsingum verður ekki lægra verð á þeim velli, en núna kostar 3900 kr. á mann og 1300 kr. auka skot í Straumsvík, núverandi velli félagsins.

Hér er fréttin:
Göngugarpar á leið sinni um Gufunesið hafa rekið augun í timburhúsaþyrpingu í anda Villta vestursins. Þar er um að ræða fyrsta hlutann af skemmtigarði sem athafnamaðurinn Eyþór Guðjónsson er að reisa á svæðinu. „Þetta er Villta vestrið," segir Eyþór dulur.

Þessi sviðsmynd mun vera ætluð sem paintball-svæði og er hönnuð af Hollywood-leikmyndahönnuðinum Robb Wilson King sem hefur hannað leikmyndir fyrir yfir fimmtíu Hollywood-myndir. Eyþór vill sem minnst gefa upp um hvernig svæðið verður í sinni lokamynd en eftir þeim upplýsingum sem blaðamaður fékk á svæðinu á eftir að mála þyrpinguna og hengja upp ýmis skilti. Einnig verður komið fyrir hestvögnum og hengingargálga svo eitthvað sé nefnt.

Eyþór segir að garðurinn, sem líklegast mun heita Skemmtigarðurinn í Grafarvogi, sé hugsaður fyrir fullorðna fólkið, frekar en börn. Á meðan Húsdýragarðurinn sé gerður fyrir börnin, en foreldrarnir komi með, þá sé þessi garður hugsaður fyrir fullorðna fólkið, en með tíð og tíma muni börnin geta komið með. Einnig sé hann kjörinn fyrir erlenda ferðamenn, en skortur er á afþreyingu fyrir þá að mati Eyþórs.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Villta vestrið vera einungis fyrsta af fleiri sviðsmyndum sem munu rísa í skemmtigarðinum. Einnig er stefnt að því að gera par 3 golfvöll í kringum sviðsmyndirnar. Rætt er um að Eyþór muni nýta þau sambönd sem hann hefur í Hollywood talsvert í uppbyggingu garðsins, sem sýnir sig best á leikmyndahönnuðinum sem gerði Villta vestrið. Eyþór þekkir vel til í kvikmyndaheimi Bandaríkjanna en hann og leikstjórinn Eli Roth eru góðir vinir en einnig hefur farið vel á með Eyþóri og Quentin Tarantino. Eyþór lék til að mynda í hryllingsmyndinni Hostel og var meðframleiðandi að Hostel Part II.

Hingað til hefur Eyþór haldið úti paintball-svæði í Straumsvík en það mun flytjast í Gufunesið þegar Villta vestrið verður tilbúið.
Myndirnar úr féttinni

Fréttin ásamt myndum(stækkið)